3.6.2024

Samkeppniseftirlitið ógildir samruna á markaði fyrir sölu áburðar

  • Nattura

Samkeppniseftirlitið hefur birt ákvörðun um að ógilda kaup Skeljungs ehf. á Búvís ehf. Skeljungur er í eigu SKEL fjárfestingafélags ehf., starfar á fjölbreyttum sviðum íslensks atvinnulífs og sér bændum m.a. fyrir aðföngum, þ.á m. áburði. Búvís sérhæfir sig í sölu aðfanga og tækja til bænda, þ.m.t. sölu áburðar.

Rannsókn Samkeppniseftirlitsins hefur leitt í ljós að Búvís er mikilvægur keppinautur á markaði fyrir innflutning og sölu á áburði og að samruninn hefði að öllu óbreyttu haft umtalsverð skaðleg áhrif á þeim markaði. Því sé óhjákvæmilegt að ógilda samrunann.

Áburður er mikilvægt aðfang í landbúnaði og stór kostnaðarliður hjá bændum. Fyrri rannsóknir Samkeppniseftirlitsins gefa til kynna að samningsstaða bænda gagnvart aðilum sem sjá þeim fyrir þjónustu og aðföngum sé veik, auk þess sem fjárhagsstaða bænda er að jafnaði erfið.

Gögn málsins sýna að Búvís var stofnað sem andsvar við verulegum verðhækkunum á áburði og skorti á samkeppni. Umsagnir bænda, sem aflað var í málinu, sýna einnig að Búvís hafi breytt samkeppnisaðstæðum til hins betra, haldið verðum niðri og bætt þjónustu og viðskiptakjör til bænda. Hætta er á því að aðstæður á markaði færu í fyrra horf hefði orðið af samrunanum.

Búvís og Skeljungur eru nánir keppinautar við sölu áburðar. Þá er Búvís öflugur keppinautur sem veitir öðrum fyrirtækjum samkeppni umfram það sem markaðshlutdeild þess gefur til kynna. Með yfirtöku Skeljungs hefði því horfið það mikilvæga og öfluga samkeppnislega aðhald sem stafar frá Búvís.

Ef yfirtaka Skeljungs á Búvís hefði náð fram að ganga hefði burðugum keppinautum fækkað úr fjórum í þrjá. Veruleg samþjöppun hefði orðið á fákeppnismarkaði umfram það sem ásættanlegt er samkvæmt viðurkenndum viðmiðum samkeppnisréttar.

Þessu til viðbótar hefði fækkun keppinauta á fákeppnismarkaði málsins þær afleiðingar að aðstæður hefðu orðið mun hentugri til samhæfingar, svo sem við verðákvörðun, bændum og neytendum til tjóns.

Þá hafa samrunaaðilar ekki lagt fram fullnægjandi upplýsingar, gögn eða skýringar, þess efnis að samruninn hafi í för með sér hagræðingu eða efnahagslegar framfarir sem mótvægi við skaðleg áhrif samrunans.

Undir meðferð málsins hafa samrunaaðilar hvorki óskað eftir sáttaviðræðum né lagt fram tillögur að mögulegum skilyrðum. Þá hafa samrunaaðilar ekki nýtt heimild samkeppnislaga til þess óska framlengingar á tímafrestum í málinu, í því skyni að skapa rými fyrir frekari rannsókn.

Ítarlegri samantekt, sem og umfjöllun um samrunann, rannsókn eftirlitsins, málsmeðferðina og skaðleg áhrif samrunans, má finna í birtri ákvörðun Samkeppniseftirlitsins hér .