8.10.2013

Áfrýjunarnefnd samkeppnismála staðfestir 500 milljón króna sekt á Valitor vegna alvarlegra samkeppnislagabrota

Mynd: Merki ValitorÍ apríl síðastliðnum sektaði Samkeppniseftirlitið Valitor hf. um 500 milljónir króna fyrir misnotkun á markaðsráðandi stöðu og brot á skilyrðum fyrri ákvörðunar eftirlitsins. Var félagið talið hafa misnotað markaðsráðandi stöðu sína með aðgerðum sem beindust gegn keppinautum félagsins á markaði fyrir færsluhirðingu. Háttsemi Valitors fólst í því að fyrirtækið verðlagði þjónustu sína í færsluhirðingu vegna debetkorta undir breytilegum kostnaði á árunum 2007 og 2008. Með þessari undirverðlagningu var félagið líklegra til að fá samninga við söluaðila um færsluhirðingu vegna kreditkorta sem talin er arðsamari þjónusta. Var umfang þessarar undirverðlagningar verulegt. Fól háttsemin einnig í sér brot á 54. gr. EES-samningsins.

Samkeppniseftirlitið komst einnig að þeirri niðurstöðu að Valitor hefði brotið gegn tveimur skilyrðum sem félagið hafði skuldbundið sig til að hlíta með sátt við Samkeppniseftirlitið sem birt var í ákvörðun nr. 4/2008. Í brotinu fólst m.a. að Valitor misnotaði trúnaðarupplýsingar um söluaðila í viðskiptum við keppinauta sína í færsluhirðingu sem félagið hafði aðgang að vegna stöðu sinnar í útgáfu VISA greiðslukorta hér á landi.

Valitor kærði ákvörðun Samkeppniseftirlitsins til áfrýjunarnefndar samkeppnismála og krafðist þess aðallega að hin kærða ákvörðun yrði felld úr gildi, en til vara að sektin yrði felld niður eða lækkuð verulega.

Í úrskurði sínum í gær, í máli nr. 4/2013, staðfestir áfrýjunarnefnd samkeppnismála niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins um brot Valitors samkvæmt framangreindu. Er það mat nefndarinnar að misnotkun félagsins á markaðsráðandi stöðu sinni og brot á fyrrgreindu skilyrði eldri ákvörðun séu alvarleg. Þá er vísað til þess að notkun greiðslukorta í viðskiptum með vöru og þjónustu sé mjög almenn og víðtæk hér á landi. Í ljósi þessa og mikilvægis þessa markaðar fyrir neytendur og atvinnulífið skipti miklu að öll verðmyndun sé eðlileg og minni keppinautar séu ekki með óeðlilegum hætti hindraðir í að veita samkeppnislegt aðhald.

Í úrskurði áfrýjunarnefndar er sérstaklega fjallað um varnaðaráhrif sekta og ítrekun brots. Áréttar áfrýjunarnefndin að stjórnvaldssektum sé samkvæmt samkeppnislögum m.a. ætlað að hafa varnaðaráhrif og sé fjárhæð sekta mikilvæg í því sambandi. Tekur nefndin fram að ljóst sé að fyrri sekt að fjárhæð 385 milljón kr., sem áfrýjandi gekkst undir að greiða samkvæmt fyrrgreindri ákvörðun nr. 4/2008, hafi ekki haft áhrif til varnaðar frekari brotum félagsins.

Með vísan til þessa og frekari röksemda sem tilteknar eru í úrskurðinum staðfestir áfrýjunarnefnd 500 milljón króna sekt sem Samkeppniseftirlitið lagði á Valitor.