Leiðréttingar við umfjöllun um rannsóknir samruna
Í viðskiptablaði Morgunblaðsins þann 18. október sl. er haft eftir Margréti Guðmundsdóttur, stjórnarformanni sameinaðs félags N1 og Festi að samrunaferli félaganna hefði getað tekið mun skemmri tíma og að heppilegra hefði verið ef Samkeppniseftirlitið hefði gefið út frá upphafi hvaða markmiðum það vildi ná.
Í Viðskiptablaðinu þann 20. október sl., gagnrýnir Andrés Magnússon Samkeppniseftirlitið fyrir seinagang við afgreiðslu samruna N1 og Festis og Haga og Olís.
Vegna þessara ummæla og í þágu upplýstrar umræðu er rétt að koma eftirfarandi leiðréttingum á framfæri:
1. Samkeppniseftirlitið leiðbeindi N1
Af ummælum stjórnarformanns N1 verður ráðið að hún telji að rannsókn samrunans hafi tafist vegna skorts á tímanlegum leiðbeiningum frá Samkeppniseftirlitinu.
Vegna þessa er rétt að benda á að í nóvember 2017 gerði Samkeppniseftirlitið grein fyrir því að hverju athugun eftirlitsins á samrunanum beindist. Birti eftirlitið sérstaka frétt um þetta á heimasíðu sinni, dags. 23. nóvember 2017, þar sem kallað var jafnframt eftir sjónarmiðum allra sem teldu sig málið varða.
Þetta var gert örfáum vikum eftir að fullbúin tilkynning vegna samruna N1 og Festi barst, þann 31. október 2017, en áður hafði málið tafist af hálfu samrunaaðila þar sem upplýsingagjöf N1 til eftirlitsins var ekki í samræmi við leiðbeiningar og reglur sem eftirlitið hefur gefið út.
Í kjölfar ítrarlegrar rannsóknar, eða þann 24. febrúar sl., birti Samkeppniseftirlitið N1 ítarlegt frummat á samrunanum. Var í því rökstutt að samruninn raskaði samkeppni og við því yrði að bregðast með setningu skilyrða eða ógildingu samruna. Var N1 boðið að setja fram sjónarmið og athugasemdir við frummatið. Jafnframt var fyrirtækinu boðið að setja fram hugmyndir að skilyrðum. N1 lýsti sig hins vegar alfarið ósammála frummati eftirlitsins og nýtti sér ekki það tækifæri að setja fram innan tilskilins frests tillögur að skilyrðum sem gátu eytt þeim samkeppnishömlum sem stöfuðu af samrunanum.
Þannig var N1 gefinn kostur á að bregðast við og e.a. koma fram með tillögur að skilyrðum sem ryðja myndu úr vegi samkeppnishindrunum sem af samrunanum hlytust. Bæði hér á landi og í samkeppnismálum erlendis þurfa slíkar tillögur að koma frá samrunaaðilum sjálfum, enda hafa þeir besta þekkingu á rekstri viðkomandi fyrirtækja. Engu að síður gaf Samkeppniseftirlitið N1 ýmsar leiðbeiningar um hvaða aðgerðir gætu komið til greina. Er því ljóst að a.m.k. eftir 24. febrúar 2018 var N1 í lófa lagið að setja fram heildstæðar tillögur til að eyða þeim samkeppnishömlum sem leiddu af samrunanum. Slíkar tillögur komu hins vegar ekki frá N1 fyrr en í júlí 2018.
Af framansögðu leiðir að gagnrýni stjórnarformanns N1 er ekki í samræmi við staðreyndir málsins.
2. Samrunar N1/Festi og Haga/Olís voru rannsakaðir eins hratt og mögulegt var
Rétt er að halda því til haga að upphaflegri rannsókn á samruna Haga og Olís lauk þann 8. mars 2018 og rannsókn á samruna N1 og Festis lauk þann 17. apríl sl. Þessa daga var Samkeppniseftirlitið í þann mund að taka ákvarðanir, í hvoru máli fyrir sig, þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að óhjákvæmilegt væri að ógilda umrædda samruna. Í báðum tilvikum höfðu samrunaaðilar sett fram tillögur að skilyrðum, en Samkeppniseftirlitið metið þær ófullnægjandi eða í sumum tilvikum svo seint fram komnar að ekki væri unnt að leggja mat á þær.
Skömmu áður en framangreindar ákvarðanir voru teknar, kusu samrunaaðilar, í hvoru máli fyrir sig, að draga samrunatilkynningu sína til baka. Voru þetta einhliða ákvarðanir þessara fyrirtækja. Með þeim bundu þau enda á viðkomandi mál en samrunarnir sem þau tóku til gátu þá ekki komið til framkvæmda. Hinn valkosturinn fyrir samrunaaðila var að una ákvörðun Samkeppniseftirlitsins um ógildingu eða láta á hana reyna fyrir áfrýjunarnefnd samkeppnismála og eftir atvikum dómstólum.
Tilgangurinn hjá fyrirtækjunum með því að draga samrunatilkynningarnar til baka var að komast hjá því að ákvörðun um ógildingu yrði tekin, en hefja síðan nýtt mál með það fyrir augum að leggja fram betri skilyrði sem ryðja myndu samkeppnishindrunum úr vegi og freista þess að fá samrunana samþykkta á þeim grundvelli.
Bæði Hagar og N1 ákváðu að tilkynna á ný um samrunana nokkrum vikum eftir að eldri málunum lauk. Í þeim málum voru settar fram tillögur að nýjum og endurbættum skilyrðum. Í kjölfar rannsóknar á þeim og eftir ítarlegar viðræður lauk báðum málum með sátt þar sem viðkomandi samruni var heimilaður en skilyrði sett til að afstýra alvarlegum samkeppnishömlum sem ella hefðu leitt af honum.
Af framangreindu er ljóst að fullyrðingar framkvæmdastjóra SVÞ um að Samkeppniseftirlitið beri ábyrgð á „seinagangi“ við meðferð málanna eiga ekki við rök að styðjast. Þvert á móti var það ákvörðun fyrirtækjanna sjálfra að framlengja rannsóknirnar. Af hálfu Samkeppniseftirlitsins voru málin rannsökuð innan þeirra lögbundu tímafresta sem þessum málum eru gefnir samkvæmt lögum.
Nánari upplýsingar um meðferð framangreindra samrunamála má nálgast hér:
3. Mikilvægi samrunaeftirlits – nánar um samrunareglur
Um leið og skynsamlegir vel útfærðir samrunar geta leitt til ábata fyrir samfélagið, geta samkeppnishamlandi samrunar haft alvarlegar og óafturkræfar afleiðingar. Birtast þær t.d. í minni nýsköpun, minna vöruúrvali eða hærra verði, sem bitnar á neytendum og samkeppnishæfni viðkomandi fyrirtækja.
Reglum samkeppnislaga um samruna er ætlað að koma í veg fyrir að samkeppnislegri gerð markaða sé breytt, með samruna fyrirtækja, á þann hátt að samkeppni hverfi eða skerðist. Samkeppnisyfirvöldum gefst aðeins eitt tækifæri samkvæmt samrunareglum samkeppnislaga til að grípa til íhlutunar vegna samkeppnishamlna sem leiða af samruna.
Samrunamál hefjast þegar viðkomandi fyrirtæki hafa ákveðið að renna saman. Ber aðilum samrunans þá að senda Samkeppniseftirlitinu tilkynningu um samrunann og í henni skal veita upplýsingar um mikilvæg atriði sem skipta máli varðandi mat á áhrifum samrunans. Eftir að fullnægjandi tilkynning hefur borist hefur Samkeppniseftirlitið lögbundinn áfangaskiptann frest til að rannsaka málið og komast að niðurstöðu. Eftir að sá lögmælti frestur er liðinn brestur Samkeppniseftirlitinu heimild til íhlutunar vegna samruna.
Framangreindir frestir eru settir til hagsbóta fyrir viðskiptalífið. Rannsóknir samrunamála hefjast að frumkvæði fyrirtækja og lýkur flestum án íhlutunar Samkeppniseftirlitsins. Í þeim tilvikum þar sem samrunar raska samkeppni hvílir sú skylda á Samkeppniseftirliitinu að ógilda þá, setji samrunaaðilar ekki fram skilyrði sem eyða viðkomandi samkeppnishömlum. Sé það ekki tryggt er hætt á að þeir leiði til óafturkræfs skaða fyrir almenning og atvinnulíf.
Um samrunamál almennt má vísa til pistils nr. 2/2018, frá 7. september sl., en þar er gerð nánari grein fyrir meðferð samrunamála og tilgangi samrunaeftirlits.
4. Samkeppniseftirlitið metur regluverk og verklag með hliðsjón af reynslu
Til viðbótar framangreindu er rétt að nefna að Samkeppniseftirlitið er nú að yfirfara regluverk og verklag við rannsókn samrunamála með hliðsjón af reynslu síðustu ára. Við þá yfirferð styðst eftirlitið m.a. við sjónarmið og ábendingar sem því hafa borist. Er hverjum sem er velkomið að koma ábendingum á framfæri.
Umræða um þessi mál er gagnlegur og nauðsynlegur liður í framkvæmd samkeppnisreglna. Mikilvægt er hins vegar að sú umræða sé byggð á réttum upplýsingum.
Páll Gunnar Pálsson,
forstjóri Samkeppniseftirlitsins