19.3.2025

ÁFRÝJUNARNEFND SAMKEPPNISMÁLA STAÐFESTIR UMFANGSMIKIL OG ALVARLEG SAMRÁÐSBROT SAMSKIPA

  • Gamaflutningar

Samskip skutu ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 33/2023 frá 31. ágúst 2023 til áfrýjunarnefndar samkeppnismála og kröfðust m.a. ógildingar hennar.

Í úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála , sem var kveðinn upp í dag, er staðfest að Samskip hafi haft ólögmætt samráð við Eimskip á árunum 2008 til 2013. Með úrskurðinum er Samskipum gert að greiða 2,3 milljarða króna sekt í ríkissjóð fyrir alvarleg og umfangsmikil brot gegn 10. gr. samkeppnislaga og 1. mgr. 53. gr. EES-samningsins. Jafnframt er Samskipum gert að greiða 100 milljón króna sekt fyrir að hafa brotið gegn upplýsingaskyldu fyrirtækisins samkvæmt 19. gr. laganna.

Rannsókn á samráði Samskipa og Eimskips hófst í kjölfar húsleitar Samkeppniseftirlitsins hjá fyrirtækjunum haustið 2013 og var önnur húsleit framkvæmd á árinu 2014. Leiddi rannsóknin í ljós að fyrirtækin höfðu haft með sér ólögmætt samráð sem þau ákváðu að auka verulega á árinu 2008. Með það fyrir augum funduðu æðstu stjórnendur fyrirtækjanna í húsakynnum fjárfestingarfélags aðaleiganda Samskipa 6. júní 2008 þar sem þeir ákváðu að hefja umfangsmikið samráðsverkefni sem var nefnt „Nýtt upphaf“ eða „New beginning“.

Í úrskurði áfrýjunarnefndar er því slegið föstu að „áfrýjendur (Samskip) hafi brotið gegn 10. gr. samkeppnislaga og 1. mgr. 53. gr. EES-samningsins með margþættu og langvarandi ólögmætu samráði við Eimskip á rannsóknartímabilinu. Þar á meðal var um að ræða samráð fyrirtækjanna á árinu 2008 með verkefninu „Nýtt upphaf“ sem hófst í júní 2008 og hafði það að markmiði að raska samkeppni, auk samráðs sem laut að breytingum á siglingakerfi Eimskips sem komu til framkvæmda í lok júlí sama ár [...] . Þá er sannað að fyrirtækin hafi viðhaft markaðsskiptingu („frið“) sem fól í sér að þau forðuðust að keppa um mikilvæga viðskiptavini hvors annars, en sú háttsemi stóð yfir á árunum 2009–2012 [...] Þá höfðu fyrirtækin með sér samráð um nánar tilgreind verðlagsmálefni og önnur viðkvæm samkeppnismálefni.“

Í úrskurði áfrýjunarnefndar kemur fram að nánar tiltekið samstarf Samskipa og Eimskips hafi ekki falið í sér brot en „[a]llt að einu er það niðurstaða málsins að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun um veigamestu þætti hennar sem áður hefur verið gerð grein fyrir.“

Við mat á sektum Samskipa segir áfrýjunarnefnd að horfa verði til þess að brot Samskipa „voru umfangsmikil og áttu sér stað á fjögurra og hálfs árs tímabili, sem nær frá júní 2008 til loka árs 2012 svo sem áður greinir. Brotin áttu sér stað á þjóðhagslega mikilvægum mörkuðum þar sem áfrýjendur og Eimskip voru í yfirburðastöðu og fákeppni ríkti. Á rannsóknartímabili málsins nam virði vöruútflutnings 29–35% af vergri landsframleiðslu og virði vöruinnflutnings 26–30%, en meginþorri flutninga til og frá landinu er með skipum. Þar undir fellur meðal annars verulegur hluti neysluvara sem fluttur er til landsins og aðföng og rekstrarvörur fyrir framleiðslufyrirtæki (sjá m.a. kafla 35.2.5 í hinni kærðu ákvörðun). Því liggur fyrir að samráð flutningafyrirtækja getur stuðlað að hækkun á flutnings-kostnaði og þannig valdið neytendum og fyrirtækjum umtalsverðu tjóni og skert samkeppnishæfni. Jafnframt er þess að geta að samráðsbrotin áttu sér þegar íslenskt samfélag glímdi við afleiðingar efnhagshrunsins sem varð á árinu 2008 og brýnt var að virk samkeppni ríkti á flutningamörkuðum.“

Þá telur áfrýjunarnefndin að brot Samskipa „gegn upplýsingaskyldu samkvæmt 19. gr. samkeppnislaga voru einnig alvarleg enda voru þau til þess fallin að hindra rannsókn málsins. Þar sem upplýsingaskylda fyrirtækja er mikilvæg forsenda skilvirkra rannsókna samkeppnisyfirvalda er brýnt að viðurlög fyrir brot gegn þeirri skyldu hafi varnaðaráhrif.“

Þætti Eimskips í brotunum lauk með sátt sem fyrirtækið gerði við Samkeppniseftirlitið á árinu 2021. Með sáttinni viðurkenndi fyrirtækið brot, greiddi stjórnvaldssekt að fjárhæð 1,5 milljarða króna og skuldbatt sig til að grípa til nánar tiltekinna aðgerða í því skyni að koma í veg fyrir frekari brot og stuðla að aukinni samkeppni.

Áður hafði hollenska samkeppniseftirlitið lagt sektir á fyrirtækin vegna alvarlegs ólögmæts samráðs þeirra á frystigeymslumarkaði í Hollandi á árunum 2006-2009 en þessar geymslur voru m.a. notaðar við útflutning á íslenskum sjávarafurðum. Eimskip undi niðurstöðu hollenska eftirlitsins en Samskip skaut málinu til þarlendra dómstóla sem staðfestu brot Samskipa. Lauk því máli endanlega með dómi áfrýjunardómstóls í nóvember 2024. 

Úrskurð áfrýjunarnefndar má finna hér .