19.3.2021

Vegna umfjöllunar um innviðasamstarf í fjarskiptum

Í sérriti Morgunblaðsins, í tilefni Iðnþings, þann 18. mars síðastliðinn, er viðtal við Orra Hauksson, forstjóra Símans, þar sem hann fjallar um afstöðu Samkeppniseftirlitsins til samstarfs fjarskiptafyrirtækja við uppbyggingu innviða. Í leiðara Morgunblaðsins í dag, 19. mars, er lagt út af viðtalinu, undir fyrirsögninni „flækjur og flöskuhálsar“.

Í þessari umfjöllun er nefnt að fjarskiptafyrirtæki hafi í kjölfar óveðurs haustið 2019 ákveðið að taka höndum saman um að laga innviði utan suðvesturhornsins. Þannig hafi „vaknað sú hugmynd að leyfa fyrirtækjum í samkeppnisrekstri að taka höndum saman um að laga þá innviði sem þurftu endurbætur á svæðum þar sem markaðurinn fyrir þjónustu þeirra er með minnsta móti“. Fyrstu viðbrögð hafi verið mjög jákvæð, en að þá hafi birst „upp úr þurru“ bréf frá Samkeppniseftirlitinu, sem hefði tekið þátt í öllu ferlinu, þar sem varað var við því að samstarf á milli samkeppnisaðila gæti leitt til refsingar fyrir þá sem tækju þátt. Þar með hafi verkefnið farið út í veður og vind. Er þetta nefnt sem dæmi um „óþarfa flækjustig“.

Í þágu upplýstrar umræðu er rétt að eftirfarandi komi fram:

  • Áform fjarskiptafyrirtækja um innviðasamstarf, sem kynnt voru í kauphöll þann 19. desember 2019, einskorðuðust hvorki við styrkingu og uppbyggingu innviða á landsbyggðinni, né heldur afleiðingar óveðurs í byrjun desember sama ár. Voru áform um viðræður lítið afmörkuð og í þeim fólust ýmis atriði sem vörðuðu framtíðarskipulag fjarskiptamarkaðarins.
  • Hvorki í aðdraganda yfirlýsingar til kauphallar 19. desember né í framhaldi af henni var Samkeppniseftirlitið þátttakandi í þessum áformum. Eftirlitið aflaði hins vegar upplýsinga um fyrirætlanir félaganna í þessu efni og sat ásamt Póst- og fjarskiptastofnun fundi með Símanum, Vodafone og Nova í sitthvoru lagi þann 14., 22. og 27. janúar 2020, að þeirra ósk, eftir að yfirlýsing þeirra um mögulegt samtarf birtist í fjölmiðum. Á fundunum minnti Samkeppniseftirlitið á að það hvíldi á aðilum fyrirhugaðs samstarfs að rökstyðja og óska eftir undanþágu fyrir samstarfi, en þágildandi 15. gr. samkeppnislaga kvað á um heimild Samkeppniseftirlitsins til að veita undanþágur frá banni við samstarfi keppinauta. Var m.a. í dæmaskyni vísað til fordæma þar sem slíkar undanþágur voru heimilaðar á fjarskiptamarkaði.
  • Í minnisblaðinu er m.a. rakinn gildandi réttur og stefnumörkun á þessu sviði á Evrópska efnahagssvæðinu, innan OECD og í einstökum löndum, t.d. Bretlandi. Í minnisblaðinu er rakið að víðtækt innviðasamstarf keppinauta geti stefnt í hættu markmiðum um að skapa aðstæður fyrir fjárfestingu og hraða uppbyggingu grundvallarinnviða eins og 5G. Svo víðtækt samstarf sé ekki í samræmi við stefnumörkun í nágrannalöndum og geti skaðað hagsmuni almennings.
  • Hins vegar er skýrt tekið fram að afmarkaðar viðræður keppinauta sem falla að heimildum samkeppnislaga og ætlað er að stuðla að t.d. hagkvæmni, öryggi, umhverfisvernd eða bættum hag neytenda, myndu ekki skapa samkeppnisleg vandamál.
  • Í framhaldinu áttu fjarskiptafyrirtækin í samskiptum við eftirlitið um afmarkaðra samstarf sem fallið gæti að þeim heimildum sem samkeppnislög veita keppinautum til samstarfs. Gerði Samkeppniseftirlitið ekki athugasemdir við slíkar viðræður. Samkeppniseftirlitinu er kunnugt um að þær viðræður hófust, en er ekki kunnugt um lyktir þeirra.
  • Um síðustu áramót tóku gildi breytingar á 15. gr. samkeppnislaga, þar sem kveðið er á um undantekningar frá banni við samráði keppinauta. Breytingin fól í sér að Samkeppniseftirlitið hefur ekki lengur með höndum það hlutverk að veita undanþágur til samstarfs, heldur er hlutaðeigandi fyrirtækjum ætlað að meta sjálf hvort skilyrði laga til samstarfs sé fyrir hendi.
  • Í tilefni af þessum breytingum gaf Samkeppniseftirlitið út leiðbeiningar um undantekningar frá banni við samráði fyrirtækja. Þar er ábyrgð fyrirtækja lýst og gerð grein fyrir skilyrðum undantekninga samkvæmt 15. gr. samkeppnislaga, sem eru:  1) að samstarf stuðli að aukinni hagræðingu, 2) að sanngjörn hlutdeild í ávinningi samstarfsins skili sér til neytenda, 3) að samstarfið sé forsenda hagræðingar og 4) að samstarfið veiti fyrirtækjunum ekki færi á að koma í veg fyrir samkeppni.