Stór hluti stjórnenda íslenskra fyrirtækja telur sig verða varan við brot á samkeppnislögum
Samkeppniseftirlitið birtir í dag skýrslu um þekkingu og viðhorf stjórnenda íslenskra fyrirtækja til samkeppnismála
Stór hluti stjórnenda telur að samkeppnislagabrot eigi sér stað á þeirra markaði
Flestir telja að Samkeppniseftirlitið gegni mikilvægu hlutverki við að stuðla að virkri samkeppni á íslenskum mörkuðum
Samkeppniseftirlitið birtir í dag skýrslu nr. 7/2024 , Þekking og viðhorf stjórnenda íslenskra fyrirtækja til samkeppnismála. Í skýrslunni eru birtar niðurstöður könnunar sem Félagsvísindastofnun framkvæmdi fyrir Samkeppniseftirlitið á meðal stjórnenda íslenskra fyrirtækja árið 2023. Um var að ræða netkönnun sem send var til forsvarsmanna íslenskra fyrirtækja og svör bárust frá breiðum hópi stjórnenda fyrirtækja úr öllum kimum íslensks atvinnulífs. Samkeppniseftirlitið hefur áður látið framkvæma sambærilega könnun og greint frá niðurstöðum hennar í skýrslu nr. 3/2020.
Að mati Samkeppniseftirlitsins er sérstök ástæða til að staldra við eftirfarandi niðurstöður könnunarinnar:
Stór hluti stjórnenda íslenskra fyrirtækja telur að samkeppnislagabrot eigi sér stað á sínum markaði.
Rúmur þriðjungur (36%) stjórnenda íslenskra fyrirtækja telja sig verða vara við misnotkun fyrirtækja á markaðsráðandi stöðu og 31% skynja samráð á þeim markaði sem fyrirtækið starfar á, en lagt er bann við slíkum brotum í 11. og 10. gr. samkeppnislaga. Enn fremur skynja 31% að til staðar séu aðgerðir opinberra aðila sem takmarki samkeppni og 28% að til staðar séu séu samkeppnishamlandi lög, reglur og reglugerðir.
Samkeppnislög og beiting þeirra dregur á marktækan hátt úr samkeppnishamlandi háttsemi.
Samkeppnislög og starfsemi Samkeppniseftirlitsins virðast hafa töluverð áhrif á það hvernig íslensk fyrirtæki haga sinni ákvörðunartöku. Samkvæmt útreikningum sem byggja á niðurstöðum könnunarinnar má til að mynda áætla að á tímabilinu janúar 2019 til febrúar 2023 hafi tilvist samkeppnislaga og það aðhald sem felst í virku eftirliti stofnunarinnar leitt til þess að fyrirtæki hafi hætt við háttsemi sem hefði ella getað leitt til 377 samráðsmála (91 á ári). Lög um samrunaeftirlit, og óvissa um það hvort tiltekin áform um samruna samrýmdust þeim, urðu til þess að ætla má að hætt hafi verið við 49 samkeppnishamlandi samruna á tímabilinu (12 á ári).
Afleiðingar samkeppnislagabrota hafa öflug fælingaráhrif en mikilvægt er að koma lækkunar- og niðurfellingarreglum samkeppnislaga betur á framfæri.
Refsiábyrgð einstaklinga, neikvæð fjölmiðlafjöllun og sektir hafa hvað mest áhrif til að fæla fyrirtæki frá því að stunda háttsemi sem hefur samkeppnishamlandi áhrif, en 65-68% svarenda töldu þessa þætti hafa frekar mikil eða mjög mikil fælingaráhrif. Fælingaráhrif lækkunar- og niðurfellingarreglna samkeppnislaga (e. leniency) mælast lítil, en einungis 31% telja að þær hafi frekar mikil eða mjög mikil fælingaráhrif.
Mikilvægt er að efla þekkingu stjórnenda íslenskra fyrirtækja á kjarnaákvæðum samkeppnislaga og EES-samningsins.
Þekking stjórnenda íslenskra fyrirtækja á helstu ákvæðum samkeppnislaga er lítil. 23-24% þekkja ákvæði um bann við misnotkun á markaðsráðandi stöðu og samráði (11. og 10. grein) vel. Litlu færri þekkja ákvæði um samrunaeftirlit og um háttsemi opinberra aðila (17. og 16. grein), 17-18% þekkja þau ákvæði vel. Þessar niðurstöður eru sambærilegar niðurstöðum úr sambærilegum könnunum á meðal stjórnenda norskra og finnskra fyrirtækja.
Þekking á evrópskum samkeppnisreglum mælist síðan ennþá minni, en einungis 8% þekkja þær vel samanborið við 63% sem þekkja þær illa.
Einnig var spurt um þekkingu á lækkunar- og niðurfellingarreglum (e. leniency). 71% svarenda vissu ekki af tilvist slíkra reglna.
Stjórnendur íslenskra fyrirtækja telja að Samkeppniseftirlitið gegni mikilvægu hlutverki við að stuðla að virkri samkeppni á íslenskum mörkuðum og telja margvíslegar leiðir færar til þess að efla samkeppni.
Meirihluti stjórnenda íslenskra fyrirtækja telur að Samkeppniseftirlitið gegni mikilvægu hlutverki, en 56% eru sammála þessari fullyrðingu. Litlu færri, 44-46%, eru sammála því að samkeppnislögin og framkvæmd þeirri vinni gegn misnotkun á markaðsráðandi stöðu og samráði, og 28% eru sammála því að þau hafi áhrif á ákvarðanir fyrirtækisins um samruna og yfirtökur.
Í skýrslu nr. 7/2024 eru niðurstöður könnunarinnar greindar og settar í samhengi við niðurstöður úr könnuninni sem framkvæmd var árið 2020 og álíka kannanir sem framkvæmdar hafa verið erlendis. Lesa má skýrsluna í heild sinni hér . Í viðauka við skýrsluna er niðurstöðuskýrsla Félagsvísindastofnunar þar sem sjá má ítarlegar niðurstöður allra spurninga og greiningu eftir bakgrunnsbreytum, en viðaukann má nálgast hér.