Samkeppniseftirlitið ógildir samruna Læknisfræðilegrar myndgreiningar ehf. og Íslenskrar myndgreiningar ehf.
Samkeppni á heilbrigðissviði styður við velferð
Samkeppniseftirlitið hefur í dag ógilt samruna sem áformaður var með kaupum nýstofnaðs félags Myndgreiningar ehf. á Læknisfræðilegri myndgreiningu ehf. og Íslenskri myndgreiningu ehf. Starfsemi samrunaaðila felst í að veita læknisfræðilega myndgreiningarþjónustu, en undir hana falla m.a. tölvusneiðmyndarannsóknir, röntgenrannsóknir, ómun, segulómun og skyggnirannsóknir. Læknisfræðileg myndgreining býður upp á fjölbreyttar rannsóknir í myndgreiningarþjónustu auk þess að bjóða upp á sérhæfðar kransæðarannsóknir og rekur starfsstöðvar að Egilsgötu 3 í Reykjavík, Þönglabakka 1 í Reykjavík (Læknasetrið Mjódd) og Bíldshöfða 9 í Reykjavík. Íslensk myndgreining sinnir hvers kyns almennum myndgreiningarrannsóknum en meginþungi starfsemi félagsins snýr að stoðkerfisrannsóknum. Íslensk myndgreining rekur starfsstöð sína að Urðarhvarfi 8 Kópavogi.
Í hjálagðri ákvörðun nr. 35/2020 er fjallað um samrunann og komist að þeirri niðurstöðu að með honum hefði keppinautum á markaði fyrir myndgreiningu utan sjúkrahúsa á höfuðborgarsvæðinu fækkað úr þremur í tvo með alvarlegum skaðlegum áhrifum fyrir bæði greiðendur og notendur þjónustunnar. Í kjölfar samrunans hefði samanlögð hlutdeild samrunaaðila á markaðnum orðið mjög há eða á bilinu [80-100]%, eftir því um hvaða tegund myndgreiningarþjónustu er að ræða. Þá var það jafnframt mat Samkeppniseftirlitsins að önnur atriði, s.s. kaupendastyrkur Sjúkratrygginga Íslands eða möguleg hagræðing vegna samrunans, kæmu ekki í veg fyrir skaðleg áhrif samrunans. Endurspeglast það jafnframt í því að Sjúkratryggingar hafa í sjónarmiðum sínum við rannsókn samrunans lagst eindregið gegn honum.
Samkeppniseftirlitið og samkeppnisyfirvöld á Norðurlöndunum hafa bent á mikilvægi þess að nýta virka samkeppni og hvata tengda henni til að auka bæði hagkvæmni og gæði í heilbrigðisþjónustu. Er þetta ekki hvað síst mikilvægt vegna þeirra miklu lýðfræðilegu breytinga sem felast í hækkun meðalaldurs og þar með aukinni þörf á heilbrigðisþjónustu. Á Íslandi og Norðurlöndunum hefur þetta m.a. verið gert með notkun svokallaðra valkerfa (s. valfrihetssystem) sem fela í sér að veitendur heilbrigðisþjónustu keppa sín á milli um notendur en niðurgreiðsla sjúkratrygginga fylgir áfram einstaka skjólstæðingum.
Að mati Samkeppnieftirlitsins er mjög mikilvægt að með beitingu samkeppnislaga sé samkeppni á þessu sviði vernduð. Hefði samruni sá sem til skoðunar var í þessu máli gengið eftir, liggur fyrir að samkeppni í myndgreiningarþjónustu hefði orðið fyrir miklum skaða.
Ítarupplýsingar
Þjónustumarkaður málsins er þjónusta við myndgreiningu utan sjúkrahúsa á höfuðborgarsvæðinu. Það er niðurstaða eftirlitsins að greina megi markaðinn eftir tegundum myndgreiningarrannsókna þar sem takmörkuð staðganga er á milli þeirra, n.t.t. skipta megi markaðnum í segulómanir, tölvusneiðmyndir, röntgen, ómskoðanir og aðrar myndrannsóknir.
Samruninn er láréttur og auk samrunaaðila starfar Myndgreining Hjartavernd á skilgreindum markaði málsins. Niðurstaða Samkeppniseftirlitsins er sú að samrunaaðilar séu mikilvægir og nánir keppinautar með mjög sterka stöðu á heildarmarkaði fyrir þjónustu við myndgreiningar utan sjúkrahúsa á höfuðborgarsvæðinu og að fjöldi aðila á markaðnum fækki úr þremur í tvo við samrunann. Samruninn myndi jafnframt eyða hinu samkeppnislega aðhaldi sem aðilar búa nú við af hendi hvors annars. Á það við hvort sem um er að ræða samkeppni í gæðum, þjónustu, að laða til sín hæft starfsfólki og síðast en ekki síst samkeppni í að veita íslensku heilbrigðiskerfi hvað besta þjónustu fyrir hagkvæmt verð.
