26.1.2023

Samkeppniseftirlitið ógildir kaup Kaupfélags Skagfirðinga á Gunnars

Samruninn hefði að óbreyttu leitt til alvarlegrar röskunar á samkeppni í framleiðslu og sölu á majónesi og köldum sósum

  • KS-Gunnars-samruni-ogilding

Samkeppniseftirlitið hefur með ákvörðun sinni í dag ógilt kaup Kaupfélags Skagfirðinga (KS) á Gunnars ehf. Ákvörðunina má nálgast hér.

Með kaupum KS á Gunnars hefðu runnið saman tveir af stærstu framleiðendum á majónesi og köldum sósum á Íslandi. Gunnars er eins og kunnugt er sterkt vörumerki í þessum vöruflokki og KS framleiðir og dreifir sömu vörutegundum undir merkjum E. Finnsson og eftir atvikum Vogabæjar, auk þess sem báðir aðilar framleiða þessar vörur einnig fyrir önnur fyrirtæki. Báðir aðilar selja sömu vörutegundir til dagvöruverslana og stórnotenda.

Að mati Samkeppniseftirlitsins hefði samruninn haft alvarlegar afleiðingar fyrir samkeppni, viðskiptavinum og neytendum til tjóns. Nánar tiltekið snúa skaðleg áhrif samrunans aðallega að eftirfarandi atriðum:

  • Markaðsráðandi staða hefði orðið til á nánar tilgreindum mörkuðum fyrir hreint majónes og aðrar tilbúnar kaldar sósur sem skilgreindir eru nánar í ákvörðuninni. Eru fyrirtækin með mjög sterka stöðu á vörumörkuðum málsins. Þannig hefði sameinað fyrirtæki orðið stærsta fyrirtækið á viðkomandi mörkuðum og með umtalsverða yfirburði yfir helsta keppinaut sinn Kjarnavörur. Þá eru fáir framleiðendur að majónesi hérlendis og hefði þeim fækkað um einn vegna samrunans.
  • Fyrirtækin eru nánir og mikilvægir keppinautar við framleiðslu og sölu á hreinu majónesi og tilbúnum köldum sósum. Með kaupum KS á Gunnars hefði því náinn og mikilvægur keppinautur horfið af sviðinu og þar með það samkeppnislega aðhald sem því fylgir. Aðgangshindranir eru auk þess til staðar sem hindra samkeppni og gera innkomu burðugs keppinautar eða stækkun keppinauta ólíklegri en ella. Þá vegur kaupendastyrkur fárra aðila á dagvörumarkaði ekki upp á móti skaðlegum áhrifum samrunans með fullnægjandi hætti.
  • Skaðleg útilokunaráhrif og lóðrétt samþætting hefði aukist. Fyrir samrunann er Kaupfélag Skagfirðinga lóðrétt samþætt fyrirtæki með fjölþætta og víðfeðma starfsemi. Með samrunanum hefðu umsvif samstæðu Kaupfélagsins og lóðrétt samþætting þess aukist sömuleiðis. Í krafti aukinnar samþættingar og stöðu hins sameinaða fyrirtækis á aðliggjandi vörumörkuðum málsins hefði samruninn haft skaðleg útilokunaráhrif fyrir samkeppni á fráliggjandi mörkuðum, líkt og nánar greinir í ákvörðuninni.

Bakgrunnsupplýsingar

Fullbúin samrunatilkynning barst þann 19. júlí 2022 og hófst þá formleg rannsókn á samrunanum. Þar sem fyrir lá að samruninn myndi leiða til mikillar samþjöppunar var óhjákvæmilegt að taka hann til ítarlegrar rannsóknar. Var samrunaaðilum sérstaklega tilkynnt um það.

Eftir víðtæka gagnaöflun var haldinn stöðufundur með samrunaaðilum í byrjun október, þar sem þeim var gerð rökstudd grein fyrir því frummati eftirlitsins að samruninn myndi skaða samkeppni með alvarlegum hætti. Hafa samrunaaðilar í framhaldinu látið reyna á frummatið með því að koma frekari sjónarmiðum og gögnum á framfæri. Af þeim sökum var rannsókn á samrunanum haldið áfram, gefið út svokallað andmælaskjal þar sem frummat eftirlitsins er ítarlega rökstutt og samrunaaðilum gefinn kostur á að bregðast við því.

Majónes og skyldar vörur hafa verið framleiddar undir vörumerkinu Gunnars allt frá árinu 1960. Fyrirtækið hefur starfað í núverandi mynd frá árinu 2014.

KS hefur fjölþætta og umfangsmikla starfsemi en meginstarfsemi félagsins er matvælaframleiðsla. Samanstendur samstæða og rekstur KS af kjötafurðastöð, dagvöruverslunum, byggingar-vöruverslun, bifreiðaverkstæði, vélaverkstæði, og mjólkursamlagi og mjólkurframleiðslu KS. Einnig er starfsemin auk þess í dótturfélögum félagsins sem eru Bústólpi ehf., Esja Gæðafæði ehf., FISK Seafood ehf., Fóðurblandan hf., Fóðurfélagið ehf., Heilsuprótein ehf., Íslenskar sjávarafurðir ehf., Nýprent ehf., Sláturhús Hellu hf., Sláturhús KVH ehf., Tengill ehf., Trésmiðjan Borg ehf., Vogabær ehf., og Vörumiðlun ehf. Þá er Kaupfélagið hluthafi í Mjólkursamsölunni ehf.

Undir meðferð málsins hafa samrunaaðilar hvorki óskað eftir sáttaviðræðum né lagt fram tillögur að mögulegum skilyrðum með formlegum hætti. Þá hafa samrunaaðilar sérstaklega tekið fram að ekki sé byggt á því að fallast beri á samrunann vegna sjónarmiða um fyrirtæki á fallandi fæti.