17.4.2023

Samkeppniseftirlitið óskar eftir sjónarmiðum vegna athugunar á stjórnunar- og eignatengslum fyrirtækja í sjávarútvegi – Upplýsingasíða opnuð

  • Frett-sjavarutvegur-og-eignatengsl-mynd1

Í október síðastliðnum greindi Samkeppniseftirlitið frá ákvörðun um að hefja athugun á stjórnunar- og eignatengslum í íslenskum sjávarútvegi. Niðurstöður athugunarinnar verða settar fram í sérstakri skýrslu, en gert er ráð fyrir að hún liggi fyrir í lok árs 2023.

Vegna athugunarinnar hefur Samkeppniseftirlitið nú opnað upplýsingasíðu á heimasíðu sinni þar sem gerð er grein fyrir athuguninni, undirbúningi og framvindu hennar hingað til, auk þess sem sett er fram áætlun um tilhögun og áfangaskiptingu athugunarinnar héðan í frá (verkefnaáætlun).

Er þessari upplýsingagjöf ætlað að stuðla að gagnsæi athugunarinnar. Jafnframt er hverjum sem áhuga hefur gefinn kostur á að koma sjónarmiðum og upplýsingum á framfæri.

Á þessu stigi vinnunnar er sjávarútvegsfyrirtækjum, sem og öllum öðrum sem þess óska, gefinn kostur á að tjá sig um verkefnaáætlunina, athugunina eða annað það sem viðkomandi vill koma á framfæri við eftirlitið. Óskað er eftir að slíkar athugasemdir berist Samkeppniseftirlitinu á póstfangið samkeppni@samkeppni.is eigi síðar en 5. maí 2023.

Jafnframt er öllum gefinn kostur á að koma á framfæri ábendingum í tilefni af athuguninni, svo sem um stjórnunar- og eignatengsl sjávarútvegsfyrirtækja, innbyrðis eða gagnvart öðrum atvinnugreinum. Slíkum ábendingum er hægt að koma á framfæri í gegnum gátt á heimasíðu eftirlitsins (nafnlaust ef óskað er), eða með tölvupósti á samkeppni@samkeppni.is.

Á upplýsingasíðunni er meðal annars gerð grein fyrir eftirfarandi:

  • Athugunin og að hverju hún beinist.
  • Fyrirtæki og markaðir sem athugunin tekur til.
  • Helstu áfangar athugunarinnar.
  • Undirbúningur, skipun ráðgjafarhóps og tenging við gagnagrunna.
  • Yfirstandandi gagnaöflun gagnvart sjávarútvegsfyrirtækjum.
  • Framhald athugunarinnar – næstu skref.
  • Lagagrundvöllur athugunarinnar.
  • Heimild Samkeppniseftirlitsins til gagnaöflunar.
  • Þýðing hugtaksins „yfirráð“ við greiningu á stjórnunar- og eignatengslum.
  • Þýðing stjórnunar- og eignatengsla á vettvangi stjórnvalda.

Fiskistofa annast framkvæmd laga um stjórnun fiskveiða og sinnir eftirliti samkvæmt þeim. Samstarf stofnananna vegna athugunarinnar er því mikilvægt.