Samruni Haga og Eldum rétt – Sjónarmiða aflað vegna frummats Samkeppniseftirlitsins og andmæla samrunaaðila
Samkeppniseftirlitið hefur til rannsóknar fyrirhuguð kaup Haga hf. („Hagar“) á Eldum rétt ehf. („Eldum rétt“). Viðskiptin falla undir samrunareglur samkeppnislaga og er rannsóknin háð lögbundnum tímafrestum. Upphaf málsins má rekja til forviðræðna á milli Haga og Samkeppniseftirlitsins í upphafi árs, en samrunatilkynning barst eftirlitinu þann 7. apríl 2022. Samkeppniseftirlitið tilkynnti aðilum um frekari rannsókn á samkeppnislegum áhrifum samrunans með bréfi dags. 17. maí 2022.
Rannsókn Samkeppniseftirlitsins á samkeppnislegum áhrifum samrunans hefur verið umfangsmikil, en Samkeppniseftirlitið hefur m.a. framkvæmt athugun á meðal hagsmunaaðila og neytendakönnun á meðal viðskiptavina matarpakkafyrirtækja til viðbótar við ítarlega greiningu á gögnum og upplýsingum sem fylgdu samrunatilkynningu og frekari gögnum sem aflað hefur verið við meðferð málsins.
Á grunni framangreindrar rannsóknar og í samræmi við málsmeðferðarreglur birti Samkeppniseftirlitið samrunaaðilum andmælaskjal, dags. 29. júlí 2022. Í andmælaskjalinu er að finna ítarlegt frummat eftirlitsins um samkeppnisleg áhrif fyrirhugaðs samruna, en frummatið er þess efnis að samruninn raski samkeppni og tilefni sé til þess að grípa til íhlutunar á grundvelli 17. gr. c samkeppnislaga. Frummatið er sett fram með óbindandi hætti í andmælaskjali í þeim tilgangi að auðvelda samrunaaðilum að nýta andmælarétt sinn og stuðla að því að rétt ákvörðun verði tekin í málinu.
Frummat Samkeppniseftirlitsins
Samandregið frummat Samkeppniseftirlitsins er að samruni Haga og Eldum rétt leiði til styrkingar á markaðsráðandi stöðu Haga á dagvörumarkaði og sömuleiðis á markaðsráðandi stöðu Eldum rétt á líklegum markaði fyrir sölu samsettra matarpakka í gegnum netið. Þannig sé um að ræða samruna tveggja markaðsráðandi fyrirtækja á tengdum mörkuðum. Sé sala samsettra matarpakka meðtalin á dagvörumarkaði mun samruninn jafnframt styrkja markaðsráðandi stöðu Haga á þeim markaði.
Enn fremur er það frummat Samkeppniseftirlitsins að Eldum rétt sé mögulegur keppinautur Haga á dagvörumarkaði og sömuleiðis að Hagar séu mögulegur keppinautur Eldum rétt á líklegum markaði fyrir samsetta matarpakka. Það er frummat Samkeppniseftirlitsins að samruninn feli í sér samruna náinna keppinauta og jafnframt að Eldum rétt sé mikilvægur keppinautur Haga á dagvörumarkaði. Sameinað félag sé líklegt til að geta hindrað stækkun keppinauta sinna. Þá er það einnig frummat Samkeppniseftirlitsins að talsverðar aðgangshindranir séu inn á bæði dagvörumarkað og líklegan markað fyrir verslun með samsetta matarpakka.
Að lokum er það frummat Samkeppniseftirlitsins að í lóðréttri samþættingu og innkaupastyrk Haga felist skaðleg lóðrétt og samsteypuáhrif.
Í bréfi til hagaðila þar sem óskað er eftir sjónarmiðum um frummatið og andmæli samrunaaðila, sem aðgengilegt er hér, má nálgast ítarlegri samantekt á frummati Samkeppniseftirlitsins sem birtist samrunaaðilum í andmælaskjali.
Andmæli Haga og Eldum rétt
Hagar og Eldum rétt brugðust við framangreindu andmælaskjali með því að senda Samkeppniseftirlitinu sjónarmið, dags. 16. ágúst 2022. Í sjónarmiðum beggja félaga er frummati Samkeppniseftirlitsins mótmælt í aðalatriðum og færð rök fyrir því að Samkeppniseftirlitinu beri að gera breytingar á frummati sínu við endanlegt mat sitt á áhrifum samrunans. Auk þess leggja samrunaaðilar til mögulegar mótvægisaðgerðir í tilefni frummatsins.
Sjónarmið Haga, án trúnaðarupplýsinga, eru aðgengileg hér og sjónarmið Eldum rétt hér.
Hagaðilum gefst færi á að koma að sjónarmiðum
Samkeppniseftirlitið hefur í dag sent helstu hagaðilum fyrrgreint bréf, þar sem reifað er frummat Samkeppniseftirlitsins og óskað sjónarmiða um framkomin andmæli samrunaaðila vegna andmælaskjals. Samkeppniseftirlitið telur rétt að gefa öllum sem vilja kost á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri varðandi framangreint. Í þágu rannsóknar málsins er óskað eftir að sjónarmið berist Samkeppniseftirlitinu fyrir lok dags 5. september næstkomandi með tölvupósti á netfangið samkeppni@samkeppni.is.
Meðfylgjandi gögn:
- Bréf Samkeppniseftirlitsins til markaðsaðila vegna kaupa Haga á öllu hlutafé í Eldum rétt, dags. 29. ágúst 2022.
- Athugasemdir Haga við andmælaskjal Samkeppniseftirlitsins, dags. 16. ágúst 2022.
- Athugasemdir Eldum rétt við andmælaskjal Samkeppniseftirlitsins, dags. 16. ágúst 2022.