5.5.2009

Áfrýjunarnefnd samkeppnismála staðfestir að rétt hafi verið að hafna samruna Valitors hf. og Euro Refund Group North á Íslandi ehf.

Taxfree_logoMeð ákvörðun nr. 3/2009, frá 30. janúar sl., ógilti Samkeppniseftirlitið kaup Valitors hf. á öllu hlutafé í Euro Refund Group North á Íslandi ehf. (Tax Free).  Valitor starfar aðallega við útgáfu greiðslukorta og færsluhirðingu en meginstarfsemi Tax Free er á sviði endurgreiðslu virðisaukaskatts til erlendra ferðamanna.

Komst Samkeppniseftirlitið að þeirri niðurstöðu að markaðir þeir sem fyrirtækin starfa á væru nátengdir.  Um væri að ræða samsteypusamruna fyrirtækja þar sem skapast geti mikill möguleiki, geta og hvati til útilokunar keppinauta á mörkuðum fyrir greiðslukortastarfsemi, posaleigu, endurgreiðslu virðisaukaskatts til erlendra ferðamanna og svokölluðum gjaldeyrisumsnúningi. Í því síðastnefnda felst þjónusta við erlenda ferðamenn um uppgjör viðskipta með kreditkortum í erlendum gjaldmiðli.  Sýnt var fram á að staða annarra aðila á viðkomandi mörkuðum gæti veikst og að samruninn gæti leitt til þess að keppinautar hrektust af markaði og innkoma nýrra aðila yrði torvelduð.  Með því myndi valkostum söluaðila á skilgreindum mörkuðum fækka, til tjóns fyrir neytendur. Þá var sýnt fram á að skilyrði sem samrunaaðilar voru tilbúnir að samþykkja væru ekki nægileg til þess að koma í veg fyrir hin skaðlegu áhrif. Samruninn var því talinn fela í sér alvarlegar samkeppnishömlur.

Euro Refund Group North á Íslandi ehf. skaut ákvörðun Samkeppniseftirlitsins til áfrýjunarnefndar samkeppnismála og krafðist þess að ákvörðun eftirlitsins yrði felld úr gildi þar sem ósannað væri að samruninn hefði í för með sér skaðleg áhrif á samkeppni. Til vara krafðist fyrirtækið þess að áfrýjunarnefndin heimilaði samrunann með fyrrnefndum skilyrðum.

Áfrýjunarnefnd samkeppnismála hefur nú staðfest ákvörðun eftirlitsins. Í úrskurðinum fellst nefndin á skilgreiningar Samkeppniseftirlitsins á þeim mörkuðum sem til skoðunar eru og reynir á í þessu máli og að eftirlitið hafi með fullnægjandi hætti fært fram rök fyrir því að samruninn sé í grundvallaratriðum andstæður samkeppnislögum. Það er einnig álit nefndarinnar að áfrýjandi hafi ekki sýnt fram á að unnt væri að setja samrunanum skilyrði sem kæmu í veg fyrir þau skaðlegu áhrif sem samruninn hefði í för með sér. Úrskurð áfrýjunarnefndar er að finna á heimasíðu Samkeppniseftirlitsins.

Sjá nánar úrskurð Áfrýjunarnefndar nr. 6/2009.