Söguleg samrunaákvörðun framkvæmdastjórnarinnar
Á dögunum ógilti framkvæmdastjórn Evrópusambandsins kaup Illumina á Grail. Illumina er leiðandi líftæknifyrirtæki á sviði meðal annars krabbameinsrannsókna, en Grail er sprotafyrirtæki sem þróað hefur nýja tækni við skimun krabbameins. Bæði félög eru bandarísk.
Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar er söguleg fyrir margra hluta sakir. Þannig er þetta í fyrsta skipti sem framkvæmdastjórn ESB ógildir samruna sem ekki var tilkynningarskyldur, þar sem veltumörk slíkrar skyldu voru ekki uppfyllt. Einnig varpar málið ljósi á þýðingu samkeppnisreglna þegar sprota- og nýsköpunarfyrirtæki eiga í hlut, þar á meðal á heilbrigðissviði.
Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins:
„Samkeppniseftirlitið er virkur þátttakandi í þéttu samstarfi evrópskra samkeppniseftirlita. Í þessu máli óskuðum við, ásamt nokkrum systureftirlitum, eftir því að framkvæmdastjórn ESB rannsakaði samruna sem ekki var tilkynningarskyldur en gat þó haft skaðleg áhrif á baráttuna gegn krabbameini, þar á meðal hér á landi. Niðurstaðan er sú að ESB hefur ógilt yfirtöku stórs líftæknifyrirtækis á mikilvægu sprotafyrirtæki og þar með skapað aðstæður fyrir hraða framþróun á sviði krabbameinsskimana.“
Hærra verð, skert gæði og minni nýsköpun
Forsaga málsins er sú að í apríl á síðasta ári samþykkti framkvæmdastjórn ESB beiðni Samkeppniseftirlitsins og fimm annarra samkeppnisyfirvalda í Evrópu, um að taka samruna Illumina og Grail til meðferðar. Þessar beiðnir voru sendar þrátt fyrir að samruninn sé ekki tilkynningaskyldur í viðkomandi ríkjum þar sem veltuviðmið eru ekki uppfyllt. Framkvæmdastjórnin samþykkti þessar beiðnir, og hóf rannsókn á samrunanum en það var síðan í júlí á þessu ári sem Evrópudómstóllinn staðfesti lögmæti þessara beiðna og rannsókn framkvæmdastjórnarinnar.
Ástæðan fyrir því að Samkeppniseftirlitið og önnur samkeppnisyfirvöld, óskuðu eftir því við framkvæmdastjórn ESB að samruninn yrði rannsakaður, er vegna þeirra mögulegu neikvæðu áhrifa sem samruni líftæknifélaganna gæti haft og leitt meðal annars til hærra verðs, skertra gæða, minni nýsköpunar á mikilvægum mörkuðum er snerta krabbameinsskimanir.
Niðurstaða framkvæmdastjórnar ESB frá því í síðustu viku er sú að samruninn hefur neikvæð áhrif á samkeppni á markaði fyrir krabbameinsskimanir, en samkeppni á honum er mikil og mun breyta hvernig skimað verður fyrir krabbameini til framtíðar. Illumina býr yfir ákveðinni tækni sem gerir öðrum félögum, líkt og Grail, ókleift að starfa án þess að vera í samstarfi við félagið. Með kaupum Illumina á Grail, hefði fyrirtækið hafið beina samkeppni á sviði krabbameinsskimunar, í stað þess að selja slíkum fyrirtækjum fyrst og fremst nauðsynlega tækni.
Framkvæmdu samrunann á meðan rannsókn stóð
Að mati framkvæmdastjórnarinnar kæmist Illumina í þá stöðu að geta komið í veg fyrir að keppinautar Grail hefðu aðgang að nauðsynlegri tækni til þess að geta þróað áfram sínar vörur. Því hafi samruninn meðal annars neikvæð áhrif á nýsköpun á þessum mikilvæga markaði. Þá voru þau skilyrði sem Illumina lagði til ekki nægjanleg til þess að vega upp á móti neikvæðum áhrifum samrunans.
Þrátt fyrir að samþykki samkeppnisyfirvalda lægi ekki fyrir, ákváðu félögin að framkvæma samrunann seint á síðasta ári. Hefur samruninn því þegar átt sér stað, án leyfis samkeppnisyfirvalda, en samrunaaðilum er almennt óheimilt að framkvæma samruna á meðan hann er til meðferðar hjá samkeppnisyfirvöldum. Þarf því að vinda ofan af samrunanum, og tryggja sjálfstæði Grail að nýju.
Þetta samrunamál er ágætis dæmi um hvernig samkeppnisyfirvöld í Evrópu vinna náið saman, og að samrunar sem hafa áhrif hér á landi geta komið til rannsóknar og skoðunar hjá framkvæmdastjórn ESB.
Tenglar á bakgrunnsupplýsingar:
- Ræða Margrethe Vestager, varaforseta framkvæmdastjórnar ESB og formanns samkeppnisnefndar um ákvörðunina
- Síða málsins á vefsíðu framkvæmdastjórnarinnar og lýsing á samruna
- Fréttatilkynning Illumina vegna ákvörðunarinnar
- Frétt SE frá apríl 2021 um samþykki framkvæmdastjórnarinnar á beiðni um rannsókn
- Frétt SE frá ágúst 2021 um rannsókn framkvæmdastjórnarinnar