1.11.2022

Samþjöppun stöðvuð í íslensku laxeldi

Alþjóðlegt samstarf samkeppnisyfirvalda verndar virka samkeppni á laxeldismarkaði

  • Untitled-design-2022-11-01T073815.404

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins greindi frá því í gær (fréttatilkynning) að rannsókn hennar á samruna norsku fyrirtækjanna Salmar og NTS væri að ljúka með skilyrðum, sem fela í sér að dótturfyrirtækið Arctic Fish verði selt til frá hinu sameinaða fyrirtæki.

Samrunaaðilar og dótturfyrirtæki þeirra starfa við fiskeldi, að mestu í Noregi en einnig á Íslandi, og eru skráð á markað í kauphöllinni í Osló. Einn af fylgifiskum samrunans hefði verið að Arnarlax og Arctic Fish, sem starfrækja sjókvíaeldi á Vestfjörðum, færu undir yfirráð eins aðila. Samanlagt ráða fyrirtækin yfir um tæpum helming af framleiðslugetu miðað við útgefin leyfi fyrir sjókvíaeldi á Íslandi.

Þar sem viðskiptin varða að hluta til íslenska vörumarkaði sem falla utan gildissviðs EES-samningsins var samruninn líka tilkynntur til Samkeppniseftirlitsins. Til þess að tryggja samfellu í rannsókn og niðurstöðum hefur Samkeppniseftirlitið átt í nánu samstarfi við framkvæmdastjórnina. Að fenginni þessari niðurstöðu mun Samkeppniseftirlitið ljúka rannsókn sinni.

Íhlutunin beinist að markaði fyrir íslenskan eldislax

Það var niðurstaða rannsóknar framkvæmdastjórnarinnar að íslenskur eldislax tilheyri sérstökum vörumarkaði. Myndi samruninn að óbreyttu leiða til umtalsverðrar röskunar á samkeppni með því að sameinað fyrirtæki yrði langstærsti framleiðandi að íslenskum laxi inn á EES-svæðið. Að mati framkvæmdastjórnarinnar hefði það leitt til hærra verðs og minni valmöguleika fyrir viðskipti með íslenskan lax. Til að bregðast við þeirri samkeppnisröskun bauðst SalMar til þess að selja frá sér starfsemi NTS hér á landi, nánar tiltekið Arctic Fish.

Eftir markaðsprófun á skilyrðunum var komist að þeirri niðurstöðu að þau kæmu í veg fyrir röskun á samkeppni vegna samrunans. Ákvörðunin er háð því að skilyrðin séu virt að fullu.

Rannsókn málsins í Noregi og Íslandi

Samruninn var einnig tilkynntur norskum samkeppnisyfirvöldum, en þau ákváðu snemma að aðhafast ekki vegna samrunans, sökum takmarkaðra áhrifa hans í Noregi.

Samruninn var tilkynntur til Samkeppniseftirlitsins með fullnægjandi hætti í sumar. Aflað var sjónarmiða og upplýsinga frá markaðs - og hagaðilum sem gáfu meðal annars tilefni til þess að ætla að markaðshlutdeild aðila á líklegum mörkuðum málsins yrði töluverð. Var samrunaaðilum því tilkynnt að ástæða væri til frekari rannsóknar á samkeppnislegum áhrifum samrunans í lok ágúst. Stuttu síðar var samruninn tilkynntur framkvæmdastjórn ESB, en áður höfðu ítarlegar forviðræður átt sér stað.

Fljótlega hófust sáttaviðræður milli samrunaaðila og framkvæmdastjórnarinnar sem lauk með framangreindum hætti. Samkeppniseftirlitið fylgdist með viðræðunum á meðan þeim stóð en eftirlitið yfirfór skilyrði og átti reglulega fundi með framkvæmdastjórninni. Eins og áður segir mun Samkeppniseftirlitið nú ljúka sinni rannsókn, en skilyrði framkvæmdastjórnarinnar er mikilvæg forsenda fyrir lyktum málsins hér á landi.

Við rannsókn málsins óskuðu samrunaaðilar eftir því við Samkeppniseftirlitið að það veitti undanþágu til að framkvæma samrunann, þrátt fyrir yfirstandandi rannsókn, á þeim grundvelli að um væri að ræða yfirtökutilboð samkvæmt norskum lögum og samkvæmt því yrðu aðilar að ganga frá viðskiptunum nú á næstu dögum. Samkeppniseftirlitið hefur veitt þessa undanþágu með tilteknum skilyrðum.