2.2.2017

Hæstiréttur staðfestir brot SORPU bs. gegn samkeppnislögum

Hæstiréttur Íslands hefur í dag fellt dóm sinn í máli þar sem reyndi á sekt SORPU bs. vegna misnotkunar á markaðsráðandi stöðu við verðlagningu gagnvart viðskiptavinum fyrirtækisins. Samkeppniseftirlitið hafði í ákvörðun nr. 34/2012 komist að þeirri niðurstöðu að SORPA hefði með ólögmætum hætti mismunað viðskiptavinum sínum með því að veita eigendum sínum, þ.e. sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu, og Sorpstöð Suðurlands bs. betri kjör en öðrum viðskiptavinum, s.s. sorphirðufyrirtækjum. Lagði Samkeppniseftirlitið 45 mkr. sekt á SORPU vegna þessa brots á 11. gr. samkeppnislaga.

Áfrýjunarnefnd samkeppnismála og síðar Héraðsdómur Reykjavíkur staðfestu þá niðurstöðu. Með dómi Hæstaréttar í dag er héraðsdómurinn staðfestur.  

Málið varðar mikilvæg atriði sem tengjast gildissviði samkeppnislaga gagnvart þátttöku opinberra aðila í atvinnurekstri, en SORPA hélt því fram að samkeppnislög tækju ekki til fyrirtækisins og fyrirtækið hefði þar með ekki brotið af sér. Undir rekstri málsins ákvað Hæstiréttur að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins og var það birt 22. september 2016. 

Hæstiréttur staðfestir í dómi sínum í dag að starfsemi SORPU falli undir samkeppnislög og er þessi niðurstaða í samræmi við álit EFTA-dómstólsins. Jafnframt staðfestir Hæstiréttur að SORPA sé markaðsráðandi fyrirtæki og hafi með ólögmætum hætti veikt samkeppnisstöðu eina keppinautarins á markaði fyrir rekstur flokkunarmiðstöðva, þ.e. Gámaþjónustunnar. Þá staðfestir Hæstiréttur að stjórnvaldssekt SORPU hafi falið í sér hæfileg viðurlög vegna brots fyrirtækisins. 

Niðurstaða Hæstaréttar felur í sér mikilvæga túlkun á samkeppnisrétti að því er varðar opinber fyrirtæki. Jafnframt felur dómurinn í sér leiðbeiningu til opinberra fyrirtækja um hvernig haga skuli verðlagningu gagnvart fyrirtækjum sem freista þess að keppa við þau.  

Samkeppniseftirlitið hefur á liðnum misserum bent á mikilvægi þess að nýta samkeppnishvata til að skapa tækifæri til aukinnar verðmætasköpunar í meðhöndlun úrgangs. Reynslan sýnir að nýsköpun frumkvöðla í atvinnulífinu hefur oft leitt til framfara á þessu sviði. Þess vegna skiptir miklu máli hvernig sveitarfélög og fyrirtæki þeirra haga störfum sínum. Nánar má lesa um þetta hér. http://www.samkeppni.is/utgafa/frettir/nr/2769

Dómur Hæstaréttar í dag verður vonandi hvatning til sveitarfélaga að nýta sér krafta samkeppninnar á mörkuðum fyrir sorphirðu.