Markaðshlutdeild samrunaaðila gefur tilefni til að ætla að við samrunann verði markaðsráðandi staða til eða hún styrkist á markaði fyrir myndgreiningar á höfuðborgarsvæðinu. Í kjölfar samrunans hefði samanlögð hlutdeild samrunaaðila á markaðnum orðið mjög há eða á bilinu [80-100]%, eftir því um hvaða tegund myndgreiningarþjónustu er um að ræða. Breyting á samþjöppun, metinni með HHI stuðlum, er í öllum tilvikum yfir viðmiðum sem litið er til í evrópskum samkeppnisrétti, hvort sem tekið er tillit til myndgreiningarþjónustu LSH, sem mögulegt væri að útvista, eða ekki. Er það skýr vísbending um að samruninn geti haft skaðleg áhrif á samkeppni á skilgreindum markaði málsins. Þá er það niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að fjárhagsupplýsingar gefi til kynna töluverðan efnahagslegan styrkleika hins sameinaða fyrirtækis, sem gæti stuðlað að skaðlegum áhrifum á samkeppni, og breikkað bilið á milli þess og meginkeppinautarins, Myndgreiningar Hjartaverndar. Að mati Samkeppniseftirlitsins eru vísbendingar um að til staðar séu aðgangshindranir inn á skilgreindan markað málsins, sem gera það ólíklegt að inn á markaðinn komi nýir aðilar, þannig að þeir geti veitt sameinuðu fyrirtæki verulegt samkeppnislegt aðhald og þannig dregið verði mögulega úr markaðsstyrk þess.
Þá er það niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að kaupendastyrkur Sjúkratrygginga Íslands muni ekki vega upp á móti þeirri samþjöppun og efnahagslega styrk sem sameinað félag mun hafa. Eins og leiða má af hárri markaðshlutdeild samrunaaðila, aðgangshindrunum að markaðnum og lítilli umframafkastagetu annarra aðila munu samrunaaðilar búa yfir töluverðum markaðsstyrk í samningum við Sjúkratryggingar Íslands verði samruninn að veruleika. Sjónarmið samrunaaðila um að Sjúkratryggingar Íslands geti hætt samningum við samrunaaðila og fært viðskipti yfir til keppinauta ef samrunaaðilar hækka verð, lækka gæði eða draga úr þjónustu í kjölfar samrunans hafa því takmarkað vægi í þessu tilfelli. Endurspeglast það jafnframt í því að Sjúkratryggingar hafa í sjónarmiðum sínum við rannsókn samrunans lagst eindregið gegn honum, en slíkar áhyggjur ættu ekki að vera uppi hjá stærsta greiðanda á þessum markaði ef hann byggi yfir umtalsverðum kaupendastyrk og gæti nýtt hann.
Samrunaaðilar hafa fært rök fyrir því að hagræðing í rekstri hins sameinaða félags komi til með að skila ávinningi til neytanda í formi betri tækni og þjónustu. Það er niðurstaða rannsóknarinnar að samrunaaðilar hafi ekki sýnt fram á það með fullnægjandi hætti að ábati neytenda vegna þeirrar hagræðingar sem hlytist af samrunanum vegi þyngra en þær samkeppnishömlur sem samruninn hefði í för með sér. Þannig uppfylla fyrirliggjandi gögn og upplýsingar um mögulega hagræðingu ekki þau viðmið sem sett eru í samkeppnisrétti að þessu leyti. Þar á meðal hefur ekki verið sýnt fram á að ekki sé unnt að ná fram sömu hagræðingu með öðrum hætti, þ.e. hvort hagræðingaráhrifin séu beintengd samrunanum eða ekki. Að mati Samkeppniseftirlitsins kemur ekki til álita í þessu máli að taka fullt tillit til skilvirkni- eða hagræðingarsjónarmiða við mat á samkeppnislegum áhrifum samrunans. Í framangreindu felst einnig að ekki hefur verið í ljós leitt að samruninn sem slíkur sé mikilvægur fyrir öryggi og gæði þjónustunnar sjálfrar gagnvart þeim sem þurfa að nýta sér þjónustuna. Við mat á framangreindu hafa sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands mikla þýðingu.
Með hliðsjón af framansögðu er það niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að samruninn raski samkeppni og fari gegn 17. gr. c samkeppnislaga. Ógildir Samkeppniseftirlitið því samrunann.