Úrskurður um brot Símans á sátt við Samkeppniseftirlitið felldur úr gildi í héraði
Með dómi sínum í dag hefur Héraðsdómur Reykjavíkur fellt úr gildi úrskurð áfrýjunarnefndar samkeppnismála í máli nr. 1/2020, þar sem staðfest var sú niðurstaða Samkeppniseftirlitsins (ákv. nr. 25/2020) að Síminn hefði brotið gegn sátt sem fyrirtækið gerði við Samkeppniseftirlitið þann 15. apríl 2015. Jafnframt er felld út gildi stjórnvaldsekt Símans vegna brotsins, að fjárhæð 200 milljónir króna.
Í fyrrgreindum úrskurði áfrýjunarnefndar var staðfest að Síminn hefði brotið áðurnefnda sátt með því að tvinna saman fjarskiptaþjónustu og línulega sjónvarpsþjónustu (Enska boltann á Símanum Sport) í svonefndum Heimilispakka. Taldi áfrýjunarnefnd að brot Símans væri alvarlegt og að háttsemi fyrirtækisins hafi verið í andstöðu við ákvæði sáttarinnar sem það hafði undirgengist að hafa í heiðri í starfsemi sinni. Var talið að Símanum hefði ekki getað dulist að markaðssetning og sala fyrirtækisins á sjónvarpsrásinni Símanum Sport kynni að fara í bága við sáttina.
Með þessu var fallist á þá niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins að verðlagning Símans á Enska boltanum, sem hluta af Heimilispakkanum, hafi lagt stein í götu keppinauta fyrirtækisins og takmarkað möguleika þeirra til að laða til sín viðskiptavini.
Í dómi héraðsdóms í dag er framangreindur úrskurður áfrýjunarnefndar felldur úr gildi og komist að þeirri niðurstöðu að stefndi hafi ekki fært sönnur fyrir brotinu svo fullnægt sé grundvallarréttindum 70. gr. mannréttindakafla stjórnarskrárinnar og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, þegar lagðar voru sektir á Símann.
Í héraðsdóminum er einnig fjallað um kröfu Samkeppniseftirlitsins um að endurskoðuð yrði sú niðurstaða áfrýjunarnefndar að vísa til nýrrar meðferðar mögulegu broti gegn sátt Símans við Samkeppniseftirlitið, frá 23. janúar 2015. Féllst héraðsdómur ekki á þá kröfu.
Samkeppniseftirlitið mun fara ítarlega yfir forsendur héraðsdóms og taka í framhaldinu ákvörðun um hvort vísa beri málinu til Landsréttar.