Leiðbeiningar um undantekningar frá banni við samráði - Samkeppniseftirlitið leitar sjónarmiða
Samkeppniseftirlitið birtir nú til umsagnar drög að leiðbeiningum um undantekningar samkvæmt 15. gr. samkeppnislaga, frá banni við samráði (10. gr.) og samkeppnishömlum (12. gr.).
Frá næstu áramótum munu fyrirtæki sem hyggja á samstarf þurfa að meta sjálf hvort slíkt samstarf stenst samkeppnislög. Sömuleiðis þurfa samtök fyrirtækja að meta hvort starfsemi þeirra uppfylli kröfur samkeppnislaga.
Frá og með sama tímamarki verður felld niður heimild Samkeppniseftirlitsins til þess að veita fyrirtækjum og samtökum fyrirtækja undanþágur frá banni við ólögmætu samráði og samkeppnishömlum. Verður Samkeppniseftirlitinu óheimilt að gefa bindandi álit á því hvort samstarf fyrirtækja uppfylli kröfur 15. gr. laga.
Skilyrði 15. gr. fyrir samstarfi fyrirtækja verða hins vegar óbreytt að öðru leyti en því að ábyrgð á matinu verður fært á herðar viðkomandi fyrirtækja.
Mælt er fyrir um þessar breytingar í lögum nr. 103/2020 um breytingar á samkeppnislögum.
Við mótun meðfylgjandi draga að leiðbeiningum er horft til sambærilegra leiðbeininga í nágrannalöndum, auk þess sem tekið er mið af leiðbeiningum Eftirlitsstofnunar EFTA („ESA“) um sjálfsmat fyrirtækja, en þær hafa fullt leiðbeiningagildi hér á landi. Ennfremur er horft til úrlausna úr íslenskri og evrópskri réttarframkvæmd.
Í drögunum er einkum fjallað um eftirfarandi:
- Breytingar og hvað þær þýða fyrir fyrirtæki og samtök þeirra.
- Mat á því hvort samstarf er heimilt eða ekki.
- Kröfur um sönnun fyrir því að undantekningar laganna eigi við.
- Skilyrði 15. gr. fyrir undantekningum frá banni við samstarfi og samkeppnishömlum.
Samkeppniseftirlitið hvetur alla áhugasama til að koma á framfæri sjónarmiðum og ábendingum um hjálögð drög að leiðbeiningum um beitingu 15. gr. samkeppnislaga. Er þess óskað að sjónarmið berist Samkeppniseftirlitinu eigi síðar en 27. nóvember 2020, á netfangið samkeppni@samkeppni.is .
Samhliða hyggst Samkeppniseftirlitið boða til opins fjarfundar (Samtal um samkeppni) þar sem áhugasömum gefst tækifæri til að taka þátt í umræðum um leiðbeiningarnar og hlusta á sjónarmið. Fjarfundurinn verður kynntur nánar síðar.
Drög að leiðbeiningum um beitingu 15. gr. samkeppnislaga má finna hér (pdf).