Vegna stjórnarkjörs á aðalfundi Haga hf. 9. júní 2020
Vegna stjórnarkjörs á aðalfundi Haga hf. 9. júní 2020
Í ljósi umfjöllunar í fjölmiðlum um stjórnarkjör á aðalfundi Haga fyrr í dag telur Samkeppniseftirlitið rétt að upplýsa um eftirfarandi:
Hinn 11. September 2018 undirrituðu Samkeppniseftirlitið og Hagar sátt vegna kaupa Haga á Olíuverzlun Íslands hf. (hér eftir sáttin). Sáttin hefur m.a. að markmiði að vinna gegn skaðlegum áhrifum af sameiginlegu eignarhaldi á fyrirtækjum, bregðast við samkeppnisröskun sem tengist samþættingu eldsneytis- og dagvörufyrirtækja sem af samrunanum leiðir og bæta og þar með auka aðgengi að eldsneyti í heildsölu og birgðarými eldsneytis og þjónustu Olíudreifingar hf.
Í 22. gr. sáttarinnar er m.a. mælt fyrir um samkeppnislegt sjálfstæði stjórnar Haga og í 21. gr. er fjallað um óhæfi stjórnarmanna Olíudreifingar gagnvart Högum.
Þann 5. júní sl. tilkynntu Hagar hf. um framboð til stjórnar félagsins sem kosin yrði á aðalfundi þess hinn 9. júní 2020. Fram kom í tilkynningunni að meðal frambjóðenda til stjórnar væri Eva Bryndís Helgadóttir lögmaður en hún væri jafnframt í hópi þeirra frambjóðenda sem tilnefningarnefnd legði til að hlyti brautargengi til stjórnarsetu. Eva Bryndís hefur gegnt embætti stjórnarformanns Olíudreifingar hf. Í rökstuðningi tilnefningarnefndar kom m.a. fram að stjórnarformennska Evu Bryndísar í Olíudreifingu tryggði þekkingu á eldsneytismarkaðnum sem og þekkingu á sátt Haga við Samkeppniseftirlitið nr. 9/2018.
Samkvæmt opinberum upplýsingum hjá fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra var Eva Bryndís enn skráður stjórnarformaður Olíudreifingar í gær, 9. júní 2020.
Í ljósi fyrirhugaðs stjórnarkjörs í Högum á aðalfundi félagsins taldi Samkeppniseftirlitið rétt að vekja athygli stjórnar Haga á því að ljóst væri að það gengi gegn ákvæðum sáttarinnar ef sami einstaklingur sæti í stjórn Haga og Olíudreifingar. Einnig yrði að líta til þess að markmið sáttarinnar (og eldri ákvarðana eftirlitsins) væri m.a. að tryggja sjálfstæði og óhæfi Olíudreifingar gagnvart eigendum sínum. Ef til þess kæmi að stjórnarformaður Olíudreifingar næði kjöri og segði sig úr stjórn Olíudreifingar í kjölfarið, kæmi engu að síður til alvarlegrar skoðunar hvort seta hennar í stjórn Haga fæli í sér hættu á að viðkvæmar upplýsingar bærust frá Olíudreifingu til Haga í andstöðu við markmið sáttarinnar.
Í samskiptum Samkeppniseftirlitsins við forstjóra Haga í gær kom fram að eftirlitið legðist ekki gegn því að stjórnarkjör færi fram í félaginu. Kæmi hins vegar til þess að Eva Bryndís næði kjöri til stjórnar myndi Samkeppniseftirlitið taka til skoðunar hvort seta hennar færi gegn ákvæðum og markmiðum sáttar eftirlitsins og Haga.
Þrátt fyrir framangreinda afstöðu Samkeppniseftirlitsins tilkynntu Hagar að eigin frumkvæði í gærkvöldi að stjórn félagsins hygðist óska eftir því á aðalfundinum að kosningu stjórnar yrði frestað og tilnefningarnefnd félagsins falið að hefja störf að nýju.
Skömmu fyrir aðalfundinn var þess óskað af hálfu félagsins að frekari staðfesting bærist frá Samkeppniseftirlitinu um að ekki væri gerð athugasemd við að stjórnarkjörið færi fram. Samkeppniseftirlitið brást skjótt við þessari beiðni með tölvupósti sem sendur var við upphaf aðalfundarins þar sem jafnframt var áréttað að kæmi til þess að eftirlitið teldi Evu Bryndísi ekki hæfa til setu í stjórn félagsins sökum fyrri starfa hjá Olíudreifingu þá myndi það ekki leiða til sektarákvörðunar svo lengi sem brugðist yrði við af hálfu Haga og nýr einstaklingar kosinn í stjórnina.
Niðurstöður aðalfundar Haga liggja nú fyrir. Kosið var í stjórn félagsins og meðal nýrra stjórnarmanna félagsins er Eva Bryndís Helgadóttir. Fyrir liggur að Samkeppniseftirlitið mun nú taka til sjálfstæðrar skoðunar hvort seta hennar í stjórninni fari gegn ákvæðum og markmiðum fyrirliggjandi sátta eftirlitsins og Haga eða ekki.