Leiðbeiningarsíða - Hagsmunasamtök fyrirtækja og samkeppnisreglur
Spurt & svarað
Á þessari upplýsingasíðu er safnað saman upplýsingum um reglur og beitingu reglna sem koma eiga í veg fyrir að starf hagsmunasamtaka fyrirtækja skaði samkeppni á mörkuðum. Þessar reglur hafa verið staðfestar í framkvæmd bæði hér á landi og erlendis.
Hagsmunasamtök fyrirtækja þurfa að kunna á þessum reglum góð skil. Einnig er mikilvægt að aðildarfyrirtæki hagsmunasamtaka þekki reglurnar, bæði í sinni eigin þátttöku á vettvangi samtaka og til þess að sýna samtökum sínum aðhald.
Þá eru þessar upplýsingar einnig gagnlegar fyrir neytendur, viðskiptavini fyrirtækja og aðra sem vilja skapa virkt aðhald á mörkuðum.
Starf hagsmunasamtaka fyrirtækja getur verið gagnlegt og haft jákvæð áhrif á mörkuðum, s.s. í umræðu á vettvangi stjórnvalda um leiðir til að bæta rekstrar- og starfsskilyrði fyrirtækja og viðkomandi atvinnugreinar í heild sinni. Á hinn bóginn setja samkeppnislög hagsmunasamtökum mikilvægar skorður. Þess vegna skiptir miklu máli fyrir neytendur og efnahagslífið í heild að hagsmunasamtök og aðildarfyrirtæki þeirra séu ávallt á varðbergi og gæti þess að fylgja lögum að þessu leyti.
Samkvæmt samkeppnislögum er hagsmunasamtökum fyrirtækja bannað að ákveða samkeppnishömlur eða hvetja til hindrana sem bannaðar eru samkvæmt samkeppnislögum eða brjóta í bága við ákvarðanir Samkeppniseftirlitsins. Bann þetta kemur fram í 12. gr. samkeppnislaga, en inntak bannsins kemur einnig fram m.a. í banni 10. gr. samkeppnislaga við ólögmætu samráði.
Ef spurningar vakna varðandi þetta málefni má endilega senda póst á samkeppni@samkeppni.is.
Spurt & svarað:
1. Hvað felst í bannákvæði 12. gr. samkeppnislaga?
Í 12. gr. samkeppnislaga segir að samtökum fyrirtækja sé óheimilt að ákveða samkeppnishömlur eða hvetja til hindrana sem bannaðar eru samkvæmt lögunum eða brjóta í bága við ákvarðanir samkvæmt lögunum. En hvað felst í þessu?
Hugtökin að „ákveða samkeppnishömlur eða hvetja til hindrana“ taka til allra aðgerða og ráðstafana samtaka fyrirtækja sem ætlað er að stuðla að því að aðildarfyrirtæki hegði sér með tilteknum hætti. Það leiðir af orðlagi ákvæðisins að ákvörðun eða hvatning getur verið í hvaða formi sem er.
Notkun hugtaksins hvatning í 12. gr. samkeppnislaga gefur til kynna að löggjafinn hafi viljað leggja sérstaka áherslu á að ákvæðið taki til hvers konar ráðstafana samtaka fyrirtækja sem ekki eru bindandi sem hafa það að markmiði að raska samkeppni eða hafa slík skaðleg áhrif. Hugtakið hvatning nær þannig til allra aðgerða og ráðstafana samtaka fyrirtækja sem ætlað er að stuðla að því að aðildarfyrirtæki hegði sér með tilteknum hætti.
Ljóst er að ákvæði 12. gr. felur í sér sjálfstætt brot á samkeppnislögum, en efnisinntak þess kemur einnig fram í banni 10. gr. samkeppnislaga við ólögmætu samráði. Ákvæði 12. gr. er sambærilegt þeim reglum sem gilda annars staðar á Evrópska efnahagssvæðinu og hefur verið túlkað í ákvörðunum, úrskurðum og dómum.
Í 2. mgr. 12. gr. samkeppnislaga er síðan tekið af skarið um að bann við því að ákveða samkeppnishömlur eða hvetja til hindrana taki einnig til „stjórnarmanna samtaka, starfsmanna þeirra og manna sem valdir eru til trúnaðarstarfa í þágu samtakanna“. Í frumvarpi sem varð að eldri samkeppnislögum kom þetta m.a. fram um ákvæðið: „Til þess að koma í veg fyrir allan vafa um túlkun er tekið fram í 2. mgr. að bannið taki einnig til stjórnarmanna samtaka, starfsmanna samtaka og manna sem gegna trúnaðarstörfum hjá eða á vegum samtaka fyrirtækja.“
2. Hvað ber samtökum fyrirtækja sérstaklega að varast?
Samkeppniseftirlitið hefur sett fram leiðbeiningar um það hvað samtök fyrirtækja þurfi sérstaklega að varast. Hafa þær komið fram á heimasíðu eftirlitsins og í skýrslu nr. 1/2008, Viðskiptasamningar birgja og annað samstarf fyrirtækja á matvörumarkaði, (bls. 30 og áfram). Byggja þessar leiðbeiningar á umfjöllun og réttarframkvæmd hér á landi og erlendis en í skýrslunni er áréttað að þessi umfjöllun sé ekki tæmandi.
Eftirfarandi eru dæmi um umfjöllun eða samvinnu sem farið getur gegn 12. gr., sbr. 10. gr. samkeppnislaga:
- Ákvörðun eða önnur umfjöllun um gjaldskrá eða hvað teljist til „eðlilegrar“ verðlagningar aðildarfélaga.
- Ákvarðanir eða önnur umfjöllun um að hækka verð, lækka verð eða halda verði óbreyttu.
- Samræming á eða önnur umfjöllun um hvers konar viðskiptaskilmála sem gilda gagnvart viðskiptavinum aðildarfyrirtækja.
- Umfjöllun eða umræður um að aðildarfyrirtæki eigi ekki viðskipti við tiltekna aðila.
- Umfjöllun eða umræður um verð, verðþróun, viðskiptakjör, verðbreytingar á aðföngum og öðrum kostnaðarliðum.
- Umfjöllun eða umræður um rekstrar-, efnahags- og viðskiptalega stöðu keppinauta eða viðskiptavina aðildarfélaganna.
- Upplýsingaskipti eða upplýsingamiðlun um verð, kostnað eða kostnaðaruppbyggingu, kostnaðarhækkanir, viðskiptavini, framboð og söluskilmála.
- Opinbert fyrisvar varðandi verðlagningu eða þjónustu aðildarfyrirtækja. Tekur þetta m.a. til umræðu á opinberum vettvangi um verð og verðbreytingar aðildarfyrirtækja.
3. Hvers þarf að gæta þegar talsmenn samtaka fyrirtækja taka þátt í opinberri umfjöllun?
Eins og rakið er í svari við spurningu 2 hér að framan getur eftirfarandi umfjöllun á vettvangi eða fyrir hönd samtaka fyrirtækja farið gegn 12. gr., sbr. 10. gr. samkeppnislaga:
- „Umfjöllun eða umræður um verð, verðþróun, viðskiptakjör, verðbreytingar á aðföngum og öðrum kostnaðarliðum.“
- „Umfjöllun eða umræður um rekstrar-, efnahags- eða viðskiptalega stöðu keppinauta eða viðskiptavina aðildarfélaga.“
Talsmenn samtaka fyrirtækja þurfa því að kunna skil á reglum samkeppnislaga sem varða starfsemi hagsmunasamtaka, samráð og fleira. Þau þurfa meðal annars að vera meðvituð um að ummæli um verð og verðhækkanir geta verið túlkuð sem vísbendingar, skilaboð eða hvatning um að tímabært sé að hækka verð.
Hafa verður í huga að aðilar að samtökum fyrirtækja eru oft öll eða flest fyrirtæki í viðkomandi atvinnugrein, eða -greinum, og talsmenn slíkra samtaka tala þá í nafni greinarinnar allrar. Augljóst er að ummæli þeirra geta haft mikil áhrif á meðal fyrirtækja. Af þeim sökum hafa ákvæði 12. gr. samkeppnislaga mikla þýðingu.
Þannig verða talsmenn samtaka fyrirtækja að gæta þess að aðildarfyrirtækin geti ekki litið á umfjöllun þeirra sem vísbendingu um að nú séu verðbreytingar tímabærar. Mikilvægt er að aðildarfyrirtækin taki ákvarðanir um verðbreytingar sem og aðrar ákvarðanir um rekstur sinn með sjálfstæðum hætti.
4. Hvað mega hagsmunasamtök þá gera og hvernig geta talsmenn þeirra tjáð sig opinberlega?
Starf hagsmunasamtaka fyrirtækja getur verið gagnlegt og haft jákvæð áhrif á mörkuðum. Til að sinna því starfi er hagsmunasamtökum heimilt að taka þátt í almennri umfjöllun um viðkomandi atvinnugrein í fjölmiðlum, í fræðslu- og upplýsingaskyni. Þá er þeim einnig heimilt að sinna hagsmunagæslu af ýmsu tagi. Getur það t.a.m. á við í eftirfarandi tilvikum:
- Í hagsmunagæslu gagnvart stjórnvöldum varðandi nýja löggjöf eða breytingar á löggjöf, álagningu skatta eða önnur stefnumál stjórnvalda sem gætu haft áhrif á viðkomandi atvinnugrein.
- Í umræðu um starfsumhverfi eða starfsskilyrði, t.d. með hliðsjón af öryggiskröfum og umhverfissjónarmiðum, að því gefnu að í því felist ekki samráð um aðgangshindranir inn á markaðinn sem hefðu skaðleg áhrif á samkeppni.
- Í umræðu um leiðir til að efla samkeppnishæfni viðkomandi atvinnugreinar, nýsköpun, rannsóknir eða menntun.
- Í umræðu á vettvangi stjórnvalda um leiðir til að bæta rekstrarskilyrði fyrirtækja. Þar á meðal getur innlegg þeirra í umræðu um stöðu efnahagsmála verið mikilvægt.
- Með veitingu þjónustu eða ráðgjafar til aðildarfyrirtækja, s.s. lögfræðilega ráðgjöf, um endurskoðun reikninga, þjálfun starfsmanna eða umhverfisverndunarsjónarmið.
Hafa ber í huga að í einstökum tilvikum kunna samtök fyrirtækja að hafa skuldbundið sig til þess að fylgja sérstökum reglum til þess að tryggja breytingar á háttsemi sem talin hefur verið ólögmæt.
Að því er varðar umfjöllun samtaka fyrirtækja eða talsmanna þeirra er ljóst að ákvæði samkeppnislaga útiloka ekki umfjöllun um efnahagsmál, vöruskort, vaxtahækkanir og önnur starfsskilyrði fyrirtækja. Þannig geta hagsmunasamtök með ýmsum hætti staðið fyrir umræðu um starfsskilyrði fyrirtækja ef þess er gætt að aðildarfyrirtækin getið ekki litið á umfjöllun samtakanna sem vísbendingu, skilaboð eða hvatningu um tiltekna háttsemi eða aðgerðir.
Í umfjöllun um starfsskilyrði fyrirtækja hafa talsmenn hagsmunasamtaka oft fleiri en einn valkost. Það er t.d. munur á annars vegar því hvort samtök fyrirtækja eða talsmaður þeirra stígur fram og spáir því að fyrirtæki muni hækka verð eða tjáir sig um nauðsyn þess, og hins vegar því að talsmaðurinn reifi hækkandi hrávöruverð og versnandi aðstæður, en taki um leið fram að það sé fyrirtækjanna sjálfra að finna leiðir til að bregðast við því, s.s. með hagræðingaraðgerðum eða breytingum á kjörum.
Fyrri valkosturinn er varhugaverður og getur farið gegn samkeppnislögum því aðildarfyrirtæki samtakanna geta tekið ummælin sem vísbendingu um að nú sé tækifæri til að huga að verðhækkunum, óháð aðstæðum viðkomandi fyrirtækis. Seinni valkosturinn felur ekki í sér slíkar vísbendingar og er því í lagi.
5. Geta aðgerðir samtaka fyrirtækja verið undanþegnar banni við ólögmætu samráði?
Ef aðgerðir eða háttsemi samtaka fyrirtækja uppfylla öll skilyrði 1. mgr. 15. gr. samkeppnislaga gildir bannákvæði 12. gr. laganna ekki. Samtök fyrirtækja bera sjálf ábyrgð á því að leggja mat á það hvort viðkomandi samstarf eða aðgerðir standist þau skilyrði og hvort starfsemi þeirra yfirhöfuð uppfylli kröfur samkeppnislaga. Samkeppniseftirlitið hefur gefið út sérstakar leiðbeiningar um undantekningar samkvæmt 15. gr. samkeppnislaga.
Ólíklegt verður að teljast að minniháttarregla samkeppnislaga geti átt við í tilviki samtaka fyrirtækja þar sem fjöldi fyrirtækja í sömu atvinnugrein eru yfirleitt aðilar að slíkum samtökum og hafa aðgerðir samtakanna því víðtæk áhrif. Minniháttarregla 13. gr. samkeppnislaga tekur til samstarfs þar sem sameiginleg markaðshlutdeild samstarfsfyrirtæja er undir 5-10%. Hið sama á við um beitingu hópundanþága en markaðshlutdeild samstarfsfyrirtækja þarf í slíkum tilvikum að vera undir 30%.
6. Fyrri ákvarðanir. Í hvaða tilvikum hafa samtök fyrirtækja farið gegn 12. gr. samkeppnislaga?
Fjallað hefur verið um beitingu þessa ákvæðis í ýmsum úrlausnum eftirlitsins. Þannig hafa samkeppnisyfirvöld hér á landi tekið ákvarðanir í á öðrum tug mála þar sem samtök fyrirtækja hafa verið talin ganga gegn 12. gr. samkeppnislaga með umfjöllun um verð eða öðrum samkeppnishindrunum.
Þessi mál veita mikilvæga leiðbeiningu um það hvernig hagsmunasamtök geta hagað starfsemi sinni, og hvernig ekki.
Í þessu skyni er rétt að nefna eftirtalin mál. Í gegnum meðfylgjandi slóð er að nálgast bæði ákvörðun og frétt um viðkomandi mál:
- Ákvörðun nr. 7/2022, Brot Samtaka fjármálafyrirtækja á 12. gr. samkeppnislaga og fyrirmælum ákvörðunar nr. 17/2004. Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) gerðu sátt við Samkeppniseftirlitið, þar sem samtökin viðurkenndu að hafa
brotið gegn 12. gr., sbr. 10. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 og gegn 4. gr. ákvörðunarorðs í ákvörðun nr.
17/2004, þar sem lagt er bann við því að samtökin fari með opinbert fyrirsvar varðandi verðlagningu og
þjónustu aðildarfélaga sinna.
Samandregið fólust brotin í því að SFF fóru með opinbert fyrirsvar varðandi verðlagningu og þjónustu aðildarfyrirtækja sem starfa á vátryggingamarkaði. Fólust í þessu samskipti á vettvangi SFF og greinaskrif samtakanna sem birtust opinberlega, dagana 25. maí 2021 og 8. september 2021. Skuldbundu SFF sig til að greiða stjórnvaldssekt vegna framangreindra brota að fjárhæð tuttugu milljónir króna.
Hér má nálgast frétt Samkeppniseftirlitsins um ákvörðunina frá 28. mars 2022. - Ákvörðun nr. 43/2017, Aðgerðir til þess að bæta samkeppni í fasteignasölu. Félag fasteignasala gerði sátt við eftirlitið og viðurkenndi að hafa staðið fyrir umræðu um söluþóknun og innheimtu umsýslugjalds meðal fasteignasala og hvatt til þess að aðildarfyrirtæki auglýstu fasteignir eingöngu á vef félagsins. Félagið skuldbatt sig til að gera breytingar á starfsemi sinni og innleiða m.a. samkeppnisréttaráætlun. Greiddi félagið sekt vegna málsins.
- Ákvörðun nr. 24/2015, Aðgerðir til að styrkja samkeppni í ferðaþjónustu. Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) gerðu sátt við eftirlitið og viðurkenndu að hafa m.a. safnað og miðlað verðupplýsingum, stuðlað að samræmdum skilmálum og gefið út leiðbeiningar um ýmis gjöld. Samtökin skuldbundu sig til að gera breytingar á starfsemi sinni, innleiða samkeppnisréttaráætlun og grípa til ítarlegra aðgerða sem lýst er í ákvörðunarorðum ákvörðunar. Taka skilyrði m.a. til opinbers fyrirsvars. Greiddi félagið sekt vegna málsins.
Samtökin falla undir Samtök atvinnulífsins. - Ákvörðun nr. 30/2012, Brot Jeppavina og aðildarfyrirtækja félagsins á 10. og 12. gr. samkeppnislaga. Um var að ræða hagsmunasamtök jeppaeigenda í atvinnurekstri. Samtökin gerðu sátt við eftirlitið og viðurkenndu að hafa brotið samkeppnislög með því að birta leiðbeinandi verðskrár, samræma viðskiptaskilmála og hafa með sér samskipti um verðlagningu. Skuldbatt félagið sig til að tryggja viðskiptalegt sjálfstæði félagsmanna, til áréttingar á gildandi lagafyrirmælum. Greiddi félagið sekt vegna málsins.
- Ákvörðun nr. 27/2010, Brot Samtaka atvinnurekenda í raf- og tölvuiðnaði á 12. gr., sbr. 10. gr. samkeppnislaga. Samtökin gerðu sátt við eftirlitið og viðurkenndu að hafa bannað aðildarfyrirtækjum að eiga viðskipti við tiltekin fyrirtæki og að sú sniðganga hafi byggst á samskiptareglum samtakanna. Viðurkenndu samtökin einnig að önnur ákvæði samskiptareglnanna um upplýsingamiðlun og samvinnu fælu í sér brot á samkeppnislögum. Skuldbundu samtökin sig til að fella út gildi tiltekin ákvæði samskiptareglnanna, afturkalla verkbönn og gera breytingar á starfsemi sinni til að tryggja að brot endurtækju sig ekki. Samtökin greiddu sekt vegna málsins.
Samtök atvinnurekenda í raf- og tölvuiðnaði gengu til liðs við Samtök iðnaðarins eftir að fyrrgreind ákvörðun var tekin en voru áður aðilar að Samtökum atvinnulífsins. Samtök iðnaðarins eru aðili að Samtökum atvinnulífsins.
- Ákvörðun nr. 9/2009, Brot Bændasamtaka Íslands á banni samkeppnislaga við verðsamráði. Komist var að þeirri niðurstöðu að samtökin hefðu brotið 12. gr., sbr. 10. gr. samkeppnislaga með því að beita sér fyrir verðhækkunum á búvöru. Fólst brotið m.a. í hvatningu formanns BÍ í fjölmiðlum og á búnaðarþingi. Laut brotið að vörum sem lutu frjálsri verðsamkeppni, einkum kjúklingakjöti, en ekki vörum þar sem hið opinbera kom að verðlagningu. Mælt var fyrir um breytingar á starfsemi BÍ til þess að koma í veg fyrir samskonar brot. Með úrskurði í máli nr. 7/2009 staðfesti áfrýjunarnefndin brot samtakanna, en lækkaði sektir.
- Ákvörðun nr. 5/2009, Brot félags íslenskra stórkaupmanna á 12., sbr. 10. gr. samkeppnislaga. Félagið gerði sátt við eftirlitið og viðurkenndi að hafa brotið samkeppnislög með umræðum á vettvangi félagsins um verðlagsmálefni aðildarfyrirtækja sem störfuðu á sviði matvöru. Að sama skapi viðurkenndi félagið að opinber ummæli fyrrverandi framkvæmdastjóra um hækkunarþörf hefðu falið í sér brot. Þá áttu sér stað samskipti við Samtök verslunar og þjónustu um að félögin myndu tala einni röddu um ástæður verðhækkana. Félagið skuldbatt sig til að hafa í gildi starfsreglur sem ætlað var að vinna gegn hættu á samskonar brotum. Félagið greiddi sekt vegna málsins.
Félag íslenskra stórkaupmanna heitir nú Félag atvinnurekenda. - Ákvörðun nr. 10/2008, Brot Samtaka iðnaðarins og Samtaka verslunar og þjónustu á samkeppnislögum í tengslum við lækkun á virðisaukaskatti á matvörum. Félögin gerðu sátt við eftirlitið og viðurkenndu brot á 12. gr., sbr. 10. gr. samkeppnislaga, sem fólst í samvinnu um hvernig fyrirtæki skyldu standa að verðbreytingum sem leiddu af lækkun opinberra gjalda. Jafnframt var ákveðið hvernig tekjutapi yrði skipt. Hinar ólögmætu aðgerðir fólust m.a. í opinberri kynningu á áformum. Félögin skuldbundu sig til að setja reglur sem tryggðu að starf á vettvangi samtakanna yrði ávallt í samræmi við samkeppnislög. Greiddu bæði félög stjórnvaldssekt.
Félögin eru bæði aðilar að Samtökum atvinnulífsins. - Ákvörðun nr. 4/2008, Brot Greiðslumiðlunar hf., Kreditkorts hf. og Fjölgreiðslumiðlunar hf. á bannákvæðum samkeppnislaga. Félögin gerðu sátt við eftirlitið og viðurkenndu umfangsmikil brot á banni við ólögmætu samráði, auk þess sem Greiðslumiðlun (nú Valitor) viðurkenndi brot á banni við misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Þá viðurkenndi Fjölgreiðslumiðlun brot á 12. gr., sbr. 10. gr. samkeppnislaga, en félagið var í sameiginlegri eigu banka og greiðslukortafyrirtækja og taldist samtök fyrirtækja í skilningi laga. Félögin greiddu öll stjórnvaldsektir vegna málsins og undirgengust ítarleg skilyrði sem fólu í sér breytingar á greiðslukortamarkaði.
- Ákvörðun nr. 17/2004, Rannsókn á samkeppnishindrandi samstarfi á íslenska vátryggingamarkaðnum. Samband íslenskra tryggingafélaga (SÍT) gerði sátt við samkeppnisyfirvöld, þar sem viðurkennt var að sambandið hefði brotið gegn 12. gr., sbr. 10. gr. samkeppnislaga með margvíslegum aðgerðum, þ.á m. opinberu fyrirsvari fyrir verðlagningu og þjónustu aðildarfélaga sinna. Skuldbatt sambandið sig til ýmissa aðgerða til að koma í veg fyrir samskonar brot. Þar á meðal skyldi sambandinu óheimilt að fara með opinbert fyrirsvar við verðlagningu og fleira, til áréttingar gildandi lagafyrirmælum.
SÍT rann síðar inn í Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) og er félagið aðili að Samtökum atvinnulífsins. - Ákvörðun nr. 5/2004, Ólögmætt samráð innan Lögmannafélags Íslands. Komist var að þeirri niðurstöðu að Lögmannafélagið hefði hvatt til hækkunar og samræmingar á gjaldskrá lögmanna með því að láta semja kostnaðargrunn og birta hann. Greiddi félagið stjórnvaldssekt vegna málsins.
Samkeppniseftirlitið hefur í fleiri tilvikum beitt 12. gr. samkeppnislaga, sbr. t.d. í ákvörðun nr. 8/2015, Breytingar á skipulagi og framkvæmd á greiðslukortamarkaði. Málið varðaði m.a. ákvörðun um sameiginlegt milligjald í kortaviðskiptum, sem ákveðið var á vettvangi Valitor og Borgunar, f.h. viðskiptabankanna. Kortafyrirtækin voru í sameiginlegri eigu bankanna og töldust samtök fyrirtækja í skilningi samkeppnislaga. Fyrirtækin gerðu öll sátt við eftirlitið, viðurkenndu brot, þ.á m. á 12. gr. samkeppnislaga, og greiddu sektir. Þá skuldbundu fyrirtækin sig til að ráðast í aðgerðir til að bæta samkeppnisaðstæður á greiðslukortamarkaði, m.a. með lækkun milligjalda.
7. Hvernig hefur Samkeppniseftirlitið eftirlit með því að ákvæðum samkeppnislaga og fyrri ákvörðunum sé fylgt?
Eftirlit með samtökum fyrirtækja beinist einkum að því hvort farið er að 12. gr., sbr. 10. gr. samkeppnislaga og því hvort samtökin fylgi þeim skilyrðum eða reglum sem þau hafa skuldbundið sig til að fylgja í einstökum tilvikum.
Á heimasíðu Samkeppniseftirlitsins eru birtar upplýsingar um alla íhlutun gagnvart samtökum fyrirtækja. Eins og rakið er í svari við spurningu 6 hafa samtök fyrirtækja í allmörgum tilvikum skuldbundið sig til að gera breytingar á starfsemi sinni, s.s. setja sér samkeppnisréttaráætlun eða verklagsreglur, til þess að tryggja eftirfylgni við lögin.
Eftirlit og eftirfylgni Samkeppniseftirlitsins fer einkum fram með eftirfarandi hætti:
- Samkeppniseftirlitið tekur við kvörtunum, erindum og ábendingum frá neytendum eða fyrirtækjum á markaði og tekur afstöðu til þess hvort tilefni sé til rannsókna á grundvelli þeirra.
- Eftirlitið fylgist með fjölmiðlaumfjöllun og öðrum upplýsingum sem geta gefið til kynna möguleg athugunarefni.
- Þegar ástæða er til gefur eftirlitið út tilkynningar þar sem e.a. eru sett fram tilmæli. Þannig gaf eftirlitið út tilkynningu föstudaginn 22. október 2021, þar sem vakin var athygli á gildandi reglum um starfsemi hagsmunasamtaka og umfjöllun þeirra um verðhækkanir. Sambærileg tilmæli voru sett fram í tilkynningu í lok mars 2008, þar sem skyldur fyrirtækja og samtaka þeirra voru áréttaðar.
- Þá sinnir Samkeppniseftirlitið leiðbeiningarhlutverki með upplýsingagjöf á heimasíðu sinni, í opinberri umræðu, sbr. t.d. pistil nr. 9/2021 og í formlegum og óformlegum samskiptum við hagsmunasamtök og aðildarfyrirtæki.
- Þegar nauðsyn ber til grípur Samkeppniseftirlitið til íhlutunar, sbr. t.d. þau mál sem rakin eru svari við spurningu 6. Til rannsóknar geta verið brot á 12. gr., sbr. 10. gr. samkeppnislaga eða brot á fyrri ákvörðunum eftirlitsins.
8. Af hverju eru þessar reglur um starfsemi hagsmunasamtaka sérstaklega mikilvægar á Íslandi?
Á Íslandi ríkir fákeppni á ýmsum mikilvægum mörkuðum. Í dómi Hæstaréttar frá 7. janúar 2021 í máli nr. 42/2019 var þetta tekið fram: „Fákeppnismarkaðir eru sérstaklega viðkvæmir fyrir hvers konar samstarfi keppinauta þar sem auðveldara er að viðhafa samráð eða samkeppnishamlandi samhæfingu við slíkar aðstæður og því enn ríkari ástæða til að standa vörð um sjálfstæða ákvarðanatöku keppinauta og þá samkeppni sem ríkt getur á markaðnum þrátt fyrir fákeppnina […].“ Í dómi Hæstaréttar Íslands frá 1. desember 2016 í máli nr. 360/2015 segir að mikilvægt sé á fákeppnismarkaði að fyrir hendi sé óvissa fyrirtækja „sem í hlut eiga, um hegðun keppinautanna“.
Það er því sérstaklega brýnt að íslensk hagsmunasamtök fyrirtækja þekki til hlítar þær skorður sem samkeppnislög setja starfsemi þeirra og tryggi með virkum hætti að starfsemi þeirra leiði ekki til samkeppnishindrana af neinu tagi. Um leið er mikilvægt að talsmenn samtaka fyrirtækja grípi ekki til neinna aðgerða sem með óeðlilegum hætti dragi úr æskilegri óvissu á markaði og sjálfstæðri ákvarðanatöku aðildarfyrirtækja sem keppa á markaði.
Gagnlegt er einnig að hafa í huga að viðurkennt er að virk samkeppni eykur velferð neytenda og stuðlar að hagkvæmni í atvinnulífinu. Lægra verð, aukin gæði, meiri skilvirkni, betri stjórnun, aukin nýsköpun, minni ójöfnuður, minna atvinnuleysi, hraðari endurreisn á krepputímum, þróttmeira efnahagslíf og aukin samkeppnihæfni eru allt fylgifiskar virkrar samkeppni.
Ábatinn af virkri samkeppni er því mikill. Í skýrslu Samkeppniseftirlitsins nr. 1/2021, Jákvæð áhrif samkeppni á lífskjör og hagsæld, eru teknar saman rannsóknir á áhrifum samkeppni á ýmsum sviðum.
9. Gilda sambærilegar reglur um hagsmunasamtök fyrirtækja í löndunum í kringum okkur?
Sambærilegar reglur gilda um hagsmunasamtök fyrirtækja á Evrópska efnahagssvæðinu og víðar. Í því felst bann við samkeppnihömlum og hvatningu til hindrana. Sömuleiðis er bannið við ólögmætu samráði sama efnis víðast hvar í heiminum.
Samkeppnisyfirvöld í nágrannalöndunum fylgja þessum reglum eftir, eins og Samkeppniseftirlitið gerir hér á landi. Nefna má til dæmis rannsókn írskra samkeppnisyfirvalda, sem beindist að vátryggingafélögum og samtökum þeirra, sem greint er frá á heimasíðu írska eftirlitsins þann 20. ágúst 2021. Í tilkynningu um málið segir m.a.:
„The CCPC opened this investigation on foot of public statements made by a number of parties in the sector which appeared to be forecasting with confidence that premiums would rise. At the time, consumers were reporting increases in their premiums and the CCPC was concerned that these statements could be considered price-signalling and, along with other communications about pricing, a breach of competition law.“
10. Þurfa aðrir aðilar en hagsmunasamtök fyrirtækja að gæta sín í umræðu um verðhækkanir, t.d. verkalýðssamtök eða Seðlabankinn?
Hvorki verkalýðssamtök, Seðlabankinn né greiningardeildir banka eru bundin af 12. gr. samkeppnislaga.
Hagsmunasamtök fyrirtækja skera sig úr þeim hópi sem hér er nefndur, því aðilar að samtökum fyrirtækja eru oft öll eða flest fyrirtæki í viðkomandi atvinnugrein, eða -greinum, og talsmenn slíkra samtaka tala þá í nafni greinarinnar allrar. Augljóst er að ummæli þeirra geta haft mikil áhrif á meðal fyrirtækja. Af þeim sökum hafa ákvæði 12. gr. samkeppnislaga mikla þýðingu.
11. Hvernig geta hagsmunasamtök best tryggt að þau gegni hlutverki sínu og fylgi um leið fyrirmælum samkeppnislaga?
Draga má saman nokkra vegvísa sem gagnlegt er að hafa hliðsjón af:
- Hagsmunasamtök ættu að setja sér samkeppnisréttaráætlun, sem birt er opinberlega., þar sem m.a. er fjallað um verklag í starfi þeirra sem vinnur gegn hættunni á samkeppnislagabrotum. Nokkur samtök hafa skuldbundið sig til að setja sér reglur af þessu tagi.
- Árétta þarf reglulega fyrir öllum sem taka þátt í starfi samtakanna að öll umræða um samkeppnislega viðkvæm málefni er bönnuð. Jafnframt er mikilvægt að aðildarfyrirtækjum sé gefið skýrt til kynna að samkeppnislagabrot eru ekki liðin á vettvangi samtakanna.
- Gagnlegt er að settar séu verklagsreglur fyrir aðildarfyrirtæki, þar á meðal um það hvernig stjórnendur og starfsmenn þeirra eiga að bregðast við ef samkeppnislega viðkvæm málefni eru rædd á meðal keppinauta. Þar ætti meginreglan að vera að yfirgefa fund/samtal, gera athugasemdir með sannlegum hætti og tilkynna um möguleg brot.
- Talsmönnum samtaka séu settar verklagsreglur um þátttöku í opinberri umræðu, sem auðvelda þeim að sinna lögmætri hagsmunagæslu og koma í veg fyrir slys.
12. Tilkynning á heimasíðu Samkeppniseftilitsins, dags. 20. október 2021
Hagmunasamtök mega ekki taka þátt í umfjöllun um verð | Fréttir | Samkeppniseftirlitið
13. Pistill frá 25. október 2021
14. Tilkynning á heimasíðu Samkeppniseftirlitsins, dags. 18. desember 2024