10.11.2020

Samkeppnismat OECD: 438 tillögur til að efla samkeppni í ferðaþjónustu og byggingariðnaði

Í dag voru kynntar niðurstöður ítarlegrar greiningarvinnu þar sem Samkeppniseftirlitið, stjórnvöld og hagsmunaaðilar hafa, undir verkstjórn OECD, komið auga á samkeppnishindranir í ferðaþjónustu og byggingariðnaði. Settar eru fram 438 tillögur um úrbætur sem til þess eru fallnar að efla þessar greinar til framtíðar, til hagsbóta fyrir neytendur og almenning, atvinnulífið og íslenskt efnahagslíf.

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins:
„Samkeppnismatið byggir á einfaldri aðferðafræði: Að setja sig í spor t.d. ungs pars sem hefur hug á því að koma sér nýju þaki yfir höfuðið, fylgja þeim eftir þegar þau finna sér lóð, átta sig á því hvernig má nýta hana, láta teikna húsið, fá síðan fjölmargar ólíkar starfsstéttir til liðs við sig við bygginguna, með tilheyrandi eftirliti, standsetja húsið og flytja inn.

Og að setja sig í spor ferðamannsins, sem ákveður að fara til Íslands, lendir á Keflavíkurflugvelli, velur sér ferðamáta á áfangastað, bókar sig inn á hótel, fær sér að borða og skoðar sig um og hverfur síðan á braut.

Og spurningin sem leitað er svara við er þessi: Hvernig getum við gert líf þessa fólks auðveldara og hagkvæmara? Ekki bara fyrir þau. Það er nefnilega þannig að ef okkur tekst að gera líf þessa fólks auðveldara og hagkvæmara þá munu þau ekki bara njóta þess, heldur munu fyrirtækin sem starfa í samkeppnishæfara umhverfi njóta þess, starfsmenn þeirra munu njóta þess, byggingarkostnaður verður lægri, umgjörð ferðaþjónustu verður sterkari, kaupmáttur mun aukast og efnahagslífið verður öflugra.“

Hér nálgast upplýsingar um samkeppnismatið: