Samkeppniseftirlitið leggur þriggja milljóna króna dagsektir á Teymi hf. í því skyni að knýja fram breytingar á stjórn Tals
Samkeppniseftirlitið hefur með ákvörðun í dag lagt þriggja milljóna króna dagsektir á Teymi hf. þar sem fyrirtækið hefur ekki farið að fyrirmælum Samkeppniseftirlitsins um breytingar á stjórn IP-fjarskipta (Tals), sem mælt var fyrir um í ákvörðun til bráðabirgða frá 26. janúar sl.
Með bráðabirgðaákvörðuninni mælti Samkeppniseftirlitið fyrir um að fulltrúar Teymis í stjórn Tals skyldu víkja úr stjórninni eigi síðar en 30. janúar sl. Í stað þeirra skyldu síðan skipaðir tveir óháðir einstaklingar, tilnefndir af Samkeppniseftirlitinu.
Samkeppniseftirlitið taldi sennilegt í bráðabirgðaákvörðun sinni að fulltrúar Teymis hefðu beitt sér gegn samkeppnislegu sjálfstæði Tals og því væri nauðsynlegt að gera breytingar á stjórn Tals. Ella væri hætta á því að Teymi og Vodafone gætu veikt Tal varanlega sem keppinaut á markaði. Með háttsemi sinni hefðu Teymi, Vodafone og Tal brotið gegn ákvörðun eftirlitsins um samruna Teymis og Tals frá síðasta ári og ákvæðum samkeppnislaga.
Samkeppniseftirlitið telur að Teymi hafi virt framangreind fyrirmæli að vettugi. Það liggur fyrir að fulltrúar Teymis í stjórn Tals eru enn stjórnarmenn í félaginu og af því leiðir einnig að þeir einstaklingar sem tilnefndir hafa verið af Samkeppniseftirlitinu hafa ekki verið skipaðir í stjórn Tals. Ljóst er að stjórnendur Teymis hafa á valdi sínu að hlutast til um efndir á fyrirmælum Samkeppniseftirlitsins en félagið hefur ekki farið að þeim. Telur Samkeppniseftirlitið því að Teymi hafi brotið gegn fyrrnefndri bráðabirgðaákvörðun nr. 1/2009.
Í því skyni að knýja á um efndir framangreindra fyrirmæla hefur Samkeppniseftirlitið tekið ákvörðun um álagningu dagsekta vegna vanrækslu Teymis. Skal Teymi greiða þrjár milljónir króna á dag þar til bráðabirgðaákvörðuninni hefur verið framfylgt um að núverandi fulltrúar Teymis í stjórn Tals víki úr stjórn og að nýir óháðir einstaklingar verði skipaðir í þeirra stað.
Bakgrunnsupplýsingar
Samkeppniseftirlitið gerði húsleit á starfstöðvum Teymis, Vodafone og Tals þann 7. janúar sl. Hafði Samkeppniseftirlitið aflað sér húsleitarheimildar í samræmi við lög og lagt var hald á gögn frá viðkomandi fyrirtækjum. Þar sem Samkeppniseftirlitið taldi að bið eftir endanlegri niðurstöðu stofnunarinnar gæti haft í för með sér alvarlegan og óafturkræfan skaða á samkeppni, var þann 26. janúar sl. tekin ákvörðun til bráðabirgða nr. 1/2009 vegna málsins. Í henni er komist að þeirri niðurstöðu að Teymi, Vodafone og Tal hafi sennilega brotið gegn ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 36/2008 og ákvæði 10. gr. samkeppnislaga með því að hafa samráð um að Tal ætti ekki að stunda samkeppni gagnvart Vodafone. Þá kemst Samkeppniseftirlitið að þeirri niðurstöðu að sennilegt sé að tiltekin ákvæði í sýndarnetssamningi Tals og Vodafone um aðgang Tals að farsímaneti Vodafone séu til að tryggja hagsmuni Vodafone og Teymis sem sé andstætt ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 36/2008. Telur Samkeppniseftirlitið að samningurinn geti dregið úr þeirri samkeppni sem Tal getur stundað á markaðnum og þar með fari þau í bága við ákvæði 10. gr. samkeppnislaga.
Samkeppniseftirlitið mælti því fyrir um að fulltrúar Teymis í stjórn Tals skyldu víkja og í stað þeirra skuli skipaðir tveir óháðir einstaklingar, tilnefndir af Samkeppniseftirlitinu. Þá voru tiltekin ákvæði í samningi Tals og Vodafone um aðgang Tals að farsímaneti Vodafone lýst ógild á þeim grundvelli að þau væru andstæð ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 36/2008 Samruni Teymis hf. og IP-fjarskipta ehf. og ákvæði 10. gr. samkeppnislaga.
Sjá nánar ákvörðun nr. 4/2009.