Tilmæli um að starfsumhverfi einkarekinna og opinberra heilsugæslustöðva verði jafnað
Í nýlegri fjölmiðlaumfjöllun um stöðu einkarekinna heilsugæslustöðva gagnvart ríkisreknum stöðvum, hefur verið vísað til tilmæla Samkeppniseftirlitsins til heilbrigðisráðuneytisins frá árinu 2017.
Umrædd tilmæli voru sett fram í bréfi til heilbrigðisráðherra í október 2017, sem aðgengilegt er hér . Í bréfinu er fjallað um mikilvægi þess að notendur heilsugæslustöðva geti flutt sig milli heilsugæslustöðva og þannig skapað hvata fyrir stöðvarnar til að bæta þjónustu, skilvirkni og hagkvæmni í kerfinu.
Sömuleiðis er í bréfinu lögð áhersla á mikilvægi þess að tryggja jafnræði á þeim sviðum þar sem samkeppni hefur verið komið á milli opinberra og einkarekinna fyrirtækja. Í bréfinu eru nokkur atriði nefnd sem huga þurfi að:
- Tryggja þurfi að Landspítalinn mismuni ekki aðilum í verðlagningu á rannsóknarþjónustu.
- Gerð er að umtalsefni sú mismunun sem felst í því að opinberar heilbrigðisstofnanir þurfi ekki að kaupa sjúklingatryggingu af tryggingafélögum með sama hætti og einkareknar stofnanir og bent á úrræði sem Sjúkratryggingar hafi lagt til, til þess að jafna slíkan kostnaðarmun.
- Bent er á mikilvægi þess að rafræn sjúkraskrárkerfi hins opinbera séu þannig úr garði gerð að auðvelt sé fyrir stofnanir að nýta sér aðrar hugbúnaðarlausnir til þess að bæta þjónustu.
- Lögð er áhersla á mikilvægi þess að skattkerfið mismuni ekki keppinautum eftir rekstrarformi þeirra.
Með hliðsjón af þessu beindi Samkeppniseftirlitið eftirfarandi tilmælum til ráðherra:
- Almenn skoðun fari fram á þeirri mismunandi aðstöðu sem annars vegar opinberar og hins vegar einkareknar heilsugæslustöðvar búa við. Heilbrigðisráðherra beiti sér m.a. fyrir því að mismunandi aðstaða opinberra og einkarekinna heilsugæslustöðva þegar kemur að sjúklingatryggingum verði skoðuð og að gripið verði til aðgerða til að jafna samkeppnisstöðu aðila að þessu leyti.
- Tryggt sé að Landspítali mismuni ekki viðskiptaaðilum við verðlagningu á rannsóknarþjónustu.
- Að skýr og afmarkaður rammi verði settur utan um samskipti og samninga milli Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins og einkarekinna heilsugæslustöðva.
- Að skattaleg meðferð rekstrar annars vegar opinberra og hins vegar einkarekinna heilsugæslustöðva verði sem jöfnust.