12.7.2024

Símanum og Noona gert að stöðva markaðssetningu sem feli í sér framkvæmd á samruna fyrirtækjanna

  • Foss

Samkeppniseftirlitið hefur í dag tekið ákvörðun til bráðabirgða vegna sennilegs brots Símans hf., Noona Labs ehf. og Noona Iceland ehf. á banni við því að framkvæma samruna áður en Samkeppniseftirlitið hefur tekið afstöðu til hans. Kaup Símans á öllu hlutafé Noona hafa verið tilkynnt Samkeppniseftirlitinu, en fullbúin tilkynning barst eftirlitinu þann 4. júlí sl. Athugun Samkeppniseftirlitsins á samrunanum er því nýhafin.

 

Að mati Samkeppniseftirlitsins gefa gögn og upplýsingar sem eftirlitið hefur undir höndum til kynna að samrunaaðilar hafi þegar hafið markaðssetningu gagnvart nýjum viðskiptavinum á grundvelli samrunans, en Síminn mun taka yfir allan innlendan rekstur Noona Labs með kaupum á Noona Iceland (hér eftir nefnd saman Noona). Gefa gögn jafnframt til kynna að Noona hafi náð til sín nýjum viðskiptavinum á grundvelli þessarar markaðssetningar.

 

Í samkeppnisrétti ESB/EES og íslenskum rétti er lögð á það áhersla að samrunafyrirtæki framkvæmi ekki samruna fyrr en samkeppnisyfirvöld hafa haft tækifæri til að rannsaka samkeppnisleg áhrif hans lögum samkvæmt. Er þetta mikilvægt því eðli máls samkvæmt getur hlotist af því tjón fyrir viðskiptavini eða keppinauta ef samruni er framkvæmdur áður en samkeppnisyfirvöld hafa haft tækifæri til að grípa til mögulegrar íhlutunar.

 

Í bráðabirgðaákvörðuninni er mælt fyrir um skyldu Símans og Noona að láta af af allri markaðssetningu á grundvelli samrunans.

 

Með bráðabirgðaákvörðun þessari er leitast við að tryggja að framkvæmd samrunans sé stöðvuð á meðan eftirlitið fjallar um hann. Í framhaldinu mun Samkeppniseftirlitið taka hin sennilegu brot til nánari rannsóknar.

 

Rétt er að taka skýrt fram að í bráðabirgðaákvörðun þessari felst engin afstaða til kaupa Símans á Noona, þ.e. áhrifa kaupanna á samkeppni, en rannsókn á því er á fyrstu stigum, sbr. samrunatilkynningu þá sem Síminn hefur afhent Samkeppniseftirlitinu vegna samrunans, dags. 4. júlí 2024.

 

Bráðabirgðaákvörðunin gildir til 9. ágúst 2024. Hún er aðgengileg hér .

 

Um bráðabirgðaákvarðanir:

 

Samkvæmt 3. mgr. 16. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 er Samkeppniseftirlitinu heimilt að taka ákvarðanir til bráðabirgða um einstök mál ef sennilegt þykir að sú háttsemi eða þær aðstæður sem til athugunar eru fari gegn ákvæðum samkeppnislaga eða ákvörðunum teknum á grundvelli þeirra. Skilyrði er að málið þoli ekki bið. Í slíkum ákvörðunum er því ekki lagt endanlegt mat á hvort um ólögmæta háttsemi sé að ræða.“