31.10.2022

Varnaðaráhrif sekta í samkeppnismálum – Óskað eftir sjónarmiðum

Niðurfelling sekta þegar þátttakendur í brotum vinna með samkeppnisyfirvöldum

  • Nidurfelling-og-laekkun-sekta

Samkeppniseftirlitið leggur stjórnvaldssektir á fyrirtæki og samtök þeirra vegna brota á samkeppnislögum og samkeppnisákvæðum EES-samningsins, samanber 37. gr. samkeppnislaga. Langflestar stjórnvaldssektir Samkeppniseftirlitsins varða brot gegn banni við ólögmætu samráði og misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Samkeppniseftirlitið hefur hingað til ekki sett almennar reglur um ákvörðun stjórnvaldssekta, líkt og víða þekkist í nágrannalöndum. Nú er til skoðunar að setja slíkar reglur og gefst hagsmunaaðilum og öðrum áhugasömum tækifæri til að koma á framfæri sjónarmiðum sem gætu nýst í þeirri vinnu.

Hins vegar eru í gildi reglur um niðurfellingu eða lækkun stjórnvaldssekta í málum sem varða ólögmætt samráð, nú reglur nr. 890/2005. Ólögmætt samráð keppinauta felur sér í alvarlegt efnahagsbrot sem er til þess fallið að valda miklu tjóni fyrir viðskiptalífið en ekki síður almenning. Þá sýnir reynslan að samráðsbrot eru jafnan framin í leynd og erfitt getur því verið að uppræta þau. Reglunum um niðurfellingu eða lækkun sekta er því ætlað að draga úr samstöðu meðal samráðsfyrirtækja með því að skapa hvata fyrir þátttakendur að stíga út úr ólögmætu samráði og vinna með samkeppnisyfirvöldum. Fela reglurnar í sér að aðilar geta hvenær sem er stigið fram og upplýst um brot og afhent gögn og upplýsingar, gegn því að fá viðurlög felld niður eða lækkuð. Flest ríki hafa sett slíkar reglur með það að markmiði að uppræta ólögmætt samráð.

Samkeppniseftirlitið vinnur nú að endurskoðun á framangreindri viðurlagaumgjörð, innan þess ramma sem núgildandi samkeppnislög kveða á um, samanber meðal annars 8. og 37. gr. samkeppnislaga. Er þessi vinna liður í endurskoðun á málsmeðferðarreglum eftirlitsins sem nú er í gangi, eins og fram kemur meðal annars í verkefnaáætlun tengdri úrbótatillögum í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar.

Á þessu stigi endurskoðunarinnar vill Samkeppniseftirlitið, eins og áður segir, gefa hagsmunaaðilum og öðrum áhugasömum tækifæri til að koma á framfæri sjónarmiðum sem nýst gætu í vinnunni. Sérstaklega er óskað eftir sjónarmiðum um eftirfarandi:

  • Samkeppniseftirlitið hefur til skoðunar að setja reglur um ákvörðun stjórnvaldssekta í samkeppnismálum. Myndu þær byggja á og endurspegla leiðbeiningar Eftirlitsstofnunar EFTA (bls. 44) og leiðbeiningar Evrópusambandsins og hafa hliðsjón af reglum nágrannalanda, s.s. reglum norska samkeppniseftirlitsins. Veigamikil ástæða fyrir setningu slíkra reglna eru vísbendingar um að varnaðaráhrif stjórnvaldssekta séu ófullnægjandi. Er þetta nánar rakið hér á eftir.
  • Endurskoðun á áðurnefndum reglum um niðurfellingu eða lækkun sekta í samráðsmálum miðar öðru fremur að því að gera þennan valkost aðgengilegan fyrir fyrirtæki, stjórnendur þeirra og starfsmenn sem í hlut eiga. Við endurskoðunina horfir eftirlitið til fenginnar reynslu hérlendis og erlendis og breytinga sem átt hafa sér stað í regluverki á evrópska efnahagssvæðinu. Þá munu nýjar reglur skapa betri umgjörð fyrir starfsmenn og stjórnendur til að stíga fram gegn því að þurfa ekki að sæta kæru fyrir refsiverð brot. Er þetta rakið nánar hér á eftir.

Hægt er að senda sjónarmið á netfangið samkeppni@samkeppni.is til föstudagsins 11. desember næstkomandi, undir heitinu „Ákvörðun sekta – sjónarmið“.

Nánari upplýsingar

Ákvörðun stjórnvaldssekta fram til þessa – hvernig eru þær ákvarðaðar?

Til hvers eru stjórnvaldssektir? – Af hverju er mikilvægt að sektir hafi varnaðaráhrif?

Vísbendingar um ófullnægjandi varnaðaráhrif stjórnvaldssekta

Af hverju reglur um ákvörðun sekta?

Hvað felst í niðurfellingu og lækkun sekta?

Hver er reynslan af beitingu núgildandi reglna um niðurfellingu og lækkun sekta? 

Geta starfsmenn og stjórnendur komið sér undan kæru og saksókn vegna þátttöku þeirra í refsiverðu broti á samkeppnislögum?

Kynningar- og fræðslumyndbönd um samkeppniseftirlit, samkeppnisreglur og viðurlög við brotum

Hagnýtar upplýsingar og leiðbeiningar