14.6.2024

Samruni Festi og Lyfju samþykktur með skilyrðum

  • Arion-satt

Festi hf. tilkynnti um kaup sín á Lyfju hf. til Samkeppniseftirlitsins. Meðferð samrunamálsins er nú lokið með því að félögin gerðu sátt við Samkeppniseftirlitið.

Festi hf. rekur meðal annars verslanir Krónunnar, N1 og Elko. Lyfja rekur samnefnd apótek og heildsöluna Heilsu. Öll framangreind fyrirtæki eru í sterkri stöðu á þeim mörkuðum er þau starfa á. Starfsemi samrunaaðila skarast einkum á markaði fyrir smásölu hreinlætis- og snyrtivara og smásölu á heilsuvörum.

Einnig hefur samruninn áhrif á heildsölumarkað fyrir innflutning og dreifingu á heilsuvörum, en Heilsa sér ýmsum smásölufyrirtækjum fyrir heilsuvörum. Þá hefur samruninn áhrif á markað fyrir smásölu lyfja, m.a. þar sem að Lyfja verður með samrunanum hluti af stóru smásölufyrirtæki sem selur tengdar vörur.

Samrunaaðilar óskuðu eftir sáttaviðræðum og lögðu fram tillögur að skilyrðum sem Samkeppniseftirlitið hefur fallist á. Felast skilyrðin aðallega í eftirfarandi:

  • Heilsa ehf. mun starfa sjálfstætt með rekstrarlegum aðskilnaði frá Festi við heildsölu heilsuvara, m.a. með skýrum skilyrðum um vernd viðskiptaupplýsinga um keppinauta samstæðunnar. Heilsu ehf. ber einnig að gæta jafnræðis og hlutlægni í viðskiptum við smásala. Falla skilyrðin úr gildi að fimm árum liðnum.

    Við rannsókn málsins lýstu keppinautar Festi og Lyfju í smásölu á þessum vörum yfir áhyggjum af skertu og ójöfnu aðgengi að mikilvægum heilsuvörum, sem skekkja kynni samkeppni á markaðnum. Vinna þessi skilyrði gegn slíkum áhrifum.

  • Í vissum tilfellum skuldbinda lyfjafræðingar sig til þess að hefja ekki störf hjá samkeppnisaðila í tiltekinn tíma eftir að ráðningarsambandinu lýkur. Festi og Lyfja munu fella niður slík samkeppnisbönn í ráðningarsamningum lyfjafræðinga og ekki setja slík ákvæði í starfssamninga lyfjafræðinga hjá félaginu.

    Athuganir á samrunum á apótekamarkaði hafa leitt í ljóst mikinn skort á lyfjafræðingum hérlendis. Hömlur á atvinnufrelsi þeirra vegna framangreindra samkeppnisbanna takmarka möguleika smærri keppinauta sem og nýrra aðila til þess að hefja eða útvíkka starfsemi. Er þetta skilyrði til þess fallið að draga úr slíkri takmörkun og áhrifum samrunans að þessu leyti.

Rannsókn Samkeppniseftirlitsins leiddi í ljós samþjöppun í smásölu hreinlætis- og snyrtivara, og í smásölu heilsuvara (sérstaklega vítamín, bætiefnum og steinefnum) á tilteknum landssvæðum, einkum Austurlandi og Suðurlandi. Þá nýtur Lyfja sterkrar stöðu í sölu þessara vöruflokka á Norðurlandi og á Vestfjörðum.

Samþjöppun af þessu tagi getur leitt til skertrar samkeppni, s.s. með þeim afleiðingum að dregið sé úr þjónustustigi. Í þessu máli þóttu þó ekki forsendur til íhlutunar vegna þessa. Í því sambandi hefur áhrif að Festi og Lyfja teljast ekki til sérlega náinna keppinauta í sölu þessara vara, aðhald frá netverslun er til staðar á þessum svæðum og ekki er um að ræða daglegar neysluvörur. 

Þá hefur einnig áhrif að við rannsókn málsins lýsti Festi yfir áformum um aukið þjónustustig á landsbyggðinni á dagvörumarkaði, þ.m.t. í ofangreindum vöruflokkum hreinlætis- og snyrtivara, og heilsuvara. Lúta þau áform m.a. að aukinni netverslun og heimsendingarþjónustu Krónunnar á þessu ári sem ná muni a.m.k. til Reyðarfjarðar, Eskifjarðar, Neskaupsstaðar, Fáskrúðsfjarðar og Stöðvarfjarðar á Austurlandi. Jafnframt aukinni heimsendingarþjónusta Krónunnar á Suðurlandi sem ná muni a.m.k. til Eyrarbakka, Stokkseyri, Tjarnarbyggðar, Flúða og Reykholts.

Þá muni verðstefna Krónunnar um eitt verð um land allt gilda áfram eftir samrunann, og hið sama gildir um samhljóða verðstefnu Lyfju.

Skilyrði sáttarinnar og aðgerðir Festi hafa að mati Samkeppniseftirlitsins jákvæð áhrif á samkeppni á apóteka- og dagvörumarkaði Að mati Samkeppniseftirlitsins er sáttin fullnægjandi til þess að koma í veg fyrir möguleg skaðleg áhrif af yfirtöku Festi á Lyfju. Í því ljósi er samruninn því samþykktur með skilyrðum.

Sáttin er aðgengileg hér , en samrunaákvörðun með skýringum og rökstuðningi verður birt síðar. 

Bakgrunnsupplýsingar:

Samkvæmt 17. gr. f samkeppnislaga er Samkeppniseftirlitinu heimilt, innan lögbundinna tímafresta, að gera sátt við samrunaaðila um lyktir máls, þegar um er að ræða samruna sem hindrar samkeppni. Er sátt bindandi fyrir málsaðila.

Það athugist einnig að Samkeppniseftirlitið hefur til rannsóknar ætluð brot Festi á skilyrðum sem fram koma í ákvörðun 8/2019. Birti Samkeppniseftirlitið Festi andmælaskjal vegna málsins í lok síðasta árs, sbr. m.a. tilkynningu Festi á Nasdaq kauphöll þann 21. desember sl. Sú sátt sem nú hefur verið gerð er ótengd hinu fyrra máli og hefur ekki áhrif á áframhaldandi rannsókn þess.