4.6.2024

Skilyrði sem hvíla á Rapyd Europe vegna tiltekinna eldri mála hafa verið endurskoðuð

Við kaup Rapyd Financial Network (2016) Ltd. (hér eftir „Rapyd“) á Valitor hf., sbr. ákvörðun nr. 13/2022, Samruni Rapyd og Valitors hf., færðust skilyrði sem hvílt höfðu á Valitor hf. vegna eldri sátta félagsins við Samkeppniseftirlitið yfir á Rapyd Europe hf., dótturfélag Rapyd hérlendis. Skilyrðin fela m.a. í sér að Rapyd Europe þarf að fylgja tilteknum háttsemisskilyrðum og viðhafa tiltekið skipulag í starfsemi sinni.

Rapyd Europe óskaði eftir endurskoðun Samkeppniseftirlitsins á umræddum skilyrðum tveggja eldri sátta. Þeirri endurskoðun er nú lokið, með því að fyrirtækið hefur gert nýja heildarsátt við Samkeppniseftirlitið á grunni hinna tveggja eldri sátta.

Í hinni nýju heildarsátt hafa verið dregin saman öll þau efnisskilyrði úr viðkomandi eldri sáttum sem enn hafa þýðingu, orðalag hefur verið uppfært og bætt hefur verið við sérstakri grein sem inniheldur skilgreiningar hugtaka. Samhliða gildistöku hinnar nýju heildarsáttar falla úr gildi allar kvaðir umræddra eldri sátta sem hvílt hafa á Rapyd Europe enda koma þær kvaðir sem áfram hafa þýðingu fram í nýju heildarsáttinni.

Þær tvær eldri sáttir sem endurskoðaðar hafa verið eru annars vegar sátt, dags. 15. desember 2014, milli Valitors hf. (nú Rapyd Europe) og Samkeppniseftirlitsins, sbr. ákvörðun eftirlitsins nr. 8/2015, Breytingar á skipulagi og framkvæmd á greiðslukortamarkaði. Hins vegar er um að ræða sátt, dags. 29. nóvember 2007, milli Greiðslumiðlunar hf. (síðar Valitor hf. og nú Rapyd Europe) og Samkeppniseftirlitsins, sbr. ákvörðun eftirlitsins nr. 4/2008, Brot Greiðslumiðlunar hf., Kreditkorts hf. og Fjölgreiðslumiðlunar hf. á bannákvæðum samkeppnislaga, með breytingum skv. ákvörðun nr. 34/2008.

Frá því að framangreindar sáttir voru gerðar hafa sumar forsendur sem lágu þeim til grundvallar breyst með þeim hætti að ýmis ákvæði þeirra hafa ekki lengur þýðingu. Þær forsendur sem um ræðir lúta einkum að eignarhaldi sem hefur gjörbreyst, að innleiðingu á reglugerð ESB um milligjöld og kortatengdar greiðslur, og að margvíslegri þróun í markaðsumhverfi Rapyd Europe að öðru leyti. Að mati Samkeppniseftirlitsins er því bæði málefnalegt og viðeigandi að grisja sáttirnar með þeim hætti sem nú hefur verið gert með því að draga saman þau ákvæði sem enn hafa þýðingu í nýja heildarsátt. Með því skapast skýrari rammi utan um þá verndarhagsmuni sem áfram er nauðsynlegt að tryggja. Á þeim grundvelli er hin nýja umgjörð til þess fallin að stuðla að skilvirkara eftirliti og framfylgni við skilyrðin.

Að efni til er hinni nýju heildarsátt fyrst og fremst ætlað að tryggja að Rapyd Europe geti ekki notið samkeppnisforskots á markaði/mörkuðum fyrir færsluhirðingu hérlendis á grundvelli hlutverks síns sem útgáfuvinnsluaðili fyrir ýmsar helstu innlánsstofnanir landsins. Þau ákvæði sáttarinnar sem ekki miða að þessu markmiði lúta í aðalatriðum almennt að því að styrkja samkeppnislegar undirstöður markaðarins í ljósi framangreinds hlutverks Rapyd Europe á sviði útgáfuvinnslu.