Samkeppniseftirlitið óskar eftir sjónarmiðum vegna fyrirhugaðra kaupa Nordic Visitor hf. á Iceland Travel ehf., og kaupa AU1 ehf. á Nordic Visitor hf.
Samkeppniseftirlitinu barst tilkynning um samruna vegna kaupa Nordic Visitor hf. (hér eftir „Nordic Visitor“) á Iceland Travel ehf. (hér eftir „Iceland Travel“) annars vegar og kaup AU1 ehf. (hér eftir „AU 1“) á Nordic Visitor hins vegar. Hér má finna samrunaskrá fyrirtækjanna þar sem trúnaðarupplýsingar hafa verið fjarlægðar.
Nordic Visitor er hlutafélag sem starfar á innlendum og erlendum markaði fyrir ferðaskrifstofur sem sjá um skipulagðar alferðir til Norður-Evrópu, þ.á.m. Íslands, annarra Norðurlanda, Svalbarða og Bretlandseyja. Nordic Visitor er eigandi alls hlutafjár í einkahlutafélaginu Terra Nova ehf. (hér eftir „Terra Nova“). Terra Nova er einkahlutafélag sem starfar á innlendum og erlendum markaði fyrir ferðaskrifstofur sem sjá um skipulagðar alferðir til evrópskra endursöluaðila á ferðum til Íslands, Noregs og Finnalnds. Þá selur Terra Nova einnig ferðir beint til neytenda undir vörumerkinu Iceland Tours. Aðalstarfsemi Terra Nova er þó sala á skipulögðum ferðum til endursöluaðila.
Iceland Travel er einkahlutafélag sem starfar á innlendum og erlendum markaði fyrir ferðaskrifstofur sem sjá um skipulagðar alferðir til alþjóðlegra endursöluaðila á ferðum til Íslands og Grænlands. Þá selur Iceland Travel einnig ferðir beint til neytenda. Aðalstarfsemi Iceland Travel er sala á skipulögðum ferðum til endursöluaðila.
AU 1 er eignahaldsfélag í 100% eigu framtakssjóðsins Umbreytingar slhf. (hér eftir „Umbreyting“). AU 1 hefur ekki haft með höndum neinn rekstur frá því það var stofnað og á ekki eignarhlut í öðrum félögum. Umbreyting er framtakssjóður sem leggur áherslu á umbreytingarverkefni. Félagið fjárfestir í hlutafé fyrirtækja og er í eigu stofnana- og einkafjárfesta. Alfa er bæði rekstrar- og ábyrgðaraðili Umbreytingar, ásamt því að gegna hlutverki framkvæmdastjóra.
Í samræmi við 17. gr. c. samkeppnislaga nr. 44/2005 beinist rannsókn Samkeppniseftirlitsins að því hvort samruni fyrirtækjanna hindri virka samkeppni með því að markaðsráðandi staða verði til eða styrkist, eða hann verði til þess að samkeppni raskist að öðru leyti með umtalsverðum hætti, þannig að samruninn krefjist mögulegrar íhlutunar.
Samkeppniseftirlitið kallar hér með eftir athugasemdum og sjónarmiðum allra hagsmunaaðila og annarra sem kunna að vilja tjá sig um samrunann, svo sem um möguleg jákvæð eða neikvæð áhrif hans á samkeppni í ferðaþjónustu.
Er þess óskað að umsagnir berist með tölvupósti á samkeppni@samkeppni.is innan tveggja vikna eða í síðasta lagi 23. júlí nk.