Frummat Samkeppniseftirlitsins vegna kvörtunar Símans hf. yfir háttsemi Ríkisútvarpsins ohf. (RÚV) á auglýsingamarkaði vegna HM í knattspyrnu
Þann 11. júní sl. barst Samkeppniseftirlitinu kvörtun fyrir hönd Símans hf., vegna háttsemi Ríkisútvarpsins ohf. á auglýsingamarkaði í tengslum við Heimsmeistaramótið í knattspyrnu (HM). Jafnframt bárust Samkeppniseftirlitinu óformlegar ábendingar af sama toga frá öðrum keppinautum RÚV.
Í erindi Símans er m.a. kvartað yfir eftirfarandi meintri háttsemi RÚV:
- Að skilyrði fyrir kaupum á tilteknum auglýsingaplássum í tengslum við sýningar frá HM séu lágmarkskaup á tilteknu magni af auglýsingum.
- Að vikið sé verulega frá lögbundinni gjaldskrá við sölu á tilteknum auglýsingaplássum í tengslum við sýningar frá HM.
1. Um mögulega rannsókn
Samkeppniseftirlitið hefur haft til athugunar hvort hefja skuli formlega rannsókn á grundvelli umræddrar kvörtunar, sbr. 3. mgr. 8. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005, sbr. og 9. gr. reglna nr. 880/2005, um málsmeðferð Samkeppniseftirlitsins. Jafnframt hefur eftirlitið tekið til skoðunar hvort tilefni sé til bráðabirgðaákvörðunar skv. 3. mgr. 16. gr. sömu laga, en Síminn hefur gert kröfu um að tekin verði bráðabirgðaákvörðun í málinu.
Í málinu er annars vegar til athugunar hvort efni séu til að hefja rannsókn og e.a. taka ákvörðun á grundvelli 11. gr. samkeppnislaga, sem leggur bann við misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Í því máli kæmi m.a. til rannsóknar hvort RÚV teldist markaðsráðandi á hinum skilgreinda markaði. Upplýsingaöflun í aðdraganda ákvörðunar nr. 42/2017, Samruni Fjarskipta hf. og 365 miðla hf., gaf til kynna að RÚV hafi á árinu 2016 verið með 45-50% hlutdeild á markaði fyrir sjónvarpsauglýsingar, en slík markaðshlutdeild getur gefið vísbendingu um markaðsráðandi stöðu.
Hins vegar kemur til álita að byggja rannsókn á c-lið 3. mgr. 8. gr. samkeppnislaga sem mælir fyrir um að Samkeppniseftirlitið skuli gæta þess að aðgerðir opinberra aðila takmarki ekki samkeppni, sbr. og b-lið 1. mgr. 16. gr. samkeppnislaga, sem veitir Samkeppniseftirlitinu heimild til að grípa til bindandi íhlutunar gegn athöfnum opinberra aðila. Skilyrði fyrir slíkri íhlutun er að viðkomandi háttsemi raski samkeppni og að hún styðjist ekki við fullnægjandi lagaheimild.
2. Upplýsingaöflun gagnvart RÚV
Við athugun máls þessa hefur Samkeppniseftirlitið í tvígang óskað eftir upplýsingum og skýringum frá RÚV. Í svörum RÚV hefur eftirfarandi m.a. verið staðfest:
- Að auglýsingapakkar, auglýsingaleiðir og auglýsingamagn þeim tengdum hafi haft þá einu þýðingu að ákvarða forgang við niðurröðun birtinga.
- Að enginn áskilnaður hafi verið gerður um lágmarkskaup og að ekki hafi verið á nokkurn hátt lagt að auglýsendum að ráðstafa auglýsingafé sínu að öllu eða einhverju tilteknu leyti til RÚV. Hafi mismunandi auglýsingaleiðir, sem tryggðu forgang við niðurröðun birtinga, miðast við tiltekið auglýsingamagn.
- Að gildistími umræddra samninga miðist við HM, þ.e. að við lok HM sé birtingu auglýsinga samkvæmt umræddum samningum lokið. Engin inneign myndist hjá kaupanda til að kaupa birtingu auglýsinga síðar og að engar aðrar skuldbindingar samninganna verði í gildi eftir að HM lýkur.
- Að engin önnur binding, s.s. einkakaup eða tryggðarafslættir, fylgi samningum um auglýsingakaup hjá RÚV.
Í svörum RÚV er einnig að finna lýsingu á samningum og samningsgerð félagsins, birtingu verðskrár o.fl. Kemur m.a. fram að í aðdraganda viðskipta séu samskipti jafnan munnleg eða í formi tölvubréfasamskipta, en það séu pantanirnar ásamt samhliða staðfestingum RÚV sem gildi þegar á hólminn sé komið. Að því er varðar upplýsingagjöf um pöntunarferli og verðskrá kemur fram að framvegis verði þess gætt að birta auglýsingaverðskrá fyrir birtingu í almennri dagskrá og viðburðum fyrr en gert hefur verið og skýrleiki aukinn á vef RÚV til að gera aðgengi greiðara. Þá muni RÚV framvegis birta á heimasíðu sinni leiðakerfi og sambærileg kerfi, til að tryggja enn meira gagnsæi.
3. Fjölmiðlanefnd hefur málið einnig til athugunar
Í fyrirliggjandi kvörtun er vísað til gildandi laga og reglna um háttsemi RÚV á auglýsingamarkaði, s.s. ákvæði 7. gr. laga nr. 23/2013 um Ríkisútvarpið, sem og ákvæði fjölmiðlalaga nr. 38/2011 um kostun o.fl. Eftirfylgni Ríkisútvarpsins við lög og reglur á fjölmiðlamarkaði getur haft þýðingu m.a. við mat á því hvort farið sé að samkeppnislögum. Á hinn bóginn fer fjölmiðlanefnd með eftirlit með því að farið sé að fjölmiðlalögum og lögum um Ríkisútvarpið.
Samkeppniseftirlitið hefur verið í samskiptum við fjölmiðlanefnd vegna þessa. Af hálfu fjölmiðlanefndar hefur m.a. komið fram að nefndin hafi móttekið kvörtun frá Símanum hf. vegna sama máls þann 25. maí sl. Málið sé til athugunar en niðurstaða liggi ekki fyrir.
Af framangreindu er ljóst að það er hlutverk fjölmiðlanefndar að taka afstöðu til þess hvort fylgt hafi verið lögum um Ríkisútvarpið, fjölmiðlalögum og reglum settum samkvæmt þeim. Jafnframt liggur fyrir að kvörtun vegna málsins er til meðferðar hjá nefndinni.
4. Frummat Samkeppniseftirlitsins
Samkvæmt 3. mgr. 8. gr. samkeppnislaga er Samkeppniseftirlitinu falið að meta hvort erindi sem berast því gefi nægar ástæður til rannsóknar og ráða málum í forgangsröð. Að virtum framkomnum gögnum og upplýsingum er það frummat Samkeppniseftirlitsins að ekki séu nægar vísbendingar um að RÚV hafi með háttsemi sinni gengið gegn 11. gr. samkeppnislaga, þótt fyrirtækið yrði talið vera markaðsráðandi á auglýsingamarkaði. Við mat Samkeppniseftirlitsins á þessu er m.a. horft til staðhæfinga RÚV um efni viðkomandi samninga, sbr. kafla 2 hér að framan.
Jafnframt er það frummat Samkeppniseftirlitsins, að virtum framkomnum upplýsingum, að ekki sé á þessu stigi tilefni til frekari athugunar á grundvelli heimildar eftirlitsins til íhlutunar gegn athöfnum opinberra aðila, sbr. b-lið 1. mgr. 16. gr. samkeppnislaga. Vísar eftirlitið í þessu efni m.a. til þess að fjölmiðlanefnd hefur eftirlit með því að RÚV fari að fjölmiðlalögum, lögum um Ríkisútvarpið og reglum settum á þeim grundvelli, sem og til þess að nefndin hefur málið nú til skoðunar.
Í þessu sambandi minnir Samkeppniseftirlitið á að það hefur á fyrri tíð fjallað um stöðu Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði. Þannig hefur eftirlitið ítrekað vakið athygli á þeirri samkeppnislegu mismunun sem leiðir af núgildandi lögum og felst í þátttöku RÚV á auglýsingamarkaði, samhliða fjárframlögum til félagsins af skattfé. Árið 2008 beindi Samkeppniseftirlitið sérstöku áliti til menntamálaráðherra, nr. 4/2008, þar sem lagt var til að þátttaka RÚV á auglýsingamarkaði yrði endurskoðuð. Síðan hefur eftirlitið ítrekað fjallað um þetta, m.a. í umsögnum um frumvörp á þessu sviði. Meðal annars í ljósi athugasemda samkeppnisyfirvalda og Eftirlitsstofnunar EFTA var háttsemi RÚV á auglýsingamarkaði settar ákveðnar skorður með lögum um Ríkisútvarpið árið 2013. Eðlilegt er að ráðuneyti og stjórnvöld sem fara með málefni RÚV taki framangreinda mismunun til skoðunar í þessu ljósi, sem og þær reglur sem settar hafa verið til þess m.a. að mæta þeirri mismunun.
Af öllu framangreindu leiðir jafnframt að ekki eru forsendur til bráðabirgðaákvörðunar á grundvelli 3. mgr. 16. gr. samkeppnislaga, enda eru þau skilyrði sem mælt er fyrir um í ákvæðinu ekki uppfyllt. Er þeirri kröfu Símans því hafnað.
5. Kostur gefinn á frekari sjónarmiðum og upplýsingum
Í ljósi fyrrgreindra óformlegra ábendinga sem eftirlitinu hafa borist er aðilum á markaði hér með gefinn kostur á að koma frekari athugasemdum á framfæri vegna málsins, áður en endanleg ákvörðun er tekin um það hvort formleg rannsókn verði hafin eða því lokið án frekari athugunar. Athugasemdir þurfa að berast eigi síðar en 20. júlí nk. Aðilum er gefinn kostur á því að koma sjónarmiðum sínum á framfæri, í bréfi, tölvupósti (samkeppni@samkeppni.is) eða síma (585-0700).