23.12.2011

Bann við forverðmerkingum er neytendum til hagsbóta

  • Matvara_1Vísbendingar eru um að breytingarnar hafi aukið samkeppni og leitt til lægra verðs en ella.
  • Mikilvægt er að Neytendasamtökin stuðli að virku aðhaldi neytenda með verslunum.

Á heimasíðu Neytendasamtakanna var í gær birt umfjöllun um verðhækkanir á kjöti og vísað til nýlegrar verðkönnunar ASÍ. Í frétt Neytendasamtakanna er velt upp þeirri spurningu hvort bann við forverðmerkingum (þ.e. verðmerkingar kjötvinnslufyrirtækja fyrir verslanir) hafi leitt til hærra vöruverðs. Óásættanlegt sé ef milliliðir hafi nýtt sér þessa breytingu til að hækka álagningu sína.  Í fjölmiðlum hefur Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna, látið að því liggja að til greina komi að taka forverðmerkingar upp að nýju.

Brot fyrirtækja á matvörumarkaði leiddu til banns við forverðmerkingum

Óhjákvæmilegt er í þessu sambandi að rifja upp að forverðmerkingum nokkurra kjötvinnslufyrirtækja (Kaupfélag Skagfirðinga, Sláturfélag Suðurlands, Reykjagarður, Norðlenska og Kjarnafæði) fyrir verslanir var hætt fyrr á þessu ári eftir að rannsókn Samkeppniseftirlitsins hafði leitt í ljós samkeppnishamlandi samvinnu þessara aðila við Bónus um verð. Um var að ræða nána samvinnu um smásöluverð Bónuss og afslætti frá því. Í þessum samskiptum fólst því ekki aðeins beiðni Bónuss um verðmerkingar kjötbirgjanna á vörum heldur reyndist samvinnan mun umfangsmeiri. Voru brotin til þess fallin að takmarka samkeppni og valda þannig neytendum tjóni. Í mörgum tilvikum voru þessir aðilar að semja eða fjalla um afslætti frá verði sem í raun stóðu neytendum aldrei til boða í viðkomandi verslunum.

Málalyktir urðu þær að flest kjötvinnslufyrirtækin og Hagar viðurkenndu brot sín og greiddu sektir, sbr. ákvörðun nr. 33/2010. Síld og fiskur og Matfugl gerðu það hins vegar ekki, en því máli lauk með 80 m.kr. sekt, sbr. nýlega ákvörðun nr. 36/2011. Sú ákvörðun hefur verið kærð til áfrýjunarnefndar samkeppnismála og er þar til meðferðar.

Sterkar vísbendingar eru um að breytingarnar hafi aukið samkeppni

Í fréttum hefur verið vísað til þess að verð á kjöti hafi hækkað í smásölu um allt að 40% á einu ári. Er þar verið að vísa til verðhækkana á einstökum vörum samkvæmt verðkönnun ASÍ. Samkvæmt vísitölumælingu Hagstofu Íslands sem mælir reglulega verðbreytingar á hundruðum kjötvara var verðhækkun á kjöti og kjötvörum hins vegar að meðaltali um 13% í smásölu á þessu ári. Af þessu er verðhækkun á fersku og frosnu kjöti (lambakjöti, svínakjöti, nautakjöti og alifuglakjöti) sínu meiri eða um 15-25%. Verðhækkun á meira unnum kjötvörum úr þessu tegundum (s.s. áleggi, reyktu kjöti o.fl.) var hins vegar um aðeins um 6% að meðaltali. Þessi síðarnefndi vöruflokkur samanstendur nær eingöngu af vörum sem áður voru forverðmerktar af birgjum þó bæði ferskt og frosið kjöt hafi áður verið verðmerkt af framleiðendum í nokkrum mæli.

Þær upplýsingar sem liggja fyrir um hækkun á afurðaverði til bænda og hækkun á verði frá kjötvinnslufyrirtækjum til smásala benda til að sú hækkun hafi verið um 15-25% á þessu ári. Virðist það vera heldur meiri verðhækkun en að meðaltali í smásölu eins og rakið er hér að ofan. Sterkar vísbendingar eru því um að afnám forverðmerkinga í smásölu hafi aukið þar samkeppni og verðhækkun ekki orðið eins mikil og ef föst smásöluálagning hefði bæst ofan á heildsöluverð kjötvinnslna.

Ljóst er að bann við forverðmerkingum hefur þegar leitt til breytinga og gerjunar á matvörumarkaði sem hagfelldar eru fyrir neytendur til lengri tíma. Þannig bendir verðmunur milli verslana til verðsamkeppni, sem ekki var áður til staðar. Þá hafa breytingarnar leitt til þess neytendur eru síður blekktir með afsláttum frá verði sem í raun aldrei stóð til að bjóða þeim, auk þess sem miklu fleiri vörur eru nú staðlaðar að þyngd sem auðveldar verslunum að verðmerkja vörurnar.

Breytingarnar eiga að leiða til verðlækkana fremur en hækkana

Með afnámi forverðmerkinga hafa skapast forsendur fyrir hagræðingu hjá aðilum sem eigi að skila sér í lægra verði. Má í því sambandi nefna minna birgðahald sem hefur í för með sér hagræðingu. Þá telur eftirlitið að við það að birgjar og matvöruverslanir hætti umfangsmiklu samráði og samvinnu um smásöluverð, afslætti frá því verði og framlegð verslana, ætti að nást fram mikill sparnaður á kostnaði aðila við kjötviðskipti. Framangreint á að gera meira en að vega upp á móti hugsanlegum stofnkostnaði verslana við nýtt fyrirkomulag.

Samkeppniseftirlitið hefur varað við hækkunum til skemmri tíma og kallað eftir árverkni

Verðkönnun ASÍ og umfjöllun Neytendasamtakanna dregur hins vegar athyglina að því sem Samkeppniseftirlitið hefur varað við, að einhverjir þeirra sem koma að verðlagningu kjötvara kunni að nýta sér þessar breytingar til að hækka verð til skemmri tíma. Samkeppniseftirlitið hefur áður varað við þessu. Í bréfi eftirlitsins til Neytendasamtakanna, Neytendastofu, ASÍ og Talsmanns neytenda, dagsettu fyrir réttu ári, eða þann 23. desember 2010, kallaði Samkeppniseftirlitið eftir því við stjórnvöld og hagsmunasamtök sem koma að neytendavernd að fylgjast vel með því að breytingarnar komi neytendum til góða og að þess verði gætt að þær verði ekki nýttar til þess að koma fram raunhækkun verðs. Bent var á að eftirlit með verðlagi og verðlagsþróun væri almennt ekki á könnu eftirlitsins.

Þessi tilmæli voru ítrekuð með bréfi til sömu aðila þann 30. júní sl., og á fundi með sömu aðilum nú á haustmánuðum sem Samkeppniseftirlitið boðaði til.

Samkeppniseftirlitið kallar eftir því að Neytendasamtökin stuðli að virku aðhaldi neytenda með verslunum

Samkeppniseftirlitið ítrekar mikilvægi þess að framangreindar breytingar á verðmerkingum kjötvara skili sér til neytenda með aukinni samkeppni og lægra verði. Mikilvægt er að allir sem að þessu koma, stjórnvöld, hagsmunasamtök og fyrirtæki á markaðnum fylgist vel með þessu. Sérstaklega er mikilvægt að neytendur sjálfir beiti verslanir virku aðhaldi sem felst í því að versla þar sem viðkomandi kjötvörur eru boðnar á hagstæðasta verði. Í þessu efni ættu Neytendasamtökin að gegna lykilhlutverki.

Að lokum er rétt að geta þess að í byrjun næsta árs mun Samkeppniseftirlitið birta skýrslu um matvörumarkaðinn, þar sem sjónum verður m.a. beint að verðþróun fjölmargra vöruflokka og reynt að varpa ljósi á ástæður verðhækkana á matvörum á liðnum árum.

Nánar er hægt að fræðast um bannið við forverðmerkingum á sérstakri upplýsingasíðu á vef Samkeppniseftirlitsins.