5.3.2025

Árétting til kjötafurðastöðva

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem kveðinn var upp 18. nóvember 2024, var komist að þeirri niðurstöðu að nýlegar undanþágur frá samkeppnislögum frá vorinu 2024, sem heimila kjötafurðastöðvum að sameinast og hafa tiltekið samráð sín á milli, stríði gegn stjórnskipunarlögum og hafi því ekki lagagildi.

Vegna dómsins ritaði Samkeppniseftirlitið kjötafurðastöðvum og samtökum þeirra bréf, dags. 19. nóvember 2024, þar sem því var m.a. beint til þeirra að stöðva þegar í stað hvers konar aðgerðir eða háttsemi sem farið gætu gegn samkeppnislögum og stofnast hefur til á grundvelli umræddra undanþáguheimilda. Fjallað er nánar um þetta í frétt eftirlitsins, dags. 19. nóvember 2024, sem aðgengileg er hér.

Þegar héraðsdómur féll hafði samruni Kaupfélags Skagfirðinga (KS) á eignarhlutum í Kjarnafæði Norðlenska (KN) átt sér stað, en starfsemi SAH afurða á Blönduósi er í eigu síðarnefnda félagsins. Í tilefni af nýlegum fréttaflutningi af uppsögnum á starfsmönnum sláturhúss SAH Afurða hefur Samkeppniseftirlitið ritað KS og KN bréf, dags. 4. mars sl., þar sem minnt er á efni fyrra bréfs frá 19. nóvember sl. Sérstaklega er minnt á að eftirlitið hafi beint því til afurðastöðva að stöðva aðgerðir sem tengdust m.a. samrunum afurðastöðva.

Jafnframt er í bréfinu áréttað að til skoðunar geti komið hvort kaup KS á KN hafi samræmst gildandi lögum, í ljósi dóms Héraðsdóms Reykjavíkur. Af sömu ástæðum geti á síðari stigum komið til athugunar hvort ráðstafanir í rekstri félaganna feli í sér brot á samkeppnislögum eða ákvörðunum Samkeppniseftirlitsins. Uppsagnir á starfsfólki geta verið liður í framkvæmd samruna.

Bréf Samkeppniseftirlitsins til KS er aðgengilegt hér .

Bréf Samkeppniseftirlitsins til KN er aðgengilegt hér .

Eins og kunnugt er hefur Hæstiréttur Íslands orðið við beiðni Samkeppniseftirlitsins um áfrýjunarleyfi og hefur eftirlitið áfrýjað dómi héraðsdóms til réttarins. Ákvörðun um frekari athuganir vegna framangreinds ráðast m.a. af niðurstöðu Hæstaréttar. Fjallað er nánar um ákvörðun um áfrýjun dómsins í frétt eftirlitsins, dags. 2. desember 2024, sem aðgengileg er hér.

Með tilkynningu þessari eru athygli kjötafurðastöðva og annarra hagsmunaaðila vakin á framangreindu.

UPPFÆRT: Þann 6. mars sl. sendi KS svarbréf til Samkeppniseftirlitsins þar sem félagið hafnaði ásökunum um lögbrot að eigin sögn. Bréf KS er aðgengilegt hér.

Samkeppniseftirlitið svaraði bréfi KS með tölvubréfi 7. mars. Var þar tekið fram að bréf SE frá 4. mars sl. hefði byggt á upplýsingum frá KS og KN. Fram hefði komið af hálfu samrunaaðila að samruni KS og KN hefði gengið í gegn síðasta haust. Af því leiðir óhjákvæmilega að KS og KN teljist ein efnahagsleg eining og þar með eitt og sama fyrirtækið í skilningi samkeppnislaga, burtséð frá m.a. að því er virðist tímabundnu fyrirkomulagi stjórnunar innan fyrirtækisins. Með hliðsjón af þessu og í framhaldi af dómi Héraðsdóms Reykjavíkur þann 18. nóvember sl. hefði SE beint því til KS og KN að stöðva þegar í stað hvers konar aðgerðir eða háttsemi sem farið getur gegn samkeppnislögum og stofnast hefur til á grundvelli undanþáguheimildanna sem héraðsdómur taldi að ekki hefðu öðlast gildi 

Áður en héraðsdómur féll hefði verið greint frá því í fjölmiðlum að ein áhrif samrunans yrðu að slátrun sauðfjár hjá SAH Afurðum á Blönduósi yrði hætt. Þegar tilkynnt hefði verið í þar síðustu viku um uppsagnir starfsmanna SAH Afurða vegna þessara áforma taldi Samkeppniseftirlitið nauðsynlegt og málefnalegt að minna KS og KN á fyrra bréf Samkeppniseftirlitsins. Í samræmi við leiðbeiningarskyldu eftirlitsins var fyrirtækjunum gerð grein fyrir því að ráðstafanir samstæðunnar kynnu að koma til skoðunar á síðari stigum.

Fullyrðingar KS um að bréfið feli í sér aðdróttanir eða hótanir í garð KS væru því byggðar á misskilningi. Eins og bréf SE frá 4. mars sl. hefði borið með sér hefði eftirlitið ekki tekið neina afstöðu til þessara atriða né hafið rannsókn um framangreint. Var bréfið þvert á móti sent til hagsbóta fyrir alla hlutaðeigandi.