Samkeppniseftirlitið heimilar kaup Artasan ehf. á IceCare ehf. með skilyrðum
Samkeppniseftirlitið hefur haft til skoðunar kaup Artasan ehf. á IceCare ehf. Artasan er dótturfélag Veritas Capital sem er móðurfélag nokkurra fyrirtækja sem starfa á heilbrigðissviði m.a. við heildsölu og dreifingu lyfja og lækningatækja. Starfsemi Artasan felst í heildsölu á annars vegar, samheitalyfjum og hins vegar, ýmis konar heilsuvörum, m.a. vítamínum og bætiefnum. IceCare er heildsala sem selur ýmis konar heilsuvörur til smásala. Er því um að ræða láréttan samruna keppinauta á sviði heilsuvara. Samkeppniseftirlitið skilgreindi markað málsins sem annars vegar markað fyrir innflutning og heildsölu á breiðu úrvali vítamína, steinefna og bætiefna og hins vegar markað fyrir innflutning og heildsölu á breiðu úrvali tannhirðuvara. Þá komst Samkeppniseftirlitið að þeirri niðurstöðu að skipta mætti framangreindum mörkuðum nánar í undirmarkaði eftir ætlaðri notkun varanna.
Við rannsókn málsins kom í ljós að staða samrunaaðila á einstaka undirmörkuðum bætiefnimarkaðarins er sterk, einkum á markaði fyrir bætiefni fyrir liði. Með sátt við Samkeppniseftirlitið hafa samrunaaðilar gengist undir það skilyrði að undanskilja umboð IceCare á sviði liðbætiefna frá viðskiptunum. Nánar er hægt að kynna sér niðurstöðu málsins í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 29/2017, Kaup Artasan ehf. (Veritas Capital ehf.) á rekstri IceCare ehf.