Samruni Samkaupa og Heimkaupa – umsagnarferli
Samkeppniseftirlitið hefur til rannsóknar samruna Samkaupa hf. og Atlögu ehf. (Heimkaup) en samrunatilkynning barst 18. mars sl. Bæði félögin starfa á dagvörumarkaði en Samkaup reka m.a. verslanir Nettó, Kjörbúðarinnar og Krambúðarinnar, en Heimkaup rekur m.a. verslanir Prís, Heimkaupa og Extra.
Samrunatilkynning Samkaupa og Heimkaupa þar sem fyrirtækin lýsa samrunanum og samkeppni á dagvörumarkaði frá þeirra sjónarhorni er aðgengileg hér.
Samrunaaðilar óskuðu eftir undanþáguheimild til þess að framkvæma samrunann á meðan hann er til rannsóknar. Samkeppniseftirlitið veitti þá heimild hinn 20. mars sl.
Öllum hagaðilum og öðrum áhugasömum er hér með veitt tækifæri til þess að koma á framfæri sjónarmiðum vegna samrunans, svo sem um möguleg áhrif hans á samkeppni, aðstæður á dagvörumarkaði, og um önnur atriði sem fyrirtækin fjalla um í samrunaskrá.
Umsagnir sendist á gogn@samkeppni.is og vegna lögbundinna tímafresta í samrunamálum skulu þær berast eigi síðar en miðvikudaginn 2. apríl nk.
Innihaldi umsagnir trúnaðarupplýsingar er mikilvægt að taka slíkt fram og senda einnig eintak umsagnar án trúnaðarupplýsinga.