Fréttatilkynning - Héraðsdómur telur að lög um heilbrigðisþjónustu gangi ekki framar samkeppnislögum
Þann 11. október 2005 komst Samkeppniseftirlitið að þeirri niðurstöðu í ákvörðun nr. 8/2005 að heilbrigðisyfirvöld hefðu raskað samkeppni með því synja því að semja um greiðsluþátttöku í kostnaði sjúkratryggða við sálfræðimeðferð hjá klíniskum sálfræðingum. Var í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins talið að klíniskir sálfræðingar og geðlæknar væru keppinautar varðandi meðferð á geðrænum vandamálum sem ekki væri lyfjatengd. Var talið samkeppnishamlandi að samið væri við geðlækna en ekki sálfræðinga og þeim fyrirmælum beint til heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra að ganga til samninga við sjálfstætt starfandi klíníska sálfræðinga. Þessari ákvörðun var skotið til áfrýjunarnefndar samkeppnismála sem klofnaði í málinu, sjá úrskurð nr. 19/2005. Taldi meirihluti hennar að synjun heilbrigðisráðherra ætti stoð í lögum um heilbrigðisþjónustu sem gengju framar samkeppnislögum. Sökum þessa ógilti áfrýjunarnefnd ákvörðun Samkeppniseftirlitsins. Minnihluti hennar vildi hins vegar staðfesta ákvörðun eftirlitsins.
Sálfræðingafélag Íslands skaut úrskurði áfrýjunarnefndar til dómstóla og krafðist þess að hann yrði felldur úr gildi. Með dómi sínum í dag féllst Héraðsdómur Reykjavíkur á þá kröfu félagsins. Féllst dómurinn ekki á þá niðurstöðu áfrýjunarnefndar að lög um heilbrigðisþjónustu girði fyrir að Samkeppniseftirlitið geti gripið til þeirra aðgerða gegn heilbrigðisyfirvöldum sem fram komu í umræddri ákvörðun þess.