Staða athugunar á stjórnunar- og eignatengslum fyrirtækja í sjávarútvegi og ákvörðun um dagsektir
Eitt fyrirtæki ekki enn veitt mikilvægar upplýsingar og gögn
Samkeppniseftirlitið hefur á heimasíðu sinni greint frá yfirstandandi athugun á stjórnunar- og eignatengslum fyrirtækja í sjávarútvegi, samanber fréttir þann 5. október 2022 og 17. apríl 2023, en með síðari fréttinni var kynnt sérstök upplýsingasíða um athugunina.
Á upplýsingasíðunni er meðal annars að finna verkefnaáætlun um athugunina en þar er ákvörðun Samkeppniseftirlitsins útskýrð og fjallað um forsendur hennar og efni. Þá er gerð grein fyrir umgjörð athugunarinnar, þar á meðal ráðningu sérfræðings á sviði hönnunar gagnagrunna og gagnagreiningar og skipun ráðgjafarhóps utanaðkomandi sérfræðinga/fræðimanna á sviði samkeppni og gagnagreiningar.
Gagnaöflun - dagsektir
Í verkefnaáætluninni er gerð grein fyrir því að athugunin styðjist annars vegar við gagnagrunna á vettvangi hins opinbera, sem nýtast við greiningu á stjórnunar- og eignatengslum. Mikil vinna hefur farið fram á þessu sviði og hefur Samkeppniseftirlitið nú fengið aðgang að helstu gagnagrunnum og hafið greiningu upplýsinga sem nýtast við athugunina.
Hins vegar styðst athugunin við upplýsingaöflun hjá sjávarútvegsfyrirtækjum, eins og nánar er útskýrt í verkefnaáætluninni. Gagnaöflunin hófst með bréfi til allmargra sjávarútvegsfyrirtækja, með bréfi dagsettu 5. apríl síðastliðinn. Langflest fyrirtækin brugðust vel við beiðninni og veittu umbeðnar upplýsingar. Í nokkrum tilvikum voru þó gerðar athugasemdir við athugunina og upplýsingar veittar með fyrirvara af þeim sökum.
Eitt fyrirtæki, Brim hf., hefur þó ekki enn veitt mikilvægar upplýsingar og gögn sem óskað var eftir. Hefur það óhjákvæmilega tafið rannsóknina.
Eftir ítrekuð bréfaskipti hefur Samkeppniseftirlitið nú tekið ákvörðun um að nýta sér heimild sem kveðið er á um 38. gr. samkeppnislaga til þess að beita fyrirtækið dagsektum. Þannig er Brim gert að greiða dagsektir að upphæð 3.500.000 kr. á dag, þar til umbeðnar upplýsingar og gögn hafa verið afhent. Byrja dagsektirnar að reiknast eftir að fjórtán dagar eru liðnir frá ákvörðun um hana, í samræmi við 39. gr. samkeppnislaga.
Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins um dagsektir á hendur Brim, nr. 29/2023, er aðgengileg hér.
Athugasemdir við athugunina og gagnaöflun – Birting samnings við matvælaráðuneytið
Eins og áður greinir hafa nokkur fyrirtæki, þar á meðal Brim og Guðmundur Runólfsson hf., gert athugasemdir eða fyrirvara við athugunina og gagnaöflun á grunni hennar. Einkum er gerð athugasemd við að Samkeppniseftirlitið og matvælaráðuneytið hafi gert samning sem veiti eftirlitinu fjárhagslegt svigrúm til þess að ráðast í athugunina. Í athugasemdum fyrirtækjanna er meðal annars leitt að því líkum að samningurinn dragi úr sjálfstæði Samkeppniseftirlitsins.
Af þessu tilefni, sem og vegna beiðnar á grundvelli upplýsingalaga um afhendingu fyrrgreinds samnings, hefur hann verið birtur á upplýsingasíðu vegna athugunarinnar. Jafnframt er hann aðgengilegur hér.
Vegna framangreindra athugasemda er enn fremur rétt að árétta að athugun Samkeppniseftirlitsins grundvallast á d-lið 1. mgr. 8. gr. samkeppnislaga, en þar er kveðið á um það hlutverk Samkeppniseftirlitsins að kanna stjórnunar- og eignatengsl í íslensku atvinnulífi og skrifa um það skýrslur. Þá grundvallast gagnaöflun eftirlitsins á skýrum heimildum í 19. gr. samkeppnislaga.
Fyrrgreindur samningur gerir Samkeppniseftirlitinu kleift að framkvæma athugun sem samræmist lögbundnum skyldum eftirlitsins og það hafði í hyggju að ráðast í, samanber til að mynda áherslur eftirlitsins fyrir árin 2022-2024 og 2023-2025, auk þess sem að fyrri úrlausnir eftirlitsins um samruna sjávarútvegsfyrirtækja bera með sér að eftirlitið hefur talið nauðsynlegt að greina betur stjórnunar- og eignatengsl á þessu sviði.
Samkvæmt samningnum eru markmið matvælaráðherra með honum að stuðla að gagnsæi í eignarhaldi sjávarútvegsfyrirtækja, upplýstri stefnumótun, að á hverjum tíma sé farið að lögum og reglum á þessu sviði og að eftirlitsstofnanir geti sinnt hlutverki sínu og átt með sér samstarf. Samkvæmt 8. gr. forsetaúrskurðar um skiptingu stjórnarmálefna ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 6/2022, fer matvælaráðuneytið með mál er varða sjávarútveg.
Í samningnum er kveðið skýrt á um að hann raski ekki sjálfstæði Samkeppniseftirlitsins í úrlausnum sínum. Þá felur athugunin hvorki í sér ákvörðun um íhlutanir á grunni samkeppnislaga eða ákvörðunum um frekari athuganir, heldur miðar verkefnið einvörðungu að því að gera eftirlitinu kleift að birta skýrslu í samræmi við d-lið 1. mgr. 8. gr samkeppnislaga. Með þeim hætti er stuðlað að auknu gagnsæi um eigna- og stjórnunartengsl í undirstöðugrein í íslensku atvinnulífi.
Samstarf við önnur stjórnvöld
Samkvæmt verkefnaáætlun Samkeppniseftirlitsins (kafli 4) er samhliða athugun þessari stefnt að auknu samstarfi opinberra stofnana sem hafa hlutverki að gegna í eftirliti með eða söfnun upplýsinga um stjórnunar- og eignatengsl. Myndi það samstarf miða að því að efla aðgengi viðkomandi stofnana að nauðsynlegum upplýsingum og stuðla að samnýtingu upplýsingakerfa, sem og að efla þekkingu og skilvirka nýtingu þekkingar á þessu sviði.
Ætlunin er að nýta reynslu úr athugun á stjórnunar- og eignatengslum sjávarútvegsfyrirtækja til þess að efla samstarf viðkomandi stofnana.
Vikið er að þessu í samningi Samkeppniseftirlitsins og matvælaráðuneytisins. Af því tilefni ber þó að árétta að framangreind styrking samstarfs er sjálfstætt verkefni og í þeim skilningi óháð athugun Samkeppniseftirlitsins á stjórnunar- og eignatengslum í sjávarútvegi. Er sú athugun alfarið unnin á grundvelli samkeppnislaga og þar af leiðandi á ábyrgð Samkeppniseftirlitsins.