20.12.2022

Samkeppniseftirlitið birtir ákvörðun vegna laxeldis samruna

Skilyrði um sölu Arctic Fish

  • Laxeldis-samruni

Samkeppniseftirlitið hefur birt rökstudda ákvörðun sína þar sem fram koma sjónarmið varðandi alþjóðlegan samruna SalMar og NTS, sem hefði meðal annars leitt til samruna Arnarlax og Arctic Fish.

Eins og kom fram í frétt Samkeppniseftirlitsins í síðasta mánuði lauk framkvæmdastjórn Evrópusambandsins rannsókn sinni á samrunanum með skilyrðum um sölu Arctic Fish frá hinu sameinaða fyrirtæki. Lauk rannsókn framkvæmdastjórnarinnar með sátt við málsaðila í lok október. Rannsókn Samkeppniseftirlitsins lauk 3. nóvember síðastliðinn.

Það var niðurstaða bæði rannsóknar framkvæmdastjórnarinnar og Samkeppniseftirlitsins að íslenskur eldislax tilheyri sérstökum vörumarkaði. Hefði samruninn að óbreyttu leitt til umtalsverðrar röskunar á samkeppni að því leyti að sameinað fyrirtæki hefði orðið langstærsti framleiðandi á íslenskum laxi inn á EES-svæðið. Hefði slíkur samruni getað leitt til hærra verðs og minni valmöguleika fyrir viðskipti með íslenskan lax.

Til að bregðast við þeirri samkeppnisröskun bauðst SalMar í viðræðum sínum við framkvæmdastjórn ESB til þess að undirgangast skilyrði og söluna. Sjá má þessa ákvörðun framkvæmdarstjórnarinnar í máli nr. M.10699 – SALMAR / NTS

Samkeppniseftirlitið telur að framangreint komi að fullu í veg fyrir þá samkeppnislegu röskun sem af samrunanum hefði annars hlotist hérlendis. Telur Samkeppniseftirlitið því ekki þörf á íhlutun og að ekki þurfi að aðhafast frekar vegna samrunans í kjölfar rannsóknarinnar.

Við rannsókn málsins átti Samkeppniseftirlitið gott samstarf við samkeppnisdeild framkvæmdastjórnar ESB og norska samkeppniseftirlitið.