21.12.2022

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd birtir álit um stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar

Verkefnaáætlun Samkeppniseftirlitsins uppfærð

  • Uppfaerd-verkefnaaaetlun-v-Rikisendurskodunar

Á heimasíðu Alþingis hefur verið birt nefndarálit meirihluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar vegna skýrslu Ríkisendurskoðunar um stjórnsýsluúttekt á Samkeppniseftirlitinu. Nefndarálitið er aðgengilegt hér.

Þegar skýrsla Ríkisendurskoðunar kom út opnaði Samkeppniseftirlitið upplýsingasíðu á heimasíðu sinni og birti verkefnaáætlun vegna tilmæla og ábendinga sem fram komu í skýrslunni. Einnig bauð eftirlitið hagaðilum að koma sjónarmiðum á framfæri.

Í tilefni af nefndaráliti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hefur verkefnaáætlunin og upplýsingasíðan nú verið uppfærð. Hin uppfærða verkefnaáætlun er aðgengileg hér.

Nánar um nefndarálitið

Í nefndarálitinu er fjallað um þá meginniðurstöðu Ríkisendurskoðunar að málsmeðferðartími samrunamála hafi ekki verið óeðlilega langur eða viðvarandi veikleikar í afgreiðslu þeirra. Hins vegar er vikið að ýmsum atriðum í starfi Samkeppniseftirlitsins og niðurstöðum Ríkisendurskoðunar.

Meðal annars er hvatt til þess að eftirlitið leggi áframhaldandi áherslu á fræðslu til fyrirtækja og annarra hagaðila. Einnig er hvatt til þess að forviðræður í samrunamálum verði útfærðar frekar með aukna skilvirkni rannsókna að leiðarljósi. Fjallað er um skipun ráðuneytis á stjórn og mikilvægi þess að standa vörð um sjálfstæði eftirlitsins. Ennfremur er fjallað um skipun eftirlitsaðila við framkvæmd á sáttum sem Samkeppniseftirlitið gerir við fyrirtæki og mælst til þess að útfæra mikilvæg atriði um eftirlitsaðila nánar í verklagsreglum.

Þá er gert að umtalsefni að mikilvægt sé að tryggja að Samkeppniseftirlitið sé ekki háð sjónarmiðum eða umsögnum annarra opinberra aðila um stöðu tiltekinna markaða, enda hafi aðrir opinberir aðilar hagsmuna að gæta sem Samkeppniseftirlitið þurfi að hafa burði til að leggja sjálfstætt mat á.

Að lokum er lýst yfir ánægju með að eftirlitið hafi opnað upplýsingasíðu og birt verkefnaáætlun vegna tilmæla Ríkisendurskoðunar.