25.5.2016

Eignarhald á atvinnufyrirtækjum, hlutverk lífeyrissjóða og áhrif á samkeppni

Samkeppniseftirlitið stóð þann 25. maí fyrir umræðufundi um eignarhald á atvinnufyrirtækjum, hlutverk lífeyrissjóða og áhrif á samkeppni. Fundurinn var sá fjórði í fundaröð sem eftirlitið rekur undir yfirskriftinni „Samtal um samkeppni“. Tæplega 80 manns sóttu fundinn og spunnust gagnlegar umræður um málefnið.

Til undirbúnings umræðunum setti Samkeppniseftirlitið saman stutt minnisblað, sem nálgast má hér. Í minnisblaðinu er fjallað um þau álitaefni sem snerta áhrif eignarhalds á samkeppni. Meðal annars er sjónum beint að því að fjárfestar, einkum lífeyrissjóðir, eiga í vaxandi mæli eignarhluti í fleiri en einu fyrirtæki á sama markaði.

Á fundinum var einnig spiluð upptaka af viðtali við Martin C. Schmalz, dósent við University of Michican, en hann ásamt fleirum hefur rannsakað áhrif eignatengsla milli keppinauta á verð til viðskiptavina. Þær rannsóknir benda til þess að aukin eignatengsl í Bandaríkjunum á milli keppinauta á flugmarkaði annars vegar og bankamarkaði hins vegar hafi leitt til hærra verðs til viðskiptavina. Viðtalið má nálgast hér.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra sat í pallborði ásamt Gylfa Magnússyni, dósent við Háskóla Íslands, Almari Guðmundssyni, framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins, Sigrúnu Rögnu Ólafsdóttur, forstjóra Vátryggingafélags Íslands, Guðmundi Þ. Þórhallssyni, framkvæmdastjóra Lífeyrissjóðs verslunarmanna, Gylfa Arnbjörnssyni, forseta ASÍ og Flóka Halldórssyni, framkvæmdastjóra Stefnis. Páll Harðarson, forstjóri Nasdaq OMX Iceland, stjórnaði umræðunum.

Samkeppniseftirlitið þakkar fundarmönnum þátttökuna.

 

Um fundaröð Samkeppniseftirlitsins:

Fundurinn er liður í fundaröð Samkeppniseftirlitsins með atvinnulífi, stjórnvöldum og öðrum hagsmunaaðilum, undir samheitinu „Samtal um samkeppni“. Fundunum er ætlað að vera umræðuvettvangur um samkeppnismál, þar sem tækifæri gefst til þess að ræða hverju hafi verið áorkað og hver séu brýnustu viðfangsefnin framundan. Með þessu er Samkeppniseftirlitið að leggja við hlustir, koma á framfæri leiðbeiningum og taka við sjónarmiðum frá atvinnulífi, stjórnvöldum og neytendum.


Samtal um samkeppni - Eignarhald á atvinnufyrirtækjum

Tilefni fundarins:

Nú þegar nokkuð er liðið frá hruni er tilefni til þess að staldra við og huga að stöðu samkeppninnar með tilliti til eignarhalds á atvinnufyrirtækjum. Talsverðar breytingar hafa orðið á eignarhaldi á fyrirtækjum frá hruni og ástæða er til að ræða hvað framtíðin kunni að bera í skauti sér, s.s. varðandi afnám gjaldeyrishafta og eignarhald á viðskiptabönkunum.

Þótt talsverð umræða hafi átt sér stað í samfélaginu um framangreint, þ. á m. um þátttöku lífeyrissjóða, stjórnarhætti fyrirtækja og eigendastefnu stærri hluthafa, hefur minna verið rætt um áhrif þessara þátta á samkeppni.

Í framsöguræðu fjármálaráðherra vegna frumvarps til laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða er vikið að því að taka þurfi til skoðunar aukin umsvif lífeyrissjóðanna í eignarhaldi á atvinnufyrirtækjum.
Sjá: http://www.althingi.is/altext/raeda/145/rad20160428T124214.html

Hlutverk Samkeppniseftirlitsins

Það er hlutverk Samkeppniseftirlitsins að fylgjast með þróun á samkeppnisháttum í íslensku viðskiptalífi og kanna stjórnunar- og eignatengsl milli fyrirtækja. Þessi viðfangsefni eru hluti af ýmsum úrlausnum eftirlitsins, hvort sem um er að ræða skýrslur, úrlausnir í samrunamálum, markaðsrannsóknir eða rannsóknir á hugsanlegum brotum.

Breytingar á eignarhaldi við hrunið

Róttækar breytingar urðu við hrun þegar erfið fjárhagsstaða fyrirtækja leiddi til þess að mörg fyrirtæki komust beint og óbeint undir yfirráð hinna endurreistu viðskiptabanka. Samkeppniseftirlitið benti á ýmis samkeppnisleg vandamál sem leitt gætu af eignarhaldi bankanna á fyrirtækjum og setti þeim skilyrði sem miðuðu að því að hraða endurskipulagningu fyrirtækja og koma í veg fyrir að eignarhald bankanna skaðaði samkeppni á viðkomandi mörkuðum. Stefnumörkun eftirlitsins kemur m.a. fram í eftirfarandi úrlausnum:

Til viðbótar við skilyrði gagnvart bönkum hefur íhlutun eftirlitsins beinst að sjóðastýringarfyrirtækjum bankanna með það fyrir augum að tryggja að aðkoma þeirra að eignarhaldi á atvinnufyrirtækjum sé óháð viðkomandi banka sbr. t.d. ákvörðun nr. 7/2014, Kaup Bekei hf. á [...] Kaupási [o.fl]. Sjá http://www.samkeppni.is/utgafa/frettir/nr/2333

Sömuleiðis hefur íhlutun beinst að lífeyrissjóðum, sbr. ákvörðun nr. 1/2011, Kaup Framtakssjóðs Íslands hf. á Eignarhaldsfélagi Vestia ehf., en skilyrðin miðuðu m.a. að því að tryggja að eignarhald lífeyrissjóðanna á FSÍ hefði ekki áhrif á fjárfestingar einstakra lífeyrissjóða. Sjá http://www.samkeppni.is/utgafa/frettir/nr/1612


Sama eignarhald á keppinautum:

Eftir hrun hafa stofnanafjárfestar orðið mjög áberandi á meðal stærri eigenda atvinnufyrirtækja, einkum lífeyrissjóðir. Jafnframt eiga stofnanafjárfestar í vaxandi mæli eignarhluti í fleiri en einu fyrirtæki á sama markaði.

Dæmi um þetta er eignarhald á vátryggingafélögunum þremur sem skráð eru í kauphöllinni. Af 15 stærstu hluthöfum félaganna þriggja eru 6 fjárfestar þar á meðal sem eiga hlut í öllum félögunum og 3 fjárfestar til viðbótar eiga í tveimur félögum. Fjórir stærstu stofnanafjárfestarnir sem eiga hlut í öllum félögunum eiga samtals 26% í Sjóvá, 25% í VÍS og 31% í TM. Annað dæmi eru fasteignafélögin. Af 15 stærstu hluthöfum skráðu fasteignafélaganna eru 5 stofnanafjárfestar eigendur hluta í öllum félögunum. Samanlagður eignarhlutur þeirra nemur 35 – 44% í hverju félagi.

Eignarhald stofnanafjárfesta í fyrirtækjum er algengt á öðrum samkeppnimörkuðum. Eignarhald sama fjárfestis á eignarhlut í fleiri en einu fyrirtæki á sama samkeppnismarkaði er heldur ekki óþekkt annars staðar.

Áhrif eignarhalds fjárfesta í fleiri en einu fyrirtæki á sama markaði hefur verið rannsakað talsvert erlendis. Niðurstöður nýlegra rannsókna fræðimanna í Bandaríkjunum á slíkum eignatengslum benda til þess að aukin eignatengsl á milli keppinauta á flugmarkaði annars vegar og bankamarkaði hins vegar hafi leitt til hærra verðs til viðskiptavina. Þarlend samkeppnisyfirvöld hafa tekið til skoðunar tiltekna markaði á grundvelli framangreindra rannsókna. Nefna má eftirfarandi umfjöllun: 

Ekkert bendir til annars en að þessar rannsóknir hafi þýðingu hér á landi. Líklegt er að skaðleg áhrif eignarhalds af þessum toga geti verið enn meiri á mörkuðum þar sem mikil samþjöppun og fákeppni ríkir.

Samkeppniseftirlitið hefur fjallað talsvert um minnihlutaeignarhald fjárfesta í fleiri en einu fyrirtæki. Hefur eftirlitið bent á að minnihlutaeign í fleiri keppinautum geti leitt einhliða til minni hvata fyrir fyrirtækin til að keppa sín á milli. Í henni geti einnig falist aukin hætta á samráði eða þegjandi samhæfingu á milli keppinauta (e. horizontal coordinated effects). Þá geti orðið lóðrétt áhrif sem leiða til útilokunar (e. vertical effects). Að síðustu kunni þessi staða að leiða til aðgangshindrana fyrir nýja keppinauta við vissar aðstæður. Eftirlitið hefur m.a. fjallað um þetta í eftirfarandi úrlausnum:

Mikil þátttaka lífeyrissjóða í eignarhaldi

Umfangsmikið eignarhald lífeyrissjóða á atvinnufyrirtækjum á sér augljósar skýringar. Fjárfestingar lífeyrissjóða í hlutabréfum eru eðlilegur liður í eignastýringu þeirra og fjárfestingargeta þeirra er mikil. Þannig hafa þrír stærstu lífeyrissjóðirnir yfir að ráða meira fjármagni en sem nemur markaðsvirði allra skráðra fyrirtækja á hlutabréfamarkaði. Þá er fjárfesting erlendra fagfjárfesta á Íslandi lítil og gjaldeyrishöft takmarka erlendar fjárfestingar íslenskra lífeyrissjóða.

Sú staðreynd að hver lífeyrissjóður má að hámarki eiga 15% í hverju fyrirtæki hefur mikil áhrif á dreifingu fjárfestinganna. Afleiðingin er sú að lífeyrissjóðirnir fjárfesta gjarnan í fleiri en einum keppinauti á sama markaði, sbr. umfjöllun hér að framan. Að mati Samkeppniseftirlitsins er ástæða til að skoða áhrif þessarar takmörkunar á samkeppni.

Samkeppniseftirlitið fjallaði sérstaklega um starfsemi lífeyrissjóða og þróun fjárfestingarmarkaðarins í ákvörðun nr. 7/2014, kafla 3.9, bls. 15.  Sjá: http://www.samkeppni.is/urlausnir/akvardanir/nr/2331

Eiga lífeyrissjóðir að vera virkir eða óvirkir?

Stóraukinn hlutur lífeyrissjóða í eignarhaldi á atvinnufyrirtækjum hefur leitt til þess að sjóðirnir hafa þurft að gera upp við sig hvort og þá hvernig þeir eigi að beita sér sem hluthafar. Það að lífeyrissjóðir séu óvirkir eigendur í núverandi umhverfi getur leitt til þess að smærri hluthafar öðlist áhrifavald í fyrirtækjum langt umfram eiginlega eignarhluti. Um leið verða sjóðirnir af tækifæri til að styðja við langtímahagsmuni af rekstri fyrirtækis, sem oft fer saman við hagsmuni almennings.

Á hinn bóginn getur það verið erfiðleikum bundið fyrir lífeyrissjóði að vera virkir eigendur, ekki síst ef þeir eiga eignarhluti í fleiri einu einu fyrirtæki á sama samkeppnismarkaði. Lífeyrissjóðir eru einnig útsettir fyrir gagnrýni almennings, vegna eðlis þeirra starfa sem þeir inna af hendi.

Ýmsir lífeyrissjóðir hafa sett sér hluthafastefnu þar sem lagðar eru línur um aðkomu þeirra að fyrirtækjum sem þeir fjárfesta í. Til glöggvunar eru hér vísað í hluthafastefnur þriggja stærstu sjóðanna:


Hluthafastefna af þessu tagi er til þess fallin að auka gagnsæi og stuðla að trúverðugri aðkomu lífeyrissjóða að viðkomandi fyrirtækjum. Hún leysir hins vegar ekki hugsanleg samkeppnisleg vandamál þegar sami lífeyrissjóður er hluthafi í fleiri en einum keppinauti á sama markaði.

Leiðbeining Samkeppniseftirlitsins

Samkeppniseftirlitið hefur á liðnum misserum beint því til lífeyrissjóða að huga að samkeppnissjónarmiðum í starfsemi sinni. Í því sambandi hefur Samkeppniseftirlitið tiltekið nokkur atriði sem flest hver geta einnig átt við um aðra stofnanafjárfesta. Þau eru einkum þessi:

  1. Lífeyrissjóðir eiga að keppa sín á milli um ávöxtunartækifæri og þeir mega ekki hafa samkeppnishamlandi samstarf um fjárfestingar. Takmarkað val sjóðsfélaga og skyldutrygging lífeyrisréttinda er nátengd starfskjörum launþega, sem ekki falla undir samkeppnislög. Það breytir ekki því að lögmál samkeppninnar eiga fyllilega við í ávöxtun iðgjalda. 
  2. Lífeyrissjóður ætti að forðast að eiga samkeppnislega mikilvægan eignarhlut í fleiri en einum keppinauti á sama markaði. Sjá kafla 4 hér að framan. 
  3. Lífeyrissjóðum ber að vinna gegn hvers konar blokkamyndun sem stafað getur af myndun fyrirtækjahópa undir sameiginlegu eignarhaldi þeirra. 
  4. Lífeyrissjóðum ber að skapa aga gagnvart bönkum og sporna þannig gegn mögulegum skaðlegum afleiðingum hagsmunatengsla innan þeirra. Hér er vísað til þess að bankar hafa ýmissa hagsmuna að gæta, eru oft í senn kröfuhafar, hluthafar, mögulegir fjárfestar og ráðgjafar við sölu. Fjallað er um þetta í skýrslu nr. 1/2013, Fjármálaþjónusta á krossgötum, kafla 14.d).  Sjá:http://www.samkeppni.is/media/skyrslur-23013/skyrsla_01_2013_Fjarmalathjonusta_a_krossgotum.pdf
  5. Lífeyrissjóðum ber að móta sér sjálfstæða stjórnarhætti og um leið eigendastefnu sem styður við samkeppni og framþróun atvinnulífs.

Nánar var fjallað um þetta á morgunverðarfundi um lífeyrissjóði og íslenskt atvinnulíf þann 15. nóvember 2013.
Sjá: http://www.samkeppni.is/media/raedur-2013/Raeda_03_2013_PGP_Samkeppnin_og_hlutverk_lifeyrissjoda.pdf

 

Til umræðu

  1. Hefur eignarhald á atvinnufyrirtækjum þróast til hins betra eða verra eftir hrun?
  2.  Hvaða áhrif mun afnám gjaldeyrishafta hafa á þróun eignarhalds á atvinnufyrirtækjum?
  3.  Ber að sporna við eignarhaldi sama fjárfestis í fleiri en einum keppinauti á sama markaði og þá hvernig? Kemur til álita að;
    1. rýmka hámarksfjárfestingu lífeyrissjóða í hverju fyrirtæki (15% reglan)? 
    2. leyfa fjárfestingar í fleiri en einum keppinauti á sama markaði ef hluturinn er minni en 15%  og viðkomandi fjárfestir hefur enga aðkomu að fyrirtækinu, s.s. með því að beita sér ekki á hluthafafundum (sambærilega reglu má finna í bandarískri löggjöf)? 
    3. kveða á um að meta skuli áhrif slíks eignarhalds í hverju tilviki?  
  4. Eiga lífeyrissjóðir að vera virkir eða óvirkir eigendur? 
  5. Á leiðbeining Samkeppniseftirlitsins í kafla 7 hér að framan rétt á sér? Eiga einhver atriðanna síður við? 
  6. Hvernig er hægt að tryggja fjölbreytt eignarhald á bönkunum og hver verður aðkoma lífeyrissjóðanna að því? Fer það vel saman að vera, allt í senn, viðskiptavinur, samstarfsaðili, keppinautur um húsnæðislán og eigandi? 
  7. Á Samkeppniseftirlitið að beita sér vegna eignarhalds á atvinnufyrirtækjum? Hver eru brýnustu verkefnin?