Samkeppniseftirlitið samþykkir samruna móðurfélags Airport Associates og Suðurflugs ehf.
Samkeppniseftirlitið hefur haft til skoðunar samruna REA ehf., móðurfélags Airport Associates, og Suðurflugs ehf. Airport Associates er flugþjónustuaðili á Keflavíkurflugvelli sem einkum þjónustar farþegaflug. Suðurflug er flugþjónustuaðili sem jafnframt starfar á Keflavíkurflugvelli og sinnir einkum öðru flugi en farþegaflugi, s.s. einkaflugi.
Undir meðferð málsins aflaði Samkeppniseftirlitið ýmissa gagna frá samrunaaðilum og hagsmunaaðilum, m.a. til þess að meta markaðshlutdeild á mörkuðum málsins.
Af gögnum málsins virtum er það niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að samruni REA ehf. og Suðurflugs ehf. leiði ekki til þess að markaðsráðandi staða verði til eða styrkist, eða að samkeppni verði raskað að öðru leyti með umtalsverðum hætti. Af þeim sökum er það niðurstaða eftirlitsins að ekki séu forsendur til að aðhafast vegna þessa samruna. Í ljósi aðstæðna og áhrifa yfirstandandi heilsuvár á verkefni Samkeppniseftirlitsins verður ákvörðun, þar sem nánar er fjallað um rannsóknina, birt innan skamms á vefsíðu Samkeppniseftirlitsins.