14.12.2020

Samtal um Samkeppni: Opinn umræðufundur um nýjar samrunareglur

Þann 11. desember sl. hélt Samkeppniseftirlitið opinn umræðufund um drög eftirlitsins að endurskoðuðum reglum um tilkynningu og málsmeðferð í samrunamálum. Höfðu drögin áður verið birt til umsagnar á heimasíðu eftirlitsins og áhugasömum verið gefið tækifæri til að koma á framfæri sjónarmiðum. Fundarboðið má nálgast hér.

Fundurinn var haldinn í gegnum fjarfundarbúnað og sóttu um 28 manns fundinn. Sköpuðust þar frjóar umræður þær meginbreytingar sem lagðar eru til í nýju reglunum. Var fundurinn gagnlegur og munu sjónarmið sem þar komu fram nýtast við frágang leiðbeininganna.

Hinar nýju reglur byggja að verulegu leyti á gildandi reglum frá árinu 2008, með síðari breytingum. Þær breytingar sem nú eru gerðar eru einkum af tvennum toga:

  1. Formfestar eru breytingar á verklagi við meðferð samrunamála sem miða að aukinni skilvirkni, en eftirlitið hefur áður leitað samráðs vegna þessa og efnt til fundar í fundarröðinni Samtal um samkeppni þar sem gagnlegar umræður fóru fram um reynsluna.
  2. Reglurnar eru uppfærðar með tilliti til breytinga á samkeppnislögum sem tóku gildi þann 23. júlí á þessu ári.