Samkeppniseftirlitið birtir frumniðurstöður markaðsrannsóknar á eldsneytismarkaði
Samkeppniseftirlitið birtir í dag skýrslu um frumniðurstöður úr markaðsrannsókn á eldsneytismarkaðnum. Þar er fjallað með ítarlegum hætti um aðstæður og háttsemi á markaðnum sem taldar eru hindra samkeppni, almenningi og samfélaginu til tjóns. Jafnframt er fjallað um hvaða aðgerðir koma til greina til þess að ryðja þessum samkeppnishindrunum úr vegi.
Eldsneytismarkaðurinn er þjóðhagslega mjög mikilvægur og því áhyggjuefni að rannsókn Samkeppniseftirlitsins bendir til þess að samkeppni sé verulega skert á mikilvægum hluta hans. Verð á bifreiðaeldsneyti er hér hærra en í flestum öðrum vestrænum ríkjum og sá munur er það mikill að hann verður ekki útskýrður með smæð markaðarins eða auknum kostnaði vegna sölu eldsneytisins hér landi. Þá er álagning olíufélaganna á bifreiðaeldsneyti það mikil að hún gefur vísbendingu um takmarkaða samkeppni. Óhagkvæmur rekstur olíufélaganna á þessu sviði bendir til hins sama. Álagning á eldsneyti sem selt er til fyrirtækja (stórnotenda) gefur hins vegar til kynna að meiri samkeppni ríki í sölu þess.
Hagur almennings
Að mati Samkeppniseftirlitsins er þörf á aðgerðum til þess að bæta hag almennings. Samkvæmt niðurstöðum skýrslunnar greiddu neytendur of mikið fyrir bifreiðaeldsneyti í smásölu á árinu 2014, eða sem nemur 4.000 – 4.500 milljónum króna með virðisaukaskatti, þ.e. samanborið við verð sem búast mætti við ef framangreindar aðstæður og háttsemi væru ekki fyrir hendi.
Aukin samkeppni myndi leysa úr læðingi krafta sem koma myndu samfélaginu til góða, t.d. með hagkvæmari rekstri olíufélaganna sem stuðlar að lægra verði til neytenda. Til að svo geti orðið þarf m.a. að tryggja að nýir keppinautar geti haslað sér völl á markaðnum. Reynslan erlendis frá sýnir að sjálfstæðir smásalar á eldsneyti (t.d. stórmarkaðir) geta veitt hefðbundnum olíufélögum mikið samkeppnislegt aðhald. Miklar aðgangshindranir eru hins vegar að eldsneytismarkaðnum hér á landi og því þarf að breyta.
Rannsóknin
Frummatsskýrslan er liður í markaðsrannsókn þar sem tekin er afstaða til þess hvort og þá hvaða samkeppnishindranir séu til staðar á eldsneytismarkaði. Með birtingu hennar er kallað eftir sjónarmiðum frá hagsmunaaðilum. Niðurstöður skýrslunnar geta því tekið breytingum. Að fengnum sjónarmiðum mun Samkeppniseftirlitið taka ákvörðun um hvort þörf sé á að grípa til aðgerða gegn aðstæðum eða háttsemi sem raskar samkeppni almenningi til tjóns. Samkeppniseftirlitið hefur heimild til slíkra aðgerða samkvæmt c-lið 1. mgr. 16. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005.
Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins:
„Eldsneytismarkaðurinn virðist ekki starfa sem skyldi og skilar neytendum ekki ásættanlegum viðskiptakjörum. Á þessu stigi rannsóknarinnar bendir því flest til þess að þörf sé aðgerða á eldsneytismarkaði til þess að bæta hag almennings og efla íslenskt efnahagslíf. Mikilvægt er að fyrirtæki á markaðnum, viðskiptavinir þeirra, forsvarsmenn neytenda og stjórnvöld setji fram sjónarmið og tillögur sem miða að því. Best væri ef aðilar á markaðnum hefðu frumkvæði að úrbótum svo síður þurfi að koma til íhlutunar samkeppnisyfirvalda.“
Frestur til þess að skila rökstuddum sjónarmiðum og athugasemdum við skýrsluna er til föstudagsins 19. febrúar 2016. Gert er ráð fyrir að framkomin sjónarmið verði birt á heimasíðu Samkeppniseftirlitsins. Því er mikilvægt að þeir sem senda inn sjónarmið auðkenni hvaða upplýsingar í þeim eru háðar trúnaði að þeirra mati.
Árétting vegna umfjöllunar um frummatsskýrslu
Upplýsingasíða vegna markaðsrannsóknarinnar
Hægt er að lesa frummatsskýrsluna í flettara.