Samkeppniseftirlitið samþykkir samruna Torgs ehf. og Frjálsrar fjölmiðlunar ehf
Samkeppniseftirlitið samþykkir samruna Torgs ehf. og Frjálsrar fjölmiðlunar ehf.
Samkeppniseftirlitið hefur haft til skoðunar samruna Torgs ehf. (Torg) og Frjálsrar fjölmiðlunar ehf. (Frjáls fjölmiðlun). Torg er útgáfufélag Fréttablaðsins og rekur fréttavefinn frettabladid.is. Þá á Torg dótturfélagið Hringbraut fjölmiðla ehf. Frjáls fjölmiðlun er útgáfufélags dagblaðsins DV og rekur jafnframt vef undir sama nafni. Undir meðferð málsins aflaði Samkeppniseftirlitið ýmissa gagna frá samrunaaðilum og hagsmunaaðilum. Þar sem um samruna á milli fjölmiðlaveitna er að ræða aflaði Samkeppniseftirlitið umsagnar fjölmiðlanefndar um áhrif samrunans á fjölræði og fjölbreytni í samræmi við ákvæði 62. gr. b. fjölmiðlalaga ásamt því að eiga fundi með fjölmiðlanefnd.
Af gögnum málsins virtum er það niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að samruni Torgs og Frjálsrar fjölmiðlunar leiði ekki til þess að markaðsráðandi staða verði til eða styrkist, eða að samkeppni verði raskað að öðru leyti með umtalsverðum hætti. Þá er það jafnframt niðurstaða eftirlitsins, með hliðsjón af umsögn fjölmiðlanefndar, að ekki sé tilefni til að grípa til íhlutunar vegna áhrifa samrunans á fjölræði og fjölbreytni í fjölmiðlun. Af þeim sökum er það niðurstaða eftirlitsins að ekki séu forsendur til að aðhafast vegna þessa samruna. Í ljósi aðstæðna og áhrifa faraldurs COVID-19 á verkefni Samkeppniseftirlitsins verður ákvörðun, þar sem nánar er fjallað um rannsóknina, birt innan skamms á vefsíðu Samkeppniseftirlitsins.