29.9.2023

Samkeppniseftirlitið heimilar kaup Ljósleiðarans á stofnneti Sýnar

  • Ll-syn

Samkeppniseftirlitið hefur birt ákvörðun þar sem kaup Ljósleiðarans ehf. á stofnneti Sýnar hf. eru heimiluð. Það er niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að samruninn hafi ekki skaðleg áhrif á samkeppni þannig að þörf eða tilefni sé til íhlutunar vegna viðskiptanna. Samkeppniseftirlitið gerði athugasemdir við og fékk skýringar frá samrunaaðilum vegna einstakra atriða í heildsölusamningi félaganna í kjölfar samrunans og brugðust samrunaaðilar við þeim athugasemdum.

Forsögu kaupanna má rekja til þess að árið 2022 fékk Ljósleiðarinn rétt til umráða tveggja ljósleiðaraþráða sem eru í eigu íslenska ríkisins og liggja í kringum Ísland. Var þetta í kjölfar útboðs ríkisins um nýtingu þráðanna (svokallaðir NATO-þræðir) og mun gera Ljósleiðaranum kleift að bjóða í heildsölu fjarskiptaþjónustu sína á landinu öllu en fram til þessa hefur þjónusta fyrirtækisins að miklu leyti verið takmörkuð við höfuðborgarsvæðið og sveitarfélög á suðvesturhorni landsins. Fyrir var Míla eina fyrirtækið sem gat boðið slíka þjónustu á landsvísu og hefur haft fimm ljósleiðaraþræði fyrir sína starfsemi.

Við útboð ríkisins missti Sýn þræði sem fyrirtækið hafði haft til umráða og notað fyrir stofnnet sitt og gat því ekki rekið það áfram nema að takmörkuðu leyti. Með kaupum Ljósleiðarans á stofnnetinu minnkar starfsemi Sýnar á heildsölumörkuðum en félagið getur hins vegar beint auknum viðskiptum fyrir heildsöluvörur til Ljósleiðarans og það fyrirtæki að sama skapi hraðað uppbyggingu sinni á landsdekkandi fjarskiptaneti.

Það er mat Samkeppniseftirlitsins að með útbreiðslu Ljósleiðarans verði til fleiri valkostir í gagnaflutningi um landið allt fyrir fjarskiptafélög og tvö landsdekkandi grunnnet. Er samruninn liður í þeirri uppbyggingu Ljósleiðarans samkvæmt gögnum málsins. Er þessi fjölgun valkosta jákvæð bæði fyrir innviðasamkeppni og fyrir samkeppni á hinum ýmsu heildsölumörkuðum fjarskipta sem einnig mun koma neytendum og atvinnulífi um hins dreifðu byggðir landsins til góða.