Samkeppniseftirlitið samþykkir kaup 365 miðla ehf. á vefsíðunni Tónlist.is
Samkeppniseftirlitið hefur í dag birt ákvörðun nr. 34/2013, Kaup 365 miðla ehf. á eignum D3 Miðla ehf., sem varða vefsíðuna Tónlist.is. Í ákvörðuninni er fjallað um kaup 365 miðla á eignum D3 Miðla, þ.e. þeim eignum sem varða vefsíðuna Tónlist.is. 365 miðlar eru eitt stærsta fjölmiðlafyrirtæki landsins. Tónlist.is er rafræn tónlistarþjónusta sem starfar á markaði fyrir sölu og streymi tónlistar í gegnum Internetið á rafrænu formi. Tónlist.is var áður í eigu D3 Miðla sem eru dótturfélag Senu ehf. Sena er eitt stærsta fyrirtæki landsins á sviði afþreyingar og sinnir m.a. heildsölu á kvikmyndum, tónlist og tölvuleikjum. Samkeppniseftirlitið telur ekki vera tilefni til íhlutunar í málinu.
Kaup 365 miðla á Tónlist.is fela í sér samruna í skilningi samkeppnislaga og jafnframt í skilningi nýrra ákvæða laga um fjölmiðla um samruna sem fjölmiðlafyrirtæki eiga aðild að. Samkvæmt þeim ákvæðum ber Samkeppniseftirlitinu að meta áhrif samruna á fjölræði og fjölbreytni í fjölmiðlum, í þeim tilvikum þar sem a.m.k. ein fjölmiðlaveita er aðili. Þetta mat kemur til viðbótar hefðbundnu eftirliti Samkeppniseftirlitsins með samrunum í tilvikum þar sem veltuskilyrði beggja laga eru uppfyllt. Við rannsókn málsins aflaði Samkeppniseftirlitið upplýsinga og sjónarmiða frá samrunaaðilum, keppinautum þeirra og fjölmiðlanefnd um samrunann. Samkeppniseftirlitið komst að þeirri niðurstöðu í málinu að samruninn hafi ekki hafa skaðleg áhrif á samkeppni eða fjölræði og fjölbreytni í fjölmiðlun. Niðurstaðan byggist m.a. á því að staða Tónlist.is á þeim markaði sem félagið starfar hefur veikst töluvert með innkomu nýrra keppinauta s.s. Spotify og þeirri staðreynd að tónlistarefnisréttindi D3 Miðla og Senu fylgja ekki með í kaupunum.