26.6.2018

Samkeppniseftirlitið leitar sjónarmiða vegna framboðinna tillagna N1 að skilyrðum vegna samruna þess við Festi

Samkeppniseftirlitið leitar í dag sjónarmiða vegna framboðinna tillagna N1 hf. að skilyrðum vegna kaupa félagsins á Festi hf. Telur N1 að tillögurnar séu til þess fallnar að eyða þeim samkeppnishindrunum sem Samkeppniseftirlitið hefur talið að leitt gætu af samrunanum.

Tillögur N1 lúta meðal annars að því að félagið selji frá sér tilteknar eldsneytisafgreiðslustöðvar, sem og vörumerki Dælunnar. Einnig eru lagðar til aðgerðir til að auka aðgengi að heildsölu- og birgðarými eldsneytis og til þess að bregðast við eignatengslum keppinauta á eldsneytismarkaði.

Í því skyni að meta tillögur N1 hefur Samkeppniseftirlitið leitað sjónarmiða hagsmunaaðila á markaði vegna tillagna N1. Með tilkynningu þessari kallar Samkeppniseftirlitið eftir sjónarmiðum allra annarra aðila, t.d. þeirra sem kynnu að hafa áhuga á að hasla sér völl á eldsneytismarkaði og öðrum þeim sem eiga einhvers konar viðskipti á þessu sviði eða sjá á markaðnum viðskiptatækifæri. Þá er einnig kallað eftir frekari sjónarmiðum neytenda.

Til nánari kynningar á málinu veitir Samkeppniseftirlitið aðgang að eftirfarandi gögnum:

Óskað er eftir því að sjónarmið berist eigi síðar en 4. júlí nk. Aðilum er gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri, í bréfi, tölvupósti (samkeppni@samkeppni.is) eða síma (585-0700).

Rannsókn á samrunanum – Tímalína

  • 31. október 2017: Samkeppniseftirlitinu berst upphafleg tilkynning um samrunann. Umfangsmikil rannsókn hefst, þar sem aflað er gagna og sjónarmiða keppinauta og hagsmunaaðila á dagvöru- og eldsneytismarkaði. Rannsókninni lauk 17. apríl 2018, sbr. nánar hér á eftir.
  • 23. nóvember 2017: Samkeppniseftirlitið birtir frétt á heimasíðu sinni þar sem gerð er grein fyrir áherslum eftirlitsins við rannsókn málsins og leitar sjónarmiða. Í framhaldinu hélt upplýsingaöflun og rannsókn málsins áfram.
  • 24. febrúar 2018: Samkeppniseftirlitið birtir samrunaaðilum andmælaskjal, þar sem rökstutt frummat á samrunanum er sett fram. Samkvæmt því er talið að alvarlegar samkeppnishindranir leiði af samrunanum sem bregðast verði við, annað hvort með ógildingu samrunans eða skilyrðum sem eyði umræddum hindrunum. N1 sendir tilkynningu til kauphallar um stöðu málsins þann 25. febrúar 2018.
  • 5. mars 2018: N1 óskar eftir því að ganga til sáttarviðræðna við Samkeppniseftirlitið sbr. og tilkynningu til kauphallar þann 7. mars. Í framhaldinu sendi N1 athugasemdir við andmælaskjalið þar sem m.a. kemur fram það mat að ástæðulaust sé að setja samrunanum skilyrði. Þrátt fyrir mat N1 setti fyrirtækið fram tillögur að skilyrðum.
  • 14. mars 2018: Eftir skoðun á athugasemdum N1 og tillögur að skilyrðum tilkynnir Samkeppniseftirlitið N1 að ekki séu forsendur til sáttarviðræðna, enda sé félagið ósammála öllum efnisþáttum í frummati eftirlitsins og telji ástæðulaust að setja samrunanum skilyrði. N1 tilkynnir um þetta til kauphallar sama dag. Vegna framkominna athugasemda N1 réðist Samkeppniseftirlitið í viðbótarrannsókn á tilteknum þáttum málsins.
  • 9. og 12. apríl 2018: N1 setur fram tillögur að skilyrðum sem félagið telur að geti aukið samkeppni og orðið andlag sáttar í málinu. Í framhaldinu gerir Samkeppniseftirlitið grein fyrir því að tillögurnar séu of seint fram komnar, enda einsýnt að ekki sé mögulegt að ráðast í fullnægjandi rannsókn á áhrifum skilyrðanna innan hins lögboðna frests. Þá sé verulegt álitamál hvort þau séu fullnægjandi. Boðað var að eftirlitið myndi taka ákvörðun í málinu innan frests.
  • 17. apríl 2018: N1 afturkallar samrunatilkynningu sína, rétt fyrir birtingu ákvörðunar í málinu. Samhliða boðar félagið að tilkynnt verði um samrunann á ný, þar sem lögð verði til skilyrði sem til þess séu fallin að ryðja úr vegi samkeppnishindrunum. Sjá nánar frétt Samkeppniseftirlitsins og tilkynningu N1 til kauphallar, dags. sama dag.
  • 16. maí 2018: N1 tilkynnir um samrunann að nýju og leggur fram tillögur að skilyrðum. Hin nýja tilkynning byggist á fyrri tilkynningu vegna samruna fyrirtækjanna og rannsóknum og gögnum hins fyrra máls. Lögmæltir tímafrestir í nýju máli byrja að líða. Í framhaldinu er málið tekið til rannsóknar. M.a. eiga sér stað viðræður um skilyrðin, til undirbúnings því að unnt sé að bera þau undir hagsmunaaðila.
  • 13. júní 2018: Samkeppniseftirlitið sendir hagsmunaaðilum umsagnarbeiðni vegna tillagna að skilyrðum.
  • Í dag, 26. júní 2018:Samkeppniseftirlitið kallar eftir sjónarmiðum annarra aðila, með frétt þessari.

Bakgrunnsupplýsingar:

Reglum samkeppnislaga um samruna er ætlað að koma í veg fyrir að samkeppnislegri gerð markaða sé breytt, með samruna fyrirtækja, á þann hátt að samkeppni hverfi eða skerðist.  

Samrunamál hefjast að frumkvæði samrunaaðila. Ber aðilum samrunans þá að senda Samkeppniseftirlitinu tilkynningu um samrunann og í henni skal veita upplýsingar um atriði sem skipta máli varðandi mat á áhrifum samrunans. Þegar fullnægjandi tilkynning berst veita samkeppnislög Samkeppniseftirlitinu 25 virka daga til að leggja mat á samrunann. Telji Samkeppniseftirlitið þörf á frekari rannsókn á samkeppnislegum áhrifum samrunans hefur það 70 virka daga til þess að taka ákvörðun í málinu frá því það tillkynnir samrunaaðilum um frekari rannsókn eftirlitsins. Ef nauðsynlegt er að afla frekari upplýsinga er Samkeppniseftirlitinu heimilt að framlengja þennan frest um allt að 20 virka daga. Eftir að það lögmælta tímamark er liðið brestur Samkeppniseftirlitinu heimild til íhlutunar vegna samruna.

Framangreindir frestir eru settir til hagsbóta fyrir viðskiptalífið. Í flestum tilvikum gerir Samkeppniseftirlitið ekki athugasemdir við samruna fyrirtækja. Í þeim tilvikum þar sem samruni er talinn hindra virka samkeppni geta samrunaaðilar sett fram tillögur til þess að afstýra röskun á samkeppni. Nauðsynlegt er að tillögur þess efnis berist nægjanlega snemma til að unnt sé að leggja mat á þær. Afstýri tillögurnar samkeppnishindrunum ekki að fullu ógildir Samkeppniseftirlitið samrunann.