18.10.2022

Samkeppniseftirlitið heimilar samruna Haga hf. og Eldum rétt ehf. án íhlutunar

  • Hagar-eldum-rett-samruni

Samkeppniseftirlitið hefur lokið rannsókn sinni á kaupum Haga hf. („Hagar“) á öllu hlutafé í Eldum rétt ehf. („Hagar“). Samkeppniseftirlitið hefur heimilað samrunann án íhlutunar en ákvörðun eftirlitsins má nálgast hér.

Samruninn var tekinn til ítarlegrar rannsóknar, í ljósi sterkrar stöðu Haga á dagvörumarkaði, umfangs Eldum rétt í sölu á matarpökkum og gagna málsins að öðru leyti. Í sumar var aðilum samrunans birt andmælaskjal þar sem lýst var því frummati eftirlitsins að samruninn raskaði samkeppni. Ritun andmælaskjals er liður í ítarlegri rannsókn samkeppnisyfirvalda og miðar að því að tryggja að allar upplýsingar og sjónarmið liggi fyrir við endanlega ákvörðun. Af eðli andmælaskjala leiðir að frummat sem fram kemur í þeim getur tekið breytingum ef frekari sjónarmið málsaðila og rannsókn Samkeppniseftirlitsins kallar á slíkt.

Samrunaaðilar settu fram sjónarmið til svars við andmælaskjali Samkeppniseftirlitsins. Einnig lögðu Hagar fram tillögur að skilyrðum í því skyni að mæta áhyggjum eftirlitsins.

Í framhaldinu óskaði Samkeppniseftirlitið eftir athugasemdum og sjónarmiðum markaðsaðila um annars vegar frummat Samkeppniseftirlitsins og hins vegar andmæli samrunaaðila við andmælaskjalinu. Með þessari viðbótarathugun aflaði Samkeppniseftirlitið frekari sjónarmiða og gagna hjá samrunaaðilum og öðrum markaðsaðilum, ásamt því að aflað var frekari upplýsinga, meðal annars um þróun í sölu samsettra matarpakka í nágrannalöndum.

Á grunni þessarar rannsóknar er það niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að heimila beri samrunann án íhlutunar. Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins er gerð ítarleg grein fyrir rannsókn málsins og niðurstöðum hennar. Þar er fjallað um skilgreiningu markaða málsins og stöðu aðila á þeim mörkuðum sem þeir starfa, ásamt öðrum forsendum ákvörðunarinnar.

Nánari umfjöllun er að finna í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 23/2022 .