Samkeppniseftirlitið samþykkir samruna Olís og Mjallar-Friggjar með skilyrðum
Samkeppniseftirlitið hefur haft til skoðunar samruna Olíuverzlunar Íslands ehf. (Olís) og Mjallar-Friggjar ehf. Olís er olíufélag en starfar jafnframt á öðrum sviðum, s.s. í sölu á ýmsum rekstrarvörum og efna- og hreinsivörum. Olís markaðssetur þessar vörur í eigin nafni og í gegnum fyrirtækið Rekstrarland. Olís er dótturfélag Haga hf. sem reka m.a. dagvöruverslanirnar Bónus og Hagkaup. Mjöll-Frigg er framleiðslufyrirtæki sem starfar í hreinlætisiðnaði en tilgangur félagsins er m.a. framleiðsla á sápu og öðrum hreinsi- og þvottaefnum.
Með sátt við samrunaaðila, dags. 2. janúar 2020, hefur Samkeppniseftirlitið samþykkt samrunann. Með sáttinni eru samrunanum sett skilyrði sem ætlað er að vernda virka samkeppni á þeim mörkuðum sem samruninn nær til. Markmið sáttarinnar er að tryggja að samrunaaðilar beiti ekki sterkri stöðu sinni á dagvörumarkaði, og eftir atvikum tengdum mörkuðum, til þess að takmarka samkeppni á öðrum mörkuðum (lóðrétt áhrif). Með sáttinni er þannig kveðið á um jafnræði og jafnt aðgengi viðskiptavina að þjónustu Mjallar-Friggjar á sviði átöppunar og framleiðslu. Er Mjöll-Frigg þannig óheimilt að mismuna viðskiptavinum sínum, s.s. með því að veita Olís og öðrum tengdum fyrirtækjum betri skilmála og kjör en öðrum viðskiptavinum.
Sjá meðfylgjandi sátt SE og Olís , dags. 2. janúar 2020.
Ákvörðun þar sem nánar er fjallað um rannsóknina og ákvæði sáttarinnar verður birt innan skamms á vefsíðu Samkeppniseftirlitsins.