13.6.2024

Kaup Arctic Adventures á Special Tours – óskað eftir sjónarmiðum

  • Frá miðborg Reykjavíkur

Arctic Adventures hf. hefur tilkynnt um kaup félagsins á Special Tours / ST Holding ehf. Fyrirtækin starfa bæði í ferðaþjónustu. 

Sennilegur markaður málsins er að minnsta kosti sala og framkvæmd skipulagðra ferða, en meginstarfsemi samrunaaðila felst í skipulagningu ferða og sölu á afþreyingu til ferðamanna á Íslandi.

Arctic Adventures hf. býður upp á vítt úrval skipulagðra ferða og afþreyingu í gegnum dótturfélög sín. Sem dæmi um félög í eigu Arctic Adventures má nefna Into the Glacier ehf. sem sérhæfir sig í íshellaferðum og Straumhvarf ehf. Hið síðarnefnda félag býður upp á alls konar afþreyingar- og ævintýraferðir víðs vegar um landið, einkum fyrir erlenda ferðamenn. ST Holding ehf. er m.a. eigandi ferðaþjónustufyrirtækisins Special Tours ehf. og hvalaskoðunarsafnsins Whales of Iceland ehf. Felst starfsemi félagsins einkum í hvalaskoðun, RIB bátaferðum, fuglaskoðun á bát og tengdri starfsemi.

Hægt er að lesa lýsingu fyrirtækjanna á samrunanum í samrunaskrá sem er aðgengileg hér án trúnaðarupplýsinga.

Öllum hagsmunaðilum og öðrum áhugasömum er hér með gefinn kostur á að skila inn sjónarmiðum vegna samrunans, t.d. um möguleg áhrif hans á samkeppni, um markaðsskilgreiningu og viðkomandi markaði, markaðsstyrk fyrirtækjanna, og um hversu virk samkeppni er á viðkomandi mörkuðum.

Samkeppniseftirlitið hefur sent umsagnarbeiðni með tilteknum spurningum til markaðsaðila sem lesa má hér . Sérstök athygli er vakin á þeim spurningum og þeim beint til hagsmunaaðila sem kunna að vilja skila inn umsögn.

Umsagnir skulu sendar á gogn@samkeppni.is fyrir 21. júní nk. Fyrirspurnum vegna samrunarannsóknar má beina til halldor@samkeppni.is og matthias@samkeppni.is