2.9.2024

Ábati vegna íhlutunar Samkeppniseftirlitsins um 17-29-föld fjárframlög til eftirlitsins árin 2014-2023

Samkeppniseftirlitið birtir uppfærða greiningu á reiknuðum ábata vegna íhlutunar eftirlitsins

  • Vestfirdir

Samkeppniseftirlitið birtir í dag mat á reiknuðum ábata vegna íhlutunar Samkeppniseftirlitsins árin 2014-2023 í riti nr. 4/2024Reiknaður ábati vegna íhlutunar Samkeppniseftirlitsins 2014-2023. Einnig birtir Samkeppniseftirlitið í dag rit nr. 3/2024Reiknaður ábati vegna íhlutunar Samkeppniseftirlitsins, lýsing á aðferðafræði og forsendum. Matið byggir á leiðbeiningum frá Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD) og hefur verið rýnt af óháðum sérfræðingi.

Reiknaður ábati vegna íhlutunar Samkeppniseftirlitsins vegna samráðs, misnotkunar á markaðsráðandi stöðu og samkeppnishamlandi samruna á tíu ára tímabilinu 2014-2023 nam 0,30-0,49% af vergri landsframleiðslu á sama tímabili, eða sem nemur 17-29-földum fjárframlögum til stofnunarinnar á tímabilinu. Reiknaður ábati var að meðaltali 10,7-17,7 ma.kr. á ári hverju á tímabilinu 2014-2023, á verðlagi ársins 2023.

Aðferðafræði, forsendur og útreikningar hafa verið rýnd af óháðum sérfræðingi, dr. Jóni Þór Sturlusyni, hagfræðingi. Hér má nálgast minnisblað hans vegna rýninnar.

Bakgrunnsupplýsingar

Samkeppniseftirlitið hefur áður birt niðurstöður greiningarinnar í riti nr. 4/2023, Reiknaður ábati vegna íhlutunar Samkeppniseftirlitsins 2013-2022, þar sem heildarniðurstöður greiningarinnar voru birtar til og með ársins 2022. Í kjölfar þeirrar útgáfu birti Samkeppniseftirlitið á vefsíðu sinni pistil nr. 2/2024, Um reiknaðan ábata af íhlutunum Samkeppniseftirlitsins. Á undirbúningsstigi greiningarinnar birti Samkeppniseftirlitið umræðuskjal nr. 1/2023 þar sem áhugasömum var gefið tækifæri til að setja fram sjónarmið.

Greiningin styðst við leiðbeiningar OECD, Guide for helping competition authorities assess the expected impact of their activities. Byggja leiðbeiningarnar á vinnu OECD, fræðimanna, samkeppnisyfirvalda í ýmsum aðildarlanda OECD og fyrri rannsóknum á efnahagslegum áhrifum samkeppniseftirlits. Einnig er byggt á þeirri aðferðafræði sem samkeppnisdeild framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins notast við í sambærilegri greiningu, en þar eru leiðbeiningar OECD einnig lagðar til grundvallar.

Grunnforsenda leiðbeininga OECD er sú að brot fyrirtækja á samkeppnislögum eða samrunar sem raska samkeppni leiði að jafnaði til hærra verðs og lakari gæða á viðkomandi markaði, heldur en á markaði þar sem samkeppni nýtur við. Með íhlutun sinni koma samkeppnisyfirvöld í veg fyrir að hærra verð og lakari gæði til viðskiptavina á viðkomandi markaði sé viðvarandi. Reiknaður ábati er því mat á þeim skaða sem viðskiptavinir hefðu orðið fyrir ef ekki hefði komið til íhlutunar samkeppnisyfirvalda. Viðskiptavinir geta hvort sem er verið neytendur eða önnur fyrirtæki. Greiningin miðar þó ekki að því að leggja heildarmat á þjóðhagslegan ávinning af samkeppniseftirliti. Ekki er tekið tillit til margvíslegra jákvæðra áhrifa sem virk samkeppni getur haft, t.a.m. aukinnar nýsköpunar og aukinnar þjóðhagslegrar hagkvæmni efnahagslífs. Þá er ekki horft til taps fyrirtækja sem verða af viðbótartekjum vegna þess að háttsemi sem fer gegn samkeppnislögum er stöðvuð. Benda rannsóknir á áhrifum samkeppnislagabrota til þess að þær forsendur sem stuðst er við séu varfærnar, sbr. skýrslu nr. 3/2024.

Í fjármálaáætlun síðustu ára er gerð grein fyrir mælikvörðum og markmiðum um ávinning virkrar samkeppni. Allt frá árinu 2018 hefur einn af mælikvörðunum á því málefnasviði sem Samkeppniseftirlitið heyrir undir, Markaðseftirlit og neytendamál, stuðst við aðferðafræði af þessu tagi. Þannig hefur verið stefnt af því að reiknaður árlegur ábati af ákvörðunum Samkeppniseftirlitsins á undanliðnum 10 árum, sem hlutfall af vergri landsframleiðslu, nemi að meðaltali 0,5%.

Í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar frá júlí 2022 á störfum Samkeppniseftirlitsins var m.a. lögð áhersla á ábatamat af þessu tagi og þeim tilmælum beint til eftirlitsins að nýta reglubundið mat á ábata af starfsemi sinni við skilgreiningu áherslna, markmiða og árangursmælikvarða til framtíðar.


Fylgigögn:
Rit nr. 3/2024, Reiknaður ábati vegna íhlutunar Samkeppniseftirlitsins, lýsing á aðferðafræði og forsendum.
Rit nr. 4/2024, Reiknaður ábati vegna íhlutunar Samkeppniseftirlitsins 2014-2023.
Minnisblað Jóns Þórs Sturlusonar um ábatamat Samkeppniseftirlitsins 2023, dags. 27. maí 2024.