28.9.2012

Gæta skal að samkeppnissjónarmiðum við útleigu og sölu húsnæðis á vegum hins opinbera

Samkeppniseftirlitið birtir í dag álit til opinberra aðila um samkeppnishindranir tengdar útleigu húsnæðis á vegum hins opinbera, nr. 1/2012. Þar er þeim tilmælum beint til opinberra aðila, hvort sem er á vettvangi ríkis eða sveitarfélaga, að þeir leiti tilboða í hlutlægu, málefnalegu og gagnsæju ferli þegar húsnæði eða önnur takmörkuð gæði eru seld eða leigð út til aðila sem stunda samkeppnisrekstur. Við ákvarðanir um skilmála, s.s. um sölu- eða leiguverð, eða tímalengd leigu, skal þess gætt að samkeppni sé ekki skekkt. Þá er mælst til þess að opinberir aðilar setji sér og birti almennar verklagsreglur um þetta efni.
 
Tilefni álitsins er að á undanförnum árum hafa samkeppnisyfirvöld haft til rannsóknar nokkur mál sem varða fyrirkomulag á útleigu húsnæðis á vegum hins opinbera, þ.e. sveitarfélaga og annarra stjórnvalda, til aðila sem stunda atvinnurekstur.  Þá hefur Samkeppniseftirlitið lagt á það sérstaka áherslu eftir hrun að opinberir aðilar styðji við samkeppni í starfsemi sinni og gæti þess að athafnir þeirra leiði ekki til samkeppnishindrana. Í skýrslu Samkeppniseftirlitsins nr. 2/2008, Öflug uppbygging og opnun markaða, er m.a. fjallað um opinberar samkeppnishömlur og mikilvægi þess að koma í veg fyrir þær í kjölfar efnahagshrunsins.
 
Rannsókn Samkeppniseftirlitsins á útleigu mennta- og menningarmálaráðuneytisins á húsnæði Héraðsskólans að Núpi í Dýrafirði til hótelreksturs var ein af ástæðum útgáfu álits nr. 1/2012. Hér má nálgast afrit af bréfi Samkeppniseftirlitsins til mennta- og menningarmálaráðuneytisins, dags.  27. ágúst 2012, þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að það hvernig ráðuneytið stóð að útleigu húsnæðisins hafi haft skaðleg áhrif á samkeppni í skilningi b. liðar 1. mgr. 16. gr. samkeppnislaga